Um þessar mundir er Krítin tveggja ára. Það er magnað hvað lítil hugmynd getur vaxið og dafnað. Við ritstýrurnar tökum eitt ár í einu og höfum ákveðið að halda áfram í það minnsta í eitt ár i viðbót. Það er alls ekki sjálfgefið að halda svona síðu úti í tómstundum sínum, en þar sem við erum brennandi af áhuga látum við ekki deigan síga.
Við erum mjög þakklátar fyrir þær góðu móttökur sem við höfum fengið og ánægðar með að vera búnar að safna rúmlega 1200 „lækum“ á facebook. Við finnum að það er fylgst með Krítinni í skólum og æ algengara er að kennarar sem við hittum láti okkur vita af því að þeir lesi Krítina. Þannig að í dag erum við sannfærðar um að við erum ekki bara að skrifa út í tómið, við vitum af lesendahópi sem er góð tilfinning.
Við þökkum dyggum lesendum fyrir samfylgdina og hlökkum til að deila með ykkur áhugamáli okkar áfram. Sameiginlega tekst okkur vonandi að lyfta umræðu um skólamál á Íslandi upp úr þeim hjólförum sem hún hefur verið í. Tölum faglega um skólastarf og menntun barna okkar, lyftum upp því sem vel er gert og lögum það sem miður fer. Ásakanir og dómharka koma okkur ekkert áfram.