Einn bekkur getur verið hópur af allt að 30 börnum. Í sumum bekkjum eru börnin á mismunandi aldri en annarsstaðar eru þau öll fædd á sama ári. En það er sama hvort börnin eru jafnaldrar eða ekki, innan hópsins er mikil breydd í þroska, þekkingu, leikni og hæfni . Bakgrunnur nemenda er án efa einnig mjög ólíkur. Það er mikilvægt fyrir nemendur sem verja stórum hluta dagins saman að sá andi sem ríkir í kennlustofunni ýti undir það að þau geti öll stundað nám við hæfi af metnaði og öryggi, hversu ólík sem þau eru.
Reyndir og vel upplýstir kennarar vita hversu mikilvægt það er að mynda góð tengsl við nemendur og leggja sig fram um að kynnast nemendum sínum. Það eru einnig til rannsóknir sem benda á að góð tengsl kennara og nemenda auki líkurnar á því að bekkjarstjórnun sé árangursrík og góð bekkjarstjórnun hefur mikil áhrif á námsárangur nemenda. Marzano og Marzano (2003-2004) halda því fram að kennarar sem eiga góð tengsl við nemendur sína eigi við mun færri agavandamál að stríða. Af því má draga þá ályktun að sá hæfileiki kennara að eiga gott með að mynda tengsl við nemendur skipti töluverðu máli. Kennarar sem gera sér grein fyrir þessu leggja sig því fram um að tengjast nemendum til að reyna að tryggja að í þeirra bekkjum ríki andrúmsloft sem ýtir undir námsárangur nemenda.
Ef kennarar horfa fram hjá þessu er hætt við að of margir nemendur nái ekki ásættanlegum árangri í skólanum. Fleiri fræðimenn hafa bent á þetta og Tomas Nordahl (2004) segir að nemendur sem eru í góðum tengslum við kennara sinn þrífist betur í skólanum og hann segir einnig að kennari sem eigi í góðum tengslum við nemendur eigi við færri agamál að stríða. Því er nauðsynlegt fyrir bæði kennara og nemendur að tengsl milli þeirra séu góð. Nordahl (2004) segir einnig að mikilvægt sé að hlusta á sjónarmið nemenda og taka tillit til þess sem nemandinn hefur fram að færa og viðurkenna nemandann eins og hann er.
Mikilvægur hluti í starfi kennara fyrstu vikurnar með nýjum bekk ætti því að vera að kynnast nemendum sínum vel og ná að skapa tengsl milli sín og þeirra. Það má segja að kennarinn þurfi að vinna nemendur á sitt band. Í bók sinni Tilfinningagreind segir Daniel Goleman (1995 ) að gott samband felist ekki síst í því að geta haft áhrif á tilfinningar annarra. Kennari þarf að geta fengið nemendur með sér og skapað andrúmsloft samheldni og trausts. Kennari sem er sterkur að þessu leyti á auðveldara með að sjá til þess að nemendum líði vel í kennslustofunni, þeir njóti sín hver á sínum forsendum, vilji leggja sig fram við vinnu sína og nái þannig árangri í námi.
Hér eru nokkur ráð sem geta nýst kennurum á hverjum degi við að skapa tengsl og viðhalda góðum tengslum:
- Látið nemendur finna að þið hafi trú á þeim
- Munið að nemendur eru ólíkir og verið sveigjanleg í námsmarkmiðum.
- Sýnið persónulegan áhuga á nemendum.
- Náið augnsambandi við nemendur.
- Leggið ykkur fram um að sinna öllum á hverjum degi, verið meðvituð um þetta og fylgist með eigin athöfnum til að tryggja að svo sé.
- Látið nemendur njóta eigin hugmynda. Endurtakið góðar tillögur og nefnið nöfn þeirra nemenda sem eiga tillögurnar.
- Sjáið til þess að allir geti tekið þátt í samræðum, ekki bara þeir sem alltaf rétta upp hendi.
- Dæmið ekki röng svör- veröldin er flókin og mikilvægt er að læra það að hægt er að læra af mistökum sínum. Þannig skapið þið frekar andrúmsloft i þar sem mistök eru leyfð en fólk er ekki lítillækkað þegar það gerir mistök.
- Gefið nemendum tóm til að hugsa.
Sumir kennarar kvarta yfir því að ekki gefist tími til að vinna með þessum hætti. Dewey (1938) segir að skipulagning sé oft það sem skiptir sköpum í kennslustofunni. Mikilvægt er að skipuleggja svona vinnu eins og alla aðra kennslu, ef skipulag skortir fer margt úrskeiðis. Það fyrsta sem kennari þarf að gera sér grein fyrir er hverju hann vill ná fram hjá nemendum sínum og setja sér síðan plan um hvernig hann ætlar að ná því fram og fylgja þeirri áætlun markvisst. Bluestein (1998) er sammála þessu og leggur áherslu á mikilvægi þess að kennarar setji fram áætlun um hvernig þeir ætli að vinna með nemendum að því að skapa gott andrúmsloft og vinnufyrirkomulag í kennslustofunni. Andrúmsloft sem einkennist af samheldni, metnaði og vinnusemi verður ekki til af sjálfu sér, það þarf að vinna markvisst að því að skapa það.
EK
Heimildir
Bluestein, J. 1998 (2. útgáfa, 1. útgáfa 1988). 21´st century discipline,teaching students responsibility and self management. Bandaríkin. Fearon.
Dewey, John. (1938). Reynsla og menntun. Þýðing Gunnar Ragnarsson. 2000. Reykjavík. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
Goleman, D. (2000). (þýðing Áslaug Ragnars, 1. útgáfa 1995). Tilfinningagreind, hvers vegna er tilfinningagreind mikilvægari en greindarvísitala? Reykjavík. Iðunn.
Marzano, R.J og Marzano, J.S. 2003-2004. The key to classroom management. The Best of educational leadership 2003-2004. Bandaríkin. ASCD.
Nordahl, T. 2004 (2. útgáfa, 1. útgáfa 2002). Eleven som aktör. Osló. Universitetsforlaget.
Villupúkinn hefur læðst með hérna eða er ég að rugla?