Ef nemendur ná ekki þeim árangri sem stefnt er að þá er við okkur sjálf að sakast sagði skólastjóri í Reykjanesbæ á fundi þar sem stefna og árangur grunnskólanna í Reykjanesbæ var kynnt fyrir áhugasömu reykvísku skólafólki. Þar í bæ skýrir skólafólk ekki slakan árangur nemenda með erfiðum árgöngum, veikum félagslegum bakgrunni nemenda né heldur háu hlutfalli barna af erlendum uppruna enda benti fræðslustjórinn Gylfi Jón Gylfason á þá kunnu staðreynd að útlendingar gætu bæði lært að lesa og reikna. Erfiðir árgangar eða veikur félagslegur bakgrunnur nemenda gerir hinsvegar meiri kröfur til kennaranna, minnti fræðslustjórinn á, og eina leiðin sem við höfum á valdi okkar til að auka námsárangur nemenda er að breyta og bæta vinnulag kennara. Ekki vegna þess að það hafi verið slæmt, heldur vegna þess að það á að verða enn betra. Allt bendir til að það hafi tekist . Það virðist ljóst að Reykjanesbær státar af góðum kennurum og stefnan er enn tekin upp á við.
Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með því úr fjarlægð hvernig heilu sveitarfélagi hefur tekist að snúa við blaðinu þegar kemur að árangri nemenda í samræmdum prófum. Frá því að hafa verið neðarlega á þeim lista og með hátt hlutfall brotthvarfs stefna skólarnir nú hraðbyr upp á við jafnframt því sem dregið hefur úr brotthvarfi nemenda. Þessi árangur ætti að vera öllum sem hafa áhuga á menntun og bættu samfélagi mikil hvatning.
Leiðin sem sveitarfélagið fór er hvorki einstök né flókin svipuð aðferð hefur t.d. verið notuð í Ontario í Kanada með eftirtektarverðum árangri en Ben Levin hefur m.a. fjallað um hann eins og Krítin hefur áður greint frá. Í fáum orðum snýst málið um sáttmála samfélagsins þ.e. stjórnmálamanna, embættismanna, skólastjóra, kennara, annarra sérfræðinga og foreldra, skýra stefnu, fá en vel afmörkuð markmið, viðeigandi bjargir, reglulegt mat á árangri, viðbrögð við niðurstöðum á matinu, skráningar, upplýsingagjöf og virka hlutdeild foreldra í námi barna sinna.
Sáttmálinn í Reykjanesbæ snýst um að breyta erfiðu samfélagslegu ástandi , sem skapaðist í kjölfar alvarlegs hruns í atvinnulífinu, í gegnum skólann. Markmiðið er að auka námsárangur nemenda með áherslu á læsi og stærðfræði. Skólastjórar í leik- og grunnskólum eiga hlutdeild í stefnunni og mótun útfærslunnar. Það sem skiptir samt mestu máli er að það tókst að fá lykilfólkið þ.e. kennarana til að tileinka sér hugmyndina og ekki síður að foreldrar fengust einnig með í leikinn.
Þegar stefnt er að ákveðnu markmiði er lykil atriði að meta jafnt og þétt hvar hver og einn nemandi er staddur á vegferð sinni. Þekktasta leiðin til að meta slíkan árangur í námi er próf eða skimanir. Í Reykjanesbæ er nú byrjað að meta árangur barna við tveggja ára aldur og því haldið skipulega áfram úr grunnskólann. Matið er byggt á fyrirfram gefnum gátlistum eða viðmiðum sem eru sett um árangur í læsi og stærðfræði í öllum aldurshópum. Námið í skólanum er skipulagt úr frá niðurstöðum skimunarinnar. Þegar nemendum tekst ekki að ná markmiðunum fá þeir sérhannað ítarefni til að vinna með þar til þekking þeirra er prófuð aftur. Þannig er um stöðugt leiðbeinandi námsmat að ræða.
Foreldrum er boðin fræðsla og þeim er markvisst gefin hlutdeild í námi barna sinn með því að upplýsa þá um áherslur námsins þeir fá m.a. senda gátlista fyrir skimanirnar svo þeir geti aðstoðað börn sín við undirbúninginn. Þeim eru einnig kynntar niðurstöður barna sinna í skimununum og þegar þörf er fá foreldrar stuðning og aðhald frá skólanum. Leikskólarnir fá einnig upplýsingar um árangur barnanna sem koma frá þeim svo þeir geti lært af reynslunni og unnið að áframhaldandi þróun námsins. Þannig skapast samfella í námi barnanna allt upp í framhaldsskólann.
Enda þótt stefnunni sér stýrt miðlægt frá fræðsluskrifstofunni, sem einnig er samræmingaraðili og að hluta til matsaðili, hefur hver og einn skóli sett sér sína stefnu í læsi og stærðfræði. Eins og áður hefur komið fram er árangurinn þegar orðinn góður t.d. hafa orðið marktækt mælanlegar framfarir nemenda í samræmdum prófum í stærðfræði. Skólastjóri, sem sagði frá stærðfræðikennslunni í skóla sínum, þakkaði þennan árangur einkum samræmdum ferlum og vinubrögðum sem m.a. hefði skilað auknum áhuga kennara en einnig foreldra.
Að lokum er vert að nefna að jákvæðum fréttum úr Reykjanesbæ hefur fjölgað og á skólinn ekki minnstan þátt í því.
Við óskum Reykjanesbæ til hamingju með þennan glæsilega árangur og fylgjumst eftirvæntingarfull með framhaldinu.
NKC