Próf

profinEitt af því sem ég ætla að gera í sumarleyfinu er að lesa nýútkomna bók sem vakið hefur athygli, það er Hvítbók um umbætur í menntamálum. Skoðanir virðast skiptar, sumir eru mjög ánægðir en aðrir síður og þá er það helst áherslan á próf og skimanir sem óánægðir lesendurnir setja fyrir sig. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að tjá mig um Hvítbókina fyrr en ég hef lesið hana, en viðhorfin til prófa sem koma fram í umræðunni hafa vakið mig til umhugsunar.

Þeir sem óttast auknar áherslur á próf og skimanir gera það sjálfsagt vegna þess að þeir sjá fyrir sér að prófin og niðurstöður þeirra verði markmið í sjálfu sér. Að allt nám muni miðist við að undirbúa nemendur undir próf. Þannig verði þekking og færni sem auðvelt er að prófa álitin mikilvægari en sú ekki er jafn auðveldlega hægt að mæla í prófi. Niðurstöður prófanna verði svo einhverskonar gæðastimpill á nemendur og tilhneigingin verði sú að troða öllum í sama boxið. Ég tek undir með þeim sem ekki vilja þannig menntakerfi.

Ef litið er til aðalnámsskrár grunnskóla, 2011 , 3. kafla þá birtist allt önnur hugmyndafræði í tengslum við markmið námsmats þ.á.m. próf og skimanir:  Megintilgangur námsmats er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Með námsmati er fylgst með því hvernig þeim tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hvaða aðstoð þeir þurfa.

Þarna eru augljós tengsl á milli markmiða og námsmats  próf eru til þess gerð að meta hvernig tekist hefur að ná viðkomandi markmiðum. Það er í rauninni erfitt að sjá fyrir sér að hægt sé að vinna að tilteknu markmiði án þess að staldra reglulega við og kanna hvernig gengur. Þetta á við þegar maður prjónar peysu, gengur á fjall, bakar köku eða er í megrun. Ef maður  tekur ekki upp málbandið reglulega, lítur upp hlíðina, kíkir inn í ofninn eða stígur á viktina þá er erfitt að átta sig á því hvar maður er staddur í ferlinu og grípa til viðeigandi ráðstafana ef á þarf að halda. Próf, önnur en lokapróf, eiga að virka á sama veg niðurstöður þess eiga að upplýsa kennarann, nemandann og foreldra hans um hvernig nemandanum hefur tekist að ná markmiðum sínum í stærðfræði eða öðrum greinum svo hægt sé að bregðast við, því það er aldrei við nemandann einan að sakast þegar niðurstöður námsmats og skimana eru undir væntingum.

Próf eða skimanir mega aldrei stýra stafi skólans ekkert frekar en áttavitinn stýrir ferð göngumannsins. Próf og skimanir eiga að vera verkfæri sem hjálpa okkur til að ná tilteknum markmiðum með velferð hvers einstaks nemenda að leiðarljósi. Eðli málsins samkvæmt á annað við um lokapróf. Svo ég vitni enn í skrif Ben Levin þá bendir hann á að skólakerfi sem ná bestum árangri hafi sett sér skýr markmið sem séu á einhvern hátt mælanleg svo hægt sé að meta árangurinn. Hvers vegna ætti það sama ekki að eiga við um nemendur? Menntun hlýtur að verulegu leyti að snúast um að nemendur nái tilteknum markmiðum sem sett hafa verið af stjórnvöldum og/eða einstökum kennurum, prófin eiga aðeins að vera verkfæri sem leiðbeinir okkur fram á við.

NKC

 

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s