Það er ekki að ástæðulausu sem margir kennarar kvarta undan mikilli pressu vegna fjölgunar verkefna. Samfara vaxandi skilningi á mikilvægi menntunar fyrir afkomu einstaklinga og þjóða aukast stöðugt kröfurnar um gæði skóla og aukinn námsárangur, en það leiðir til margvíslegra þróunarverkefna. Þetta er langt því frá að einskorðast við Ísland, fjölmargar þjóðir hafa tekist á við breytingar í menntamálum, en breyting þýða ekki endilega það sama og framfarir. Margt hefur verið reynt og mistekist, sumt jafnvel gert illt verra. Allmargar tilraunir hafa samt tekist vel og við höfum lært margt um það hvernig á að ná fram árangursríkum breytingum í öllu skólakerfinu segir í skýrslu sem Ben Levin við Háskólann Í Toronto, vann fyrir International Academy of Education; System-wide improvement in education . Í skýrslunni fjallar Levin einkum um árangur skólakerfisins í Ontario. Hér verður drepið á nokkrum atriðum í skýrslunni:
Stundum fara stjórnvöld af stað í breytingar með neikvæðum skilaboðum, jafnvel árásum á starfandi skólakerfi m.a. með yfirlýsingum um að skólarnir séu ekki nægilega góðir o.s.frv. En flest verkefni sem misheppnast gera það vegna þess að það eru gerðar stjórnsýslubreytingar og svo bíða menn eftir því að kraftaverkin gerist. Það gerist bara ekki. Ef það er eitthvað sem við getum lært þá er það að breytingar sem gerðar eru Á skólunum skila ekki árangri. Breytingarnar verður að undirbúa þannig að þær veki áhuga hjá hugsjónarfólki sem starfar að menntamálum og á þann hátt að fagfólkið skuldbyndi sig breytingunum. Raunverulegar breytingar eru því aðeins mögulegar að það takist að vekja áhuga fólks bæði sem einstaklinga og hópa. Yfirleitt ná engar breytingar fram að ganga nema kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk helgi sig verkefninu og sé tilbúið til bæta starf sitt. Jafnframt þurfa nemendur og foreldrar að sjá sér persónulegan hag af breytingunum.
Flestar breytingar mæta einhverri andstöðu í upphafi og ef ekki næst að byggja upp jákvætt viðhorf til þeirra með tímanum eru þær dæmdar til að mistakast. Forsenda þess að hægt sé að breyta heilum skólakerfum er að það takist að byggja upp þau viðhorf hjá kennurum að menntun snúist um árangur allra nemenda, en það eitt og sér nægir samt ekki. Allir skólar þurfa að taka þátt í verkefninu. Það má ekki einskorða vinnuna við skóla sem standa illa, vegna þess að í öllum skólum eru nemendur sem ná ekki nægilega góðum árangri í námi. Verkefnið verður að fela í sér viðurkenningu á því að það þurfi að taka tillit til hindrana sem geta komið í veg fyrir að nemendur nái fullnægjandi árangri þetta gæti t.d. átt við um kynferði, uppruna og tungumál.
Ef heildrænar breytingar í skólastarfi eiga að ná fram að ganga þurfa þau að einkennast af eftirfarandi:
- Tvö – fjögur vel skilgreind grundvallarmarkmið
- Viðkomandi markmið þurfa að vera mikilvæg í hugum almennings
- Markmiðin stuðla augljóslega að jákvæðum breytingum í lífi barna
- Markmiðin þurfa að vera metnaðarfull en jafnframt raunsæ
- Markmiðin þurfa að vera opinber og mælanleg á einhvern hátt svo hægt sé að staðfesta árangur
- Það þarf að gæta þess að árangursmælingar yfirskyggi ekki markmiðið sjálft
- Hættan við að einblína á fá markmið er sú að önnur mikilvæg verkefni verði undir, það þarf að finna leið til að hindra það
- Það þarf að gæta vel að því hvernig niðurstöður mælinga eru notaðar
Þetta voru lykilatriðin í gæðaþróun skólakerfisins í Ontario sem hófst árið 2004 og árangurinn hefur verið verulegur á öllum sviðum sem mæld hafa verið. Dæmi um það er að nú ná 70% grunnskólanemenda góðum árangri (high level) í læsi og stærðfræði samanborðið við 55% fyrir fáeinum árum síðan. Skilgreindum lélegum skólum hefur fækkað verulega, árið 2011 komu skólarnir í Ontario í fyrsta skipti best út af öllum skólum í Kanada í tilteknu prófi, einnig má nefna miklar framfarir í Pisa. Samfara þessum góðu framförum jókst ánægja kennara í starfi.
Í Ontario voru eftirfarandi þrjú markmið sett:
- Meiri árangur allra nemenda
- Færri nemendur með lágmarks einkunnir
- Aukið almennt traust til skólakerfisins
Tvö árangursviðmiði voru sett: 75% nemenda eiga að ná „High level“ í læsi og stærðfræði í grunnskólanum og 85% nemenda eiga að útskrifast úr „high school“ innan skilgreinds tímabils og með tilteknum mælitækjum.
Mergurinn málsins er sá að við getum lært af reynslu annarra þegar við hyggjumst fara í breytingar á skólastarfi, því staðreyndin er sú að sumar breytingar gera aðeins illt verra á meðan aðrar stuðla að miklum árangri.
NKC
Bakvísun: Góðir kennarar skila góðum árangri | Krítin·
Bakvísun: Próf | Krítin·