Ný aðalnámskrá – samfélagsgreinar

Á síðasta ári kom út nýr almennur hluti aðalnámskrár sem mun hafa mikil áhrif á þróun skólastarfs næstu árin. Það sem einkum virðist hafa vakið athygli í nýju námskránni eru grunnþættirnir og námsmatið. Grunnþættirnir: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun eru hinir sömu í leik-grunn-og framhaldsskólum. Í námskránni segir að  hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir skulu vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða. Þannig eiga grunnþættirnir að flettast inn í allt skólastarf, allar kennslustundir en ekki einskorðast við einstakar greinar eins og t.d. lífsleikni.

Eftir því sem ég hef heyrt varðandi námsmatið eru það ekki síst nýju hugtökin lykilhæfni og hæfniviðmið sem vefjast fyrir fólki auk hugtaka eins og hæfniþrep og leiðbeinandi námsmat en einnig nýir matskvarðar þ.e. bókstafir í stað tölustafa.

Auk almenna hlutans eru komin út drög að nýjum greinanámskrám þ.á.m. samfélagsgreinum í þeim eru falin víðari svið og fleiri námsgreinar og efnisþættir en verið hefur áður. Undir samfélagsgreinar heyra nú meðal annars námsgreinar sem kallaðar hafa verið samfélagsfræði en einnig er um að ræða sögu, landafræði, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni og siðfræði. Þær tengjast líka öðrum fræðigreinum eins og heimspeki, kynjafræði, sálfræði, stjórnmálafræði og hagfræði.  Í drögunum segir: Þessar greinar og námsþættir eru ekki aðgreind í aðalnámskránni en skólunum látið eftir að haga greinaskiptingu eftir því sem skynsamlegast, hentugast og árangursríkast er við hverjar aðstæður meðan öll hæfniviðmið eru höfð í huga innan þess ramma sem námssviðinu er markaður í viðmiðunarstundaskrá sem birt er í almennum hluta aðalnámskrár.

Það vakti athygli mína og ánægju að sjá að í aðalnámskránni- samfélagsgreinar er sérstakur kafli um kennsluhætti þar sem m.a. eru undirstrikuð mikilvægi eflingar gagnrýninnar hugsunar, ígrundunar og umræðu. Vísað er til þess hvernig hópvinna og paravinna getur alið af sér samkennd, samræður, tjáningu og dýpri skilning ásamt því að auka skilning á viðhorfum og skoðunum annarra og styrkja sjálfsmynd, auka sjálfstraust nemenda og kenna þeim að taka tillit til annrra og leysa ágreining. Augljóst er að þarna fléttast inn grunnþættir menntunar ekki síst lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Hópvinna er einnig talin vera mikilvægur grunnur að góðum skólabrag og forvörnum gegn einelti og öðru ofbeldi eins og fram kemur m.a. í rannsókn sænska skolverket

Pestalozzi, sem vinnur að innleiðingu menntaáætlunar Evrópuráðsins um skóla án ofbeldis, leggur megin áherlsu á mikilvægi þess að skólar þjálfi nemendur skipulega í því að vera þátttakendur í lýðræðissamfelagi en það verður best gert með markvissu samstarfi nemenda þar sem hlutverk hvers og eins er vel skilgreint. Það nægir að sjálfsögðu ekki að setja fjóra nemendur saman við borð, viðfangsefnið þarf að vera sameiginlegt og krefjast framlags allra. Í fjölmenningarlegu skólastarfi getur vel skipulögð hópvinna verið lykilinn að gagnkvæmum skilningi og virðingu.

Til eru ýmsar útfærslur af hópvinnu s.s. söguaðferðin, þemanám og landnámsaðferðin.  Í námskránni er bent á fleiri kennsluaðferðir sem geta stuðlað að aukinni hæfni í samfélagsgreinum s.s. umræðu- og spurnaraðferðir.  Vísað er til þess að leitaraðferðir henta vel til að kynna nemendum vísindaleg vinnubrögð og veita þeim þjálfun í að afla upplýsinga og vinna úr þeim með skipulögðum hætti. Dæmi um slíkar aðferðir eru heimildavinna, vettvangsferðir og viðtöl. Annað  dæmi um aðferð, sem bent er á þar sem reynir á lýðræðislegt skipulag, umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu fyrir skoðunum annarra eru bekkjafundir þar segir:  Á slíkum fundum þurfa allir að fá tækifæri til að tjá sig og læra að taka tillit til annarra eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Þar er hægt að ræða málefni líðandi stundar, álitamál eða atvik í lífinu og reyna að finna flöt sem samstaða er um. Leikræn tjáning og hlutverkaleikir eru einnig kennsluaðferðir sem æfa nemendur í að setja sig í spor annarra og takast á við ímyndaðar aðstæður, samfélagsleg málefni og álitamál.

Í mínum huga ætti áherslan á aukið skipulagt samstarf nemenda að vera okkur öllum hvatning um að endurskoða starfshætti skólanna. Í nýútkominni rannsókn Gerðar G. Óskarsdóttur um skil skólastiga kemur einmitt fram að samstarf nemenda í þeim bekkjum sem hún skoðaði er miklu minna en æskilegt má telja miðað við áherslur nýrrar aðalnámskrár. Enn virðist algengast að nemendur sitji hver við sitt borð og vinni að sínu verkefni. Nú er tækifæri til að breyta.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s