Af hverju hefur dregið úr virðingu kennara?

virdingMargt bendir til þess að hlutverk kennara sé í uppnámi, það virtist a.m.k. almennt viðhorf þátttakenda á ráðstefnu um skólamál sem haldin var í Stasbourg í apríl. Eins og áður hefur komið fram hér í Krítinni var ráðstefnan sótt af 200 kennurum og öðrum sérfræðingum um skólamá frá flestum löndum Evrópu. Þrátt fyrir auknar og breyttar körfur til kennara, lýstu margir áhyggjum sínum yfir þverrandi virðingu fyrir starfi kennara sem m.a. kemur fram í lágum launum.

Fyrir okkur sem störfum að skólamálum hlýtur þetta að vera áhyggjuefni. Það er erfitt að hugsa sér skóla án kennara og kennari sem ekki nýtur virðingar samfélagsins, foreldra og nemenda er eins og fugl án vængja.

Ef þetta er raunin hlýtur maður að spyrja hvað valdi? Það fyrsta sem margir nefna er aðdáunin samfélagsins á peningum og gróða.  Mesti mannkosturinn er að græða líkt og samstarfsmaður minn sagði gjarnan: „ Sá sem á mest dót þegar hann deyr, hann vinnur“. Það er nokkuð ljóst að kennarar eiga ekki miklar sigurlíkur í þeirri keppni.

Eitt af því sem ég hef heyrt nefnt til skýringar á dvínandi virðingu kennara er að netið hafi breytt sérstöðu skólans og þar með kennara. Það þurfi í rauninni ekki lengur að fara í skóla til að læra, öll þekking liggi á netinu, sé þar aðgengileg öllum og framsetningin oftast skemmtilegri en í bókum, á skólatöflu eða á vinnublöðum. Börn gætu í rauninni setið heima við tölvurnar sínar og lært það sem þau þurfa að læra þ.e. ef einhver væri heima til að gæta þeirra.

Hér er kannski komin önnur skýring á skertri virðingu kennara. Í flestum tilvikum eru báðir foreldrar útivinnandi og því þarf að tryggja öryggi barna þeirra og nægingu yfir daginn. Þannig hefur hlutverk skólans að einhverju leyti hvarflað frá því að vera menntastofnun yfir í það að vera þjónustustofnun. Meðfram þessu breytist hlutverk kennara umtalsvert. Það er ekki lengur þekking hans á námsefninu og kennslufræði sem vegur þyngst heldur umhyggja hans fyrir almennri velferð barnanna. Það er með öðrum orðum meiri eftirspurn eftir hjartahlýju en fræðilegri þekkingu. Og hvenær hefur slíkt notið virðingar og hárra launa?

Loks langar mig til að nefna þróun fagstétta. Það fer auðvitað ekki framhjá neinum að samfara breytingum á samfélaginu hafa störf flestra ef ekki allra stétta breyst. Eins og gefur að skilja passa einkenni fagstétta fyrri áratuga almennt illa inn í samtímasamfélagið. Það á jafnt við um kennara sem aðrar fagstéttir.  Ribbins (1990) dregur fram helstu einkenni á fagmennsku kennara sem hann kallar; ósjálfstæða fagmennsku, sjálfstæða fagmennsku og samvirka fagmennsku. Við sem eigum langan kennaraferil að baki þekkjum öll einkennin. Jafnvel þó kenning Ribbins sé komin nokkuð til ára sinna, finnst mér hún enn eiga erindi við okkur. Hér er lítið brot á lýsingu hans, en Trausti Þorsteinsson hefur gert efni Ribbins góð skil.

Ósjálfstæð fagmennska

Skýr mörk eru dregin milli heimilis og skóla og afskipti foreldra af skólanum talin óæskileg. Foreldrar treysta kennaranum til að sinna verkefnum sínum. Foreldrar bera ábyrgð heima en kennarinn í skólanum. Námsárangur er á ábyrgð nemandans og því ekki við kennarann að sakast ef út af ber.

Sjálfstæð fagmennska:

Þeir sem aðhyllast hina sjálfstæðu fagmennsku líta á nemendur og foreldra sem skjólstæðinga og undirstrika gildi sérfræðiþekkingar sinnar og valds sem fagmanna. Sjálfstæðir kennarar meta og skilgreina þarfir nemenda og á hvern hátt þeim skuli mætt. Þeir eru húsbændur í samskiptum við nemendur og foreldra og sætta sig illa við að foreldrar séu þeim ósammála og beita jafnvel þvingunarvaldi.

Samvirk fagmennska

Þeir sem aðhyllast samvirka fagmennsku vinna með foreldrum á jafnræðisgrundvelli. Á grundvelli samstarfsins hagnýtir kennarinn sér upplýsingar frá foreldrum til að skoða og þróa eigið starf. Hann afsalar sér hefðbundnu húsbóndahlutverki en leggur þess í stað áherslu á leiðtogahlutverk sitt. Allar ákvarðanir er varða nám og starf í skóla, snerta ekki aðeins kennara og nemendur heldur einnig foreldra. Foreldrar hafa réttindi og skyldur gagnvart uppeldi og menntun barna sinna og eru því hluti liðsheildarinnar. Hluti af faglegri ábyrgð kennarans felst í því að finna hentuga leið til að tryggja áhrif foreldra á uppeldi, nám í samvinnu við kennarann.

Lýsing á samvirkri fagmennsku er í fullu samræmi við áherslur aðalnámskrár grunnskóla, 2011.  Þeir kennarar sem tileinka sér þessa fagmennsku eru væntanlega líklegri til að njóta virðingar en þeir sem ekki gera það, enda passar hlutverkið vel inn í samtímasamfélagið. Sú virðing sem þeim er sýnd hefur  hins vegar önnur einkenni en þegar virðingin var samofin ójafnræði og sérfræðingsvaldi. Ef einhverjir kennarar halda enn í einkenni ósjálfstæðrar -og sjálfstæðrar fagmennsku og vænta virðingar í samræmi við það eru þeir dæmdir til vonbrigða.

Ég hef líka hitt fólk sem er algerlega ósammála því að hlutverk kennara sé í uppnámi og telur að virðing stéttarinnar hafi lítið breyst. Það er sama hvað okkur finnst um það, málið er að faglegt hlutverk kennara krefst sífelldrar endurskoðunar og endurskilgreiningar og þá vinnu þurfa kennararnir sjálfir að leiða í samstarfi við samfélagið.

 NKC

Heimild:

Ribbins, P. 1990. Teachers as professionals: Towards a redefinition. Central and local control of education after the education reform act 1988 (ritstj. R. Morris) bls. 77–94. Harlow, Longman.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s