Það mikið fagnaðarefni að Vanda Sigurgeirsdóttir hyggst í væntanlegri doktorsrannsókn beina sjónum sínum sérstaklega að þeim sem leggja í einelti í grunnskólum. Því eins og hún segir sjálf þá verður ekkert einelti ef engir eru gerendurnir. Vitaskuld á fyrst og fremst að tryggja öryggi þeirra sem verða fyrir einelti og veita þeim stuðning og öryggi en börn sem beita einelti, eða eru talin gera það, þarf einnig að styðja.
Skiljanlega beinist oft mikil reiði gegn gerendum eineltis og ekkert skrítiði þótt sumir vilji að þeim sé refsað harðlega þegar þeir hafa valdið öðru barni ótta og vanlíðan og jafnvel gert líf þess óbærilegt. Þegar eineltið virðist stafa af grimmd og miskunarleysi getur reyns erfitt að finna til samúðar með gerandanum og fáir aðrir en foreldrar þeirra koma þeim til varnar. Börn sem leggja í einelti eru í megin dráttum líklega ekkert frábrugðin öðrum börnum, eins og fram kemur í viðtalinu við Vöndu. Þau eru venjulega ekki verri manneskjur en gengur og gerist enda þótt þau hafi komist upp með hegðun sem er fullkomlega óásættanleg. Af þessum ástæðum hef ég ákveðnar efasemdir um notkun hugtaksins gerandi en með því er verið að beina athyglinni að einstakingnum í stað þess að horfa á gerðir hans. Það er nefnilega stór munur á því að vera vondur eða stunda vonda hegðun. Vonda hegðun má yfirleitt bæta með réttum stuðningi. Barnið á sér með öðrum orðum von. Barn sem aftur á móti fær þau skilaboð frá umhverfinu að það sé vont og eigi ekkert gott skilið er að mínu mati mun síður líklegt til að vilja bæta hegðun sína. Það er auðvelt að sjá slíkt barn forherðast og gefa skít í umhverfið.
Mér verður stundum hugsað til drengs, sem ég þekkti fyrir nokkrum árum síðan, þetta var góður drengur en hvatvís og ör í skapi og átti fyrir vikið í nokkrum samskiptavanda. Að sögn drengsins var honum kennt um allt jafnvel þó hann kæmi þar hvergi nærri og hann fullyrti að einn eða fleiri skólafélagar hans gerðu í því að espa hann upp til þess eins að geta klagað hann. Það skilaði tilætluðum árangri, hann var sakaður um einelti. Drengurinn varð smámsaman sannfærður um að öllum í skólanum væri í nöp við hann og að lokum gafst hann upp á að reyna að sannfæra umhverfið um sinn betri mann. Ég er nokkuð viss um að fleiri kennarar kannast við þessa lýsingu.
Það vakti athygli mína þegar ég las um skóla í Svíþjóð sem veita börnum, sem sýna eineltishegðun, sérstakan stuðning jafnhliða því sem unnið er með þeim sem verða fyrir eineltinu. Börnin hafa sinn hvorn stuðningsaðilann enda er það líklegra til að auka traustið en þegar um sama aðila er að ræða. Stuðningsaðilinn hjálpar barninu til að skoða hegðun sína og hjálpa því til að finna leiðir sem breyta henni til betri vegar og fylgja eftir ákvörðunum sínum. Framfarir fá sérstaka athygli og þeim er fagnað. Það er margfaldur ávinningur af þessu fyrirkomulagi. Það er ekki aðeins verið að breyta neikvæðri hegðun heldur er líka verið að koma í veg fyrir að barnið þrói með sér neikvæða sjálfsmynd sem getur jafnvel leitt til jaðarsetningar í samfélaginu. Það er einnig verið að draga úr líkunum á að eineltið endurtaki sig og þá er tilganginum náð.
NKC
Ég get mælt með bókinni ‘Med åpne øyne, Observasjon og tiltak i skolens arbeid med problematferd’ eftir Hilde Larsen Damsgaard en í bókinni leggur hún einmitt áherslu á það hvernig við tölum um nemendur og hegðun þeirra.