Það er rík hefð fyrir því í menningu okkar að kennarar séu einyrkjar í störfum sínum, að sumu leyti hafa þeir nánast verið eins og sjálfstætt starfandi sérfræðingar innan skólans. Kennurum er að vísu ætlað að starfa undir sömu lögum og námsskrá en útfærslan hefur oft á tíðum alfarið verið í þeirra höndum og án afskipta yfirmanna. Þetta einræði getur haft bæði kosti og galla.
Þegar kennarar eru drifnir áfram af faglegum metnaði og áhuga á að þróa starfshætti sína getur faglegt sjálfstæði verið uppspretta þess besta sem skólinn hefur að bjóða. Vandinn er aftur á móti stundum sá að snilldin einangrast inni í lokaðri skólastofu. Kennarinn lítur á sig sem eiganda hugmynda og verkefna sem lifa og deyja með honum. Kennararnir sjálfir einangrast ekki síður með vandamál sín.
Fyrir nokkrum áratugum síðan fór teymisvinna kennara að ryðja sér til rúms en einn af kostum teymiskennslu er að hún rýfur einangrun kennarans og skapar möguleika á lærdómssamfélagi þeirra. Oft fer kennslan fram í opnum rýmum þar sem kennararnir deila ábyrgðinni. En samstarf getur verið flókið fyrirbæri og ósjaldan tímafrekara en einyrkjan. Finna þarf málamiðlanir sem getur gert það að verkum að kennarar með sterkar skoðanir neyðast til að gefa eftir eða þeir yfirtaka hreinlega teymisvinnuna. Svo eru aðrir sem finnst lítið tillit tekiði til þeirra. Yfirleitt eiga kennarar ekki kost á að velja sér teymisfélaga og það er alls ekki sjálfgefið að allir eigi samleið í svo nánu samstarfi. Þegar teymi virkar illa getur það jafnvel verið mjög íþyngjandi í daglegu starfi kennara. Annað er uppi á teningnum í teymum þar sem gagnkvæmt traust og virðing er ráðandi og fagleg umræða og hugmyndir ná að blómstra jafnhliða hagnýtu samstarfi og deilingu ábyrgðar. Slíkt teymisstarf getur verið ómetanlegur stuðningur auk þess að vera vettvangur skólaþróunar a.m.k. hvað varðar þann hluta skólans sem teymið starfar í. Áherslan hefur að þessu leyti farið af kennaranum sem einyrkja yfir á teymi eða hópa og að stundum virðist sem margir sjálfstæðir skólar séu undir einu og sama þakinu.
Hin síðari ár hefur verið lögð aukin áhersla á faglegt sjálfstæði skóla og mér virðist sem fleiri og fleiri skólar séu farnir að greina sig frá fjöldanum með ákveðnum sérkennum. Í viðkomandi skólum er gert ráð fyrir að allir kennarar og aðrir starfsmenn vinni eftir skilgreindri stefnu. Þar ríkir andrúmsloftið; „svona vinnum við hér“. Þetta er vitaskuld ekkert nýtt samanber Skóli Ísaks Jónssonar og Fossvogsskóli, svo dæmi séu tekin. Skólastjórnendur eru faglegir leiðtogar og stýra þróun og innleiðingu og hafa höndina stöðugt á púlsinum. Það má jafnvel líta svo á að í sumum skólum hafi dregið úr einræði kennara í þrepum fyrst fyrir tilstilli teymisvinnunnar og loks vegna áherslunnar á faglegt sjálfstæði skóla og menn eru missáttir með það.
Kennari sem ég þekki, og vinnur í skóla sem er að þróa samræmda stefnu, segist sjá eftir öllum þeim tíma sem fer í fundi og allskonar „kjaftæði“ eins og hún orðar það. Hún segist hafa betra við tímann að gera og bendir á að hún hafi verið farsæl í starfi hingað til og vilji bara fá frið til að vinna áfram á þann hátt sem hún trúir á.
Annar kennari sem ég ræddi nýlega við var á allt annarri skoðun og segist alls ekki geta hugsað sér að starfa öðruvísi en í teymi og í skóla með skýra hugmyndafræði. Þar sé hann hluti hóps sem deilir hugmyndum og ábyrgð en ekki einn á báti með nemendahópinn.
Sjálfsagt er margt sem hefur áhrif á þessa ólíku afstöðu kennaranna tveggja ekki síst persónuleikinn en einnig starfskenning þeirra, samstarfsfólkið og síðast en ekki síst stjórnun skólanna. Ég velti því fyrir mér hvort það geti hugsanlega dregið úr gæðum farsælla kennara þegar þeir þurfa að fara frá fyrirkomulagi sem þeim hefur hugnast vel og í annað sem þeir eiga erfitt með að finna sig í.
Þegar upp er staðið er þó mikilvægast að spyrja að því hverskonar starfshættir stuðli best að velferð nemenda, en það má jafnvel hugsa sér að það sé líka að einhverju leyti einstaklingsbundið, eða hvað?
NKC
Bakvísun: Teymiskennsla | Kennsla í margbreytilegum nemandahópi·