Stúlkan á vigtinni

Stúlka á baðvogÞegar stúlkan steig á baðvigtina hrópaði hún upp yfir sig með skelfingu; ég er örugglegasta þyngsta stelpan í bekknum. Þetta gerðist í kvennaklefanum í sundlaug og konurnar sem heyrðu neyðarópið kímdu sumar enda áhyggjuefnið vel kunnugt. Stúlkan á baðvoginni var 9 ára.

Skilaboðin sem ungar stúlkur fá um það hvernig þær eiga að vera eru skýr, þær eiga að vera fallegar en umfram allt grannar. Rauði þráðurinn í erindum þeirra Dr. Dana Edell frá U.S.A. og Sigrúnar Daníelsdóttur sálfræðings hjá Embætti landlæknis, sem þær fluttu á málþinginu Út fyrir boxið þann 4. júní s.s. var líkamsdýrkunin og fylgifiskar hennar, þó sér í lagi áhrifin á sjálfsmynd og líðan ungra stúlkna. Líkaminn hefur á vissan hátt verið hlutgerður m.a. með klámvæðingunni en sú ofuráhersla sem verið hefur á útlit hans hlýtur að vera á kostnað annarra þátta eins og hæfileika og menntunar.

Fræðimenn og skólafólk hafa vaxandi áhyggjur af aukinni vanlíðan stúlkna, en rannsóknir hafa sýnt að sjálfsmynd þeirra fer mjög að dvína undir lok miðstigs grunnskóla um leið og kvíði þeirra eykst. Þetta kemur m.a. fram í skýrslu starfshóps um námsárangur drengja.  Margt bendir til að líkamsdýrkunin og einnig klámvæðingin séu hér sterkir áhrifavaldar. Benda má á rannsókn sem sýndi að það tekur aðeins þrjár mínútur að kalla fram aukið þunglyndi og veikari sjálfsmynd hjá unglingsstúlkum, allt sem til þarf er að þær fletti tískublaði.

Annar alvarlegur fylgifiskur líkamsdýrkunarinnar eru fordómar gegn feitu fólki þar á meðal börnum. Sigrún Daníelsdóttir vakti athygli á því að umfjöllun um fitu sé ætlað að skapa reiði og viðbjóð í garð fitu og þar með í garð ákveðins hóps fólks þ.á.m. barna. Þannig eru fordómar gegn feitu fólki félagslega samþykktir. Öfugt við aðra hópa sem eiga við heilbrigðisvandamál að etja eiga þeir sér enga málsvara, jafnvel fjölskyldur feitra barna standa ekki með þeim. Það þykir skiljanlegt að feitum börnum sé strítt, það er nú eiginlega þeim sjálfum að kenna, ekki satt?

En það eru ekki aðeins börn og ungar konur sem hafa orðið leiksoppar  líkamsdýrkunarinnar, kona sem vinnur á elliheimili sagði mér frá því að þar væru margar konur svo uppteknar af fatastærðum að þær klipptu númerastærðirnar úr fötunum sínum til að leyna raunverulegri stærð þeirra og komast þannig hjá háðsglósum sambýliskvenna sinna.  Það er enginn að halda því fram að offita sé skaðlaus, síður en svo heldur er það nálgunin sem málið snýst um og sú ofur áhersla sem er á það að vera umfram allt annað – grannur.

Foreldrar, kennarar og þeir sem koma að uppeldi barna þurfa að vera meðvitaðir um að það skiptir miklu máli að hafa jákvætt viðhorf til eigin líkama og skapa umhverfi sem ber jafna virðingu fyrir öllum, óháð holdafari.  Það þarf að stuðla að jákvæðri líkamsmynd barna en rannsóknir hafa sýnt að slæm líkamsmynd tengist m.a. vanda á borð við átraskanir, þunglyndi og félagskvíða.

Lesendum Krítarinnar bendi ég á 10 góð ráð til að auka líkamsvirðingu sem  Sigrúnar Daníelsdóttir hefur þýtt og á bloggsíðu Samtaka um líkamsvirðingu en markmið þeirra er að vekja athygli á hættunni sem getur stafað af því að börn þrói með sér neikvæða líkamsmynd. Sigrún Daníelsdóttir hefur einnig skrifað bókina Kroppurinn er kraftaverk en hún kennir börnum að þykja vænt um líkama sinn, hugsa vel um hann og bera virðingu fyrir líkömum annarra.

NKC

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s