Líkt og aðrir opinberir starfsmenn eru kennarar bundnir trúnaði í starfi sínu. Í því felst að þeir eiga að gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls sbr. 12. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Þetta vita allir kennarar og yfirleitt held ég að trúnaðarskyldan valdi litlum vandræðum en mig langar þó til að gera hana að umfjöllunarefni þessa pistils.
Það er orðið nokkuð algengt að kennarar bjóði foreldrum að vera í kennslustundum til að gefa þeim tækifæri til að kynnast daglegu starfi barna sinna þar. Þó eru einstaka kennarar sem halda því fram að slíkt geti varðað við brot á lögum um trúnað þar sem foreldrarnir geti orðið vitni að atburðum sem leynt skuli fara. Aðspurðir hafa kennarar í þessum hópi sagt mér að þeir telji einkum varasamt að foreldrar sjái óæskilega hegðun annarra barna eða að þeir komi auga á nemendur sem eru að vinna samkvæmt einstaklingsnámskrám. Einnig hefur mér verið bent á að einstaka foreldrar fari beinlínis að skipta sér af nemendunum, námi þeirra og hegðun og ræða um það utan skólans.
Í ljósi þess hversu mikilvægt það er að foreldrar eigi hlutdeild í daglegu lífi barna sinna þ.á.m. starfi þeirra í skólanum (Nanna Kristín Chistiansen; 2010) er mikils virði að þeir fái tækifæri til að kynnast skólastarfinu af eigin raun. Þegar foreldrar og kennari sjá barnið aldrei í sömu aðstæðum er hætt við því að þessir mikilvægu samstarfsaðilar hafi ólíka sýn á barnið og þarfir þess. Engin þörf er á að útskýra hvaða afleiðingar það getur haft.
Það verður að taka alvarlega áhyggjur kennara sem efast um heimsóknir foreldra í skólastofuna . Í fyrsta lagi er mikilvægt að þeir geri sér ljóst að vera foreldra í skólastofunni varðar ekki við brot á trúnaði meðan kennarinn tryggir að engin skrifleg gögn sem varða persónuleg málefni nemendanna eða foreldra þeirra séu aðgengileg. Hér er m.a. átt við einkunnir nemenda og annað mat á árangri eða framkomu. Kennarinn á að sjálfsögðu ekki heldur að tala um slík mál við aðra en viðkomandi nemanda og foreldra hans eða svara spurningum um slíkt. Í öðru lagi þá ber kennarinn ábyrgð á starfinu í skólastofunni og því ættu foreldrar ekki að vera þar nema í samráði við kennarann. Reynsla þeirra sem fjallað hafa um samstarf foreldra og skóla sýnir að best tekst til þegar skólinn skipuleggur slíkar heimsóknir í samstarfi við foreldrana og skýr markmið eru með heimsókninni, fremur en að þær séu tilviljanakenndar. Epstein er meðal þeirra sem hefur skrifað mikið um þetta efni. Í þriðja lagi þá nær trúnaðarskyldan ekki yfir daglegt starf í skólastofunni. Þar ætti að jafnaði ekkert að eiga sér stað sem leynt þarf að fara, enda eru fjölmörg vitni til staðar sem ekki eru bundin nokkrum trúnaði, hér er að sjálfsögðu átt við nemendur. Ekkert hindrar að þeir ræði opinskátt um reynslu sína og annarra nemenda heima fyrir. Skólinn er án aðgreiningar og því ætti það varla að vera leyndarmál að nemendur vinna ólík verkefni og hver á sinn hátt. Loks vil ég nefna áhyggjur kennara af örfáum foreldrum sem ekki virðast átta sig á hlutverki sínu og ábyrgð í skólastofunni og fara jafnvel að skipta sér óhóflega af nemendum og tala af gáleysi um málefni þeirra. Mér er kunnugt um skóla sem leitast við að koma í veg fyrir slíkt með því að afhenda foreldrum og öðrum gestum upplýsingar og ábendingar um tillitssemi og aðgát. Í flestum tilfellum ætti það að skila árangri. Þegar það nægir ekki þarf að sjálfsögðu að ræða við viðkomandi einstaklinga. Hér eins og svo oft áður snýst samstarfið um traust, takist okkur að ávinna okkur það í foreldrahópnum eru hindranir á veginum fáar og smáar.
Það er líklega óþarfi, en ég get samt ekki látið staðar numið án þess að nefna að lokum eitt atriði varðandi trúnaðarskylduna. Þegar kennarar þurfa að ræða saman um nemendur sýnum okkur sjálfum, nemendum okkar og fjölskyldum þeirra þá sjálfsögðu virðingu að velja réttan stað og stund fyrir slíkrar umræður.
NKC
Heimildir
Nanna Kristín Christiansen (2010). Skóli og skólaforeldrar – ný sýn á samstarfið um nemandanna. Reykjavík: Nanna Kristín Christiansen.
Bakvísun: Er rétt að bjóða foreldrum að vera í kennslustundum? | Innihald.is | Þjóðmál – Afþreying·