Að uppfylla markmið en missa sjónar á aðalatriðunum

hnotturÉg hlutstaði á Toby Salt á öskudagsráðstefnu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur 18. febrúar síðastliðinn líkt og tæplega 500 kennarar.

Salt er fræðimaður og kennari og vinnur við það að gera skóla að framúrskarandi skólum, stýrir að því mér skilst m.a. samtökum sem taka að sér skóla í hverfum sem eiga erfitt uppdráttar og laðar að þeim skólum góða kennara sem hafa mikla trú á að allir nemendur geti lært og vinna þannig markvisst að því að jafna aðstöðumun nemenda með veikan félagslegan bakgrunn. Í málflutningi Salt kom fram að skólar sem eru taldir góðir skólar jafna ekki aðstöðumun nemenda, þjónar frekar ákveðnu lagi samfélagsins og þeir nemendur sem ekki tilheyra því lagi  fá ekki þá menntun sem þeir þurfa í þeim skólum.

Mér fannst áhugavert hvað Salt talaði tæpitungulaust um það hvernig stjórnmálamenn nota menntamál oft  sjálfum sér  til framdráttar og ég skildi Salt  þannig að hann telji að ákvarðanir stjórnmálamanna hafi oftar en ekki slæm áhrif á skólastarf og velferð barna.  Veigamiklar stefnubreytingar stjórnvalda sem ætlað er  að kúvenda skólakerfum eru stundum illa grundaðar og það  hvaða afleiðingar breytingarnar hafa til lengri tíma liggja oftast ekki fyrir og stjórnmálamenn gefa  á stundum lítið fyrir varnaðarorð fræðimanna þegar þeir hafa bitið í sig að ákveðinni stefnu skulu fylgt. Stefnan er keyrð áfram og fagfólki í skólum er ætlað að framfylgja henni hvort sem það er sammála henni eða ekki.

Salt  brýndi fundarmenn til að missa ekki sjónar á aðalatriði skólagöngu nemenda í því ati að reyna að uppfylla utanaðkomandi kröfur sem mögulega þjóna ekki hagsmunum nemenda. Hann hvatti kennara til að efla eigin fagmennsku til að geta veitt stjórnmálamönnum fagleg andsvör, aðeins með rökum byggðum á ígrundaðri rýni geta kennarar styrkt sig sem fagmenn og eflt þannig rödd sína svo á þá verði mögulega hlustað.

Með því að benda á tölfræði sem gefur vísbendingar um að laun kennara og stærð bekkja hefur ekki áhrif á árangur skóla í alþjóðlegum könnunum, fannst mér Salt vera að hvetja kennara til að varast það að leggja ofuráherslu á þessa þætti  í baráttu sinni fyrir bættu skólakerfi fyrir nemendur. Fagmenn þurfa fyrst og fremst að berjast fyrir hagsmunum skjólstæðinga sinna, vera talsmenn þeirra og leggja áherslu á að ná fram því sem þeim kemur best til að ná þeim markmiðum eða draumum sem skipta meginmáli í því flókna lífi sem nemendur búa við. Salt kom einnig inn á mikilvægi þess að í samfélaginu ríkti skilningur á mikilvægi kennarastarfsins og að samfélagsleg virðing fyrir kennarastarfinu laði besta fólkið í þau störf og  á því þarf samfélagið að halda, fyrir börnin sín.

Ég held að sé óhætt að segja að Salt sé hugsjónamaður sem  á gott með að hrífa fólk með málflutningi sínum. Hann er sannfærður um að kennarar geta skipt sköpum í lífi barna hafi þeir vilja og áhuga á því og telur mikilvægt að kennarar sem fagstétt endurskilgreini hvað er mikilvægt að gera í skólum dagsins í dag og hvernig þeir tala um starfið sitt svo þeir leggi sjálfir lóð á þá vogarskálar að laða bestu þjóðfélagsþegnana til  kennslu.

Myndband sem Salt sýndi í fyrirlestri sínum var sláandi og hlýtur að vekja alla til umhugsunar um það hvaða framtíð það er sem  býður nemenda skóla nútímans. Sú framtíð krefst skapandi lausna á stórum vandamálum sem kynslóðirnar sem komu á undan nemendum dagsins í daga  hafa búið til, og því verðum við að nesta nemendur þannig út í lífið að þeir geti tekist á við þann vanda,  í raun til að komast af. Sveigjanleiki, samvinna, víðsýni, aðlögunarhæfni, frumkvæði og sköpun eru þættir sem þarna geta skipt sköpum fyrir nemendur til að takast á við þessi stóru verkefni.

EK

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s