Hverju eiga kennarar að ráða?

skrifaÞað eru deildar meiningar um það hversu miklu kennarinn á að ráða í kennslustofunni. Til eru þeir sem líta svo á að í krafti fagmennsku sinnar eigi kennarinn að njóta þess trausts að fá að ákveða hvað nemendum hans sé fyrir bestu. Kennari sem beitir vísindalegum aðferðum við að greina styrkleika og veikleika nemenda sinna ætti að geta gert áætlun um nám þeirra, án þess að vera bundinn af námsskrám sem aðrir hafa skrifað.  Góður kennari metur skipulega eigið starf til að verða betri kennari, til þess þarf hann að njóta faglegs frelsis. Þeir sem halda fram þessari skoðun benda á að einstaklingar og bekkir séu ólíkir og að kennarinn þurfi að hafa svigrúm til að taka inn nýjungar og laga starfið að aðstæðum hverju sinni, óbundinn af ákvörðunum yfirvalda. Það sé auðvelt að eyðileggja hugmyndaríkan kennara með of þröngum ramma og hindra eðlilega starfþróun hans og skólans. Þeir sem ganga lengst álíta  jafnvel að kennarinn þurfi að hafa möguleika á því að láta nemendur sleppa einstaka námsgrein en leggja í staðinn áherslu á aðra þætti, sem hann telur vera meiri þörf fyrir í viðkomandi tilviki.

Svo er það hinir  sem telja að kennarar eigi fyrst og fremst að fylgja þeirri stefnu sem sett er fram af menntayfirvöldum og síðan útfærð í skólanámskrá.  Þetta er augljóst í skólum sem fylgja skilgreindri stefnu segjum t.d. Montessori eða Waldorf. Kennari sem ræður sig til starfa í slíkum skólum þarf að vera trúr hugmyndafræði og starfsháttum skólans, annað væru svik við vinnuveitendur og  foreldra sem hafa valið að senda börn sín í viðkomandi skóla.  Hvers vegna ætti hið sama ekki að eiga við um  skóla sveitarfélaganna?  Þar hafa kennarar almennt meira val um útfærslu, enda þótt markmiðin séu tilgreind í námsskrá. Að mati þeirra sem vilja skýrari stefnu getur frelsi kennarans orðið á kostnað nemenda þar sem kennarar starfa í of miklum mæli sem sjálfstæðir sérfræðingar hver í sinni stofu og heppni ráði of miklu um nám nemenda.  Þeir sem tilheyra þessum hópi telja mikilvægt að allir kennarar skólans styðjist við samræmda  kennsluhætti og námsskrá sem sé vel kynnt fyrir foreldrum og vöktuð af yfirvöldum.   Sumum finnst  eðlilegt að kennararnir fylgi samræmdum kennsluleiðbeiningum í sem flestum kennslustundum til að tryggja að námið sé samræmt og samfellt frá upphafi til enda.

Báðar þessar áherslur eru kunnar og hafa fylgt ákveðnum tískusveiflum sem tengjast hlutverki kennarans.  Áratuga reynsla mín sem kennari segir mér að  þessar ólíku áherslur geti togast á í mörgum okkar. Að mörgu leyti er eftirsóknarvert að hafa frelsi til að þróa sínar eigin leiðir og aðferðir í kennslunni en að öðru leyti getur verið þægilegt að fá upp í hendurnar vel tilreitt efni og aðferðir til að fylgja í kennslunni, auk þess sem það dregur að vissu leyti úr ábyrgð kennarans.

Það er heldur ekki einfalt að skera úr um það hvor áherslan sé betri fyrir nemendur. Það eru ekki allir foreldrar ánægðir með kennara sem vilja prófa sig áfram með fjölbreyttrar kennsluaðferðir og sumir óttast fátt meira en að það sé verið að gera tilraunir með börnin þeirra. Aðrir foreldrar fagna slíkum vinnubrögðum. Það er heldur ekki víst að allir foreldrar sætti sig við að það sé á valdi eins kennara að ákveða hvort börnin þeirra læri tiltekið efni eða jafnvel heila námsgrein eða ekki. Á hinn bóginn getur verið flókið að koma til móts við þarfir einstakra nemenda frá degi til dags þegar þess er vænst að kennarinn vinni samkvæmt fyrirfram skipulögðum aðferðum og efni.

Kannski að þriðja leiðin sé málið þ.e. að hver og einn skóli velji þær megin áherslur sem starfsfólk og nemendur þróa saman á grunni námsskrár og faglegrar þekkingar kennara og gera að sínum. Þannig er hægt að tryggja samræmingu og samfellu í námi nemenda skólans um leið og það stuðlar að virkri skólaþróun og samræmdum skólabrag.  Slíkt krefst öflugrar fagmennsku, samstarfs og stjórnenda með góða leiðtogahæfileika.

NKC

One response to “Hverju eiga kennarar að ráða?

  1. Ég heimsótti grunnskóla í Bretlandi áður en þeir tóku upp aðalnámskrá (National Curriculum). Þá réði hver skóli eign námskrá og vitaskuld var útkoman afar ólík: sums staðar mátti sjá frábært starf, e.t.v. betra en síðar hefur sést, öðrum skólum tókst ekki eins vel upp – þangað til þeir fengu aðalnámskrá til að styðja sig við. Þá (um 1988) höfðu Norðurlönd verið með aðalnámskrá í nokkra áratugi. Í dag tengist þetta hæfniviðmiðum (í Bandaríkjunum Common Core State Standards) og þeirri þekkingu sem nemendum er ætlað að tileinka sér að lágmarki í skóla til undirbúningi háskólanámi og starfi.
    Námskrárfræði fjalla um hvað sé þess virði að kenna og hvað ekki og hvernig megi skipuleggja þá vinnu. Í öllum rannsóknum kemur fram munur á því sem opinber stefna tilgreinir og því sem í raun er gert sem og því hvernig sú vinna er unnin. Það merkir að þótt stefnan sé sett á tiltekið efni og tiltekna hæfni taka kennarar og aðrir starfsmenn sér það Bessaleyfi að túlka stefnuna á sinn hátt. Það tengist þörfinni fyrir sjálfræði að láta ekki aðra segja sér fyrir verkum í einu og öllu. Þess vegna er útfærsla á námskrám allavega (ekki bara á þrjá vegu) þótt hinn opinberi rammi sé hafður til viðmiðunar. Það er bara hið besta mál.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s