Hefur þú talað við barnið þitt í dag?

talt med dit barnSjálfsagt kannast einhverjir lesendur Krítarinnar við límmiða sem voru sýnilegir víða í Danmörku fyrir nokkrum árum síðan. Á miðunum stóð „Har du talt með dit barn i dag?“ eða Hefur þú talað við barnið þitt í dag?  Orðin voru áskorun frá kennaranum og uppeldisfræðingnum Ole Flemming Pedersen til foreldra um að staldra við og hugleiða daglegt líf sitt.

Hversu mikinn tíma gefa foreldrar sér til að vera með börnum sínum í erli dagsins og tala við þau? Þá á ég ekki við þetta hefðbundna tiltal sem allir foreldra kannast við: „Þú verður að drífa þig…..“ „Ertu búin að……..“ „Kláraðu matinn þinn…..“  „Var ég ekki búin að segja þér að ……“ Heldur raunverulega tala við þau og hlusta á það sem þau hafa að segja um reynslu sína, viðhorf, hugsanir og tilfinningar.

Hvað tímann áhrærir virðist oft litið á það sem náttúrulögmál að atvinnulífið hafi forgang og því hafa fagfólk og stofnanir að miklu leyti tekið við daglegri umönnun barna meðan foreldrar þeirra sinna störfum sínum, sem felast stundum í því að annast önnur börn. Hvað eftir annað heyrist kvartað undan því að sumarleyfi í skólum og vetrarleyfi komi illa niður á vinnandi fólki og hvatt til að skólinn lagi sig betur að vinnutíma foreldranna. Hér virðist ekki mikið hugsað um börnin og þarfir þeirra fyrir frí og samveru með foreldrum sínum. Eða er virkilega einhver sem álítur að það sé börnum fyrir bestu að vera daglangt á stofnunum ellefu mánuði ársins?

Skóladagar grunnskólanemenda á Íslandi eru 180 eða 10-20 dögum færri en í nágrannalöndum okkar t.d. í Englandi og í Danmörku  en í þar virðist hinsvegar regla að foreldrar taki sér leyfi frá vinnu til að vera með börnum sínum í vetrarfríum, auk þess sem vinnudagur þeirra er almennt styttri. Eftir því sem mér hefur verið sagt er t.d. hefð fyrir því í Hollandi að skólastarf sé aðeins til hádegis á miðvikudögum og að fjölskyldur séu saman síðari hluta dagsins. Þrátt fyrir að vetrarfrí í íslenskum skólum hafi tíðkast í áratug og að dagsetningarnar liggi fyrir að vori er enn eins og vetrarfríið komi sumum í opna skjöldu og fyrst og fremst til armæðu fyrir foreldrana.  Raunveruleikinn sem blasir við mörgum er að atvinnulífið hefur ekki lagað sig að breyttum aðstæðum fjölskyldna. Krafan er öll á hinn veginn. Er ekki tímabært að breyta þessum áherslum til hagsmuna fyrir börnin og foreldra þeirra?

Börn þurfa umfram allt á góðum foreldrum að halda eins og fram kom í erindi  Charles Desforges sem hann flutti á fundi Samfoks og Heimilis og skóla í október 2009, þar sem hann sagði að það sem einkum skildi á milli nemenda, sem vegnar vel í skóla og hinna sem  vegnar síður, eru gæði foreldranna. Desforges sagði eftirtalin atriði einkum einkenna góða foreldra:

  • Þeir eru góðar fyrirmyndir
  • Þeir hafa miklar væntingar til barna sinna
  • Þeir sýna börnum sínum áhuga
  • Þeir tala við börnin sín
  • Þeir styðja við starfs skólans
  • Þeir hafa skýrar reglur og fara eftir þeim
  • Þeir leita aðstoðar vegna barna sinna þegar þörf er á

Mergurinn málsins er sá að það tekur tíma að eiga barn og ala það upp og jafnvel þótt fagfólk og stofnanir geti veitt mikinn stuðning koma þær aldrei í stað góða foreldra. Bernskuár barna okkar eru afar dýrmæt og þau líða allt of hratt. Ef við höfum ekki tíma til að tala við börnin okkar í dag  þá getum við ekki búist við því að þau hafi tíma fyrir okkur á morgun.

NKC

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s