Í erindi sem Pasi Sahlberg flutti á ráðstefnunni Future Teachers í ágúst s.l. varaði hann við sýklinum sem geisar um skólakerfi heimsbyggðarinnar þar á meðal í U.S.A. Englandi, Ástalíu, Asíu og Svíþjóð. Sahlberg fjallar nánar um sýkilinn svakalega á heimasíðu sinni.
Hann segir það hafa komið öllum í opna skjöldu þegar í ljós kom fyrir rúmum áratug síðan að Finnland væri með bestu skóla í heimi. Með tilliti til þess að Finnar líta á menntun sem almenningseign, gæði sem allir hafa ókeypis aðgang að, kom þetta á óvart. Þar eru ekki stöðluð próf né einkaskólar sem taka þátt í samkeppni. Þegar Sahlberg skoðar þjóðir heims segist hann sjá hvernig samkeppni, frjálst val og mælingar á nemendum og kennurum eru nýtt sem aðferðir til að bæta menntun. Þessi alþjóðlega markaðsvæðing hefur komið mörgum opinberum skólum í USA og víðar í vanda, en það á ekki við um Finnland.
Það má spyrja hvað hafi gert finnsku skólana svo sérstaka. Svarið hefur komið mörgum á óvart, segir Sahlberg. Í fyrst lagi þá hafa Finnar aldrei stefnt að því að verða bestir í menntun, heldur hefur markmiðið verið góðir skólar fyrir öll börn. Með öðrum orðum þá skiptir jafnræði í menntun meira máli en samkeppnin um toppinn.
Í öðru lagi líta Finnar kennslu alvarlegum augum og hafa því gert kröfur um að allir kennarar njóti góðrar þjálfunar í akademiskum háskólum. Litið er svo á að allir kennarar eigi að njóta faglegs sjálfstæðis og trausts í störfum sínum. Þetta hefur leitt til þess að kennsla er eftirsóttur starfsvettvangur meðal ungra Finna. Í dag fer 30 sinnum meiri tími til faglegar þróunar kennara og skólastjórnenda en í það að prófa nemendur.
Í þriðja lagi þá hafa Finnskir skólamenn markvisst lært af reynslu annarra þjóða hvað varðar skólaþróun. Bandaríkin hafa verið Finnum sérstakur innblástur allt frá dögum John Dewey. Kennsluaðferðir eins og samvinnunám, lausnarmiðað nám og portfolio eru dæmi um nálganir sem eru mjög algengar í finnskum kennslustofum, og eiga rætur í Bandaríkjunum.
Sahlberg segir það hafa vakið athygli hans hve menntakerfum þjóða svipar mikið saman. Umbætur menntamála í mismunandi löndum fylgja einnig svipuðu mynstri sem Sahlberg telur vera svo augljóst að hann kallar það „The Global Educational Reform Movement“ eða GERM þ.e. sýkil. Þetta er eins og faraldur sem dreifist um menntakerfinn líkt og sýkill. Hann dreifist með menntamönnum, fjölmiðlum og stjórnmálamönnum. Skólakerfi fá lánaðar stefnur hvert hjá öðru og smitast. Afleiðingarnar eru þær að skólarnir veikjast, kennurum líður illa og nemendur læra minna.
Samkvæmt Sahlberg hefur sýkillinn þrjú megin einkenni.
Einkenni nr. 1. Aukin samkeppni innan skólakerfa, milli skóla, milli kennara, milli nemenda. Þeir sem trúa á mátt samkeppninnar halda því fram að skólarnir þurfi aukið sjálfstæði en því fylgir sjálfkrafa meiri krafa um að skólarnir standi skil á starfi sínu. Það er gert með stöðluðum prófum, eftirliti og mati á gæðum kennara. Þegar áherslan verður á samkeppni þá dregur úr samvinnu.
Einkenni nr. 2. Það er litið á foreldra sem viðskiptavini og áhersla er á frelsi foreldra til að velja skóla fyrir börnin sín. Þetta kallar á markaðsvæðingu skólanna. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að þjóðum sem ganga hvað lengst í þessu fer aftur í námsárangri og munurinn milli árangurs skólanna eykst.
Einkenni nr. 3. Meiri krafa til skólanna og aukinn ábyrgð er sett á þá og kennara um að skila árangri. Fylgjendur þessarar hugmyndafræði líta svo á að með því að gera kennara ábyrga fyrir árangri nemenda þá muni árangur nemenda aukast. Stöðluð próf eru sú aðferð sem mest er notuð til að leggja mat á gæði skóla og kennara. Rannsóknir hafa sýnt að áherslur á stöðluð próf stuðla að kennsluháttum sem miða að því að undirbúa nemendur undir próf og draga jafnframt úr áherslum á uppeldishlutverk skólans.
Eins og fram kom á fyrrnefndri ráðstefnu þá hvetur Sahlberg Norðurlöndin til að verjast sýklinum með því að leggja áherslu á styrkleika sína. Þar nefndi hann sérstaklega samábyrgð, samvinnu, félagslegan jöfnuð, sköpun og frumkvæði. Norðurlöndin eiga að hans mati að vinna meira saman að því að greina styrkleika sína og þróa nám og kennslu sem eflir þessa þætti. Það eru þeir sem gera okkur sterk á hinum alþjóðlega vinnumarkaði. Í rauninni er þetta sama hugmyndafræðin og sú sem leggur áherslu á að greina styrkleika hvers einstaks nemanda og leggja áherslu á eflingu þeirra í stað þess að leita að veikleikunum og beina allri athyglinni að þeim.
NKC