Hvað myndi gerast ef finnskir kennarar kenndu í íslenskum skólum?

hanntlikanÞað er ekki aðeins hér á litla Íslandi sem vaxandi þrýstingur er á skólayfirvöld um að auka námsárangur nemenda. Þessi þrýstingur verður sérstaklega áberandi eftir að niðurstöður alþjóðlegra kannanna eins og Pisa hafa verið birtar. Vitaskuld vilja allar þjóðir með sjálfsvirðingu vera á toppnum í þessari keppni. Umbótasinnar í skólamálum leita nú logandi ljósi að töfralausninni sem öllu muni bjarga og athyglin beinist að kennaranum. Sú fullyrðing heyrist oft að enginn einstakur þáttur hafi eins mikil áhrif á námsárangur nemanda og gæði kennara og margir trúa því að ef aðeins væri hægt að laða greindustu og hæfileikaríkustu einstaklingana í kennarastarfið þá myndu gæði menntunar aukast til muna. Þessi áhersla á gæði kennarans hefur m.a. leitt til þess að í sumum löndum miðast laun kennara að einhverju leyti við árangur þeirra.

Eins og fram kemur í grein finnska fræðimannsins Pasi Sahlberg þá hefur hann sínar efasamdir um þessar miklu áherslur á kennarann. Sahlberg vekur m.a. athygli á því að yfirleitt sé eingöngu verið að horfa til þeirra kennara sem kenna námsgreinarnar sem eru metnar í viðkomandi prófum. Staðreyndin er aftur á móti sú að allir kennararnir í skólanum hafa áhrif því nú orðið vinna þeir meira og minna í teymum. Kennarar eru þess vegna í svipaðri stöðu og leikmenn í liði, hver og einn skiptir máli og það er ekki síst andinn í liðinu eða skólabragurinn sem hefur úrslitaáhrif á árangurinn.  Finnland stendur sig afar vel í Pisa könnuninni en þar í landi er frekar horft til skólans en til einstakra kennara, skólinn fylgir ákveðinni stefnu sem öllum er ætlað að fylgja, þannig eiga kennararnir  sameiginleg markmið sem þeir vinna að.

Sahlberg bendir einnig á að niðurstöðum rannsókna, sem reyna að skýra hvað það er sem hefur áhrif á námsárangur nemenda, beri ekki öllum saman. Algengt er að því sé haldið fram að 10% – 20% námsárangurs nemenda megi rekja til þess sam fram fer í kennslustofunni. Svipað hlutfall er rakið til annarra áhrifa innan skólans t.d. til skólabrags, aðbúnaðar og stjórnunar. Það má með öðrum orðum skýra allt að 70% af námsárangri nemenda með áhrifaþáttum sem eru utan skólans, hér er fyrst og fremst átt við fjölskyldur nemenda, námsáhuga þeirra og félagana. Þó við fylltum skólann af góðum kennurum er því alls ekki víst að það eitt dygði til að auka námsárangur nemenda.

Það eitt að einblína á kennarann þegar auka á námsárangur nemenda gengur ekki upp, þrátt fyrir að finnskir kennarar væru altalandi á íslensku er engan veginn víst að námsárangur íslenskra nemenda myndi aukast þó þeir tækju við kennslunni í íslenskum skólum.  Kennsluaðferðir þeirra henta  finnskum nemendum vissulega vel en það er ekki sjálfgefið að það sama eigi við um íslenska nemendur.  Í bók sinni; The Finnish Lesson heldur Sahlberg því nefnilega fram að það sé ekki hægt að afrita skóla í einu landi og líma hann svo niður annars staðar því hver þjóð þurfi að þróa skóla sína á grunni eigin menningar og sérkenna.

Af skrifum Sahlberg má draga þá ályktun að það séu ekki til „patentlausnir“ þegar auka á námsárangur nemenda, heldur þurfi að skoða heildarmyndina. Auk þess að tryggja nemendum góða kennara þarf einnig að horfa til stjórnunar skólans, skólabragsins og stjórnsýslunnar en síðast en ekki síst þarf að vinna með foreldrum nemenda og leita leiða til að gefa þeim aukna hlutdeild í námi barna sinna. Jafnframt  þurfum við að vera meðvituð um þann menningarlega jarðveg sem við ræktum skólann okkar í þegar við vinnum að þróun hans, greina styrkleikana og byggja á þeim.

NKC

2 athugasemdir við “Hvað myndi gerast ef finnskir kennarar kenndu í íslenskum skólum?

  1. Langar að benda ykkur á grein Sahlbergs í Educational Leadership frá því í október á síðasta ári. Þar fjallar hann m.a. leiðtogahlutverk kennarans og þátt hans í velgengni finnsks skólakerfis sem vissulega eru menningarbundinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s