Ef við viljum að börn fái góða menntun og að þeim líði vel í skólanum þarf starf kennara að njóta trausts og virðingar. Þessa niðurstöðu má draga af einni viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á samstarfi skóla og foreldra en hún var unnin var af Desforges og Abouchaar fyrir áratug síðan og ólíklegt annað en þær niðurstöður séu enn í fullu gildi. Þar kemur fram að börn sem alast upp hjá foreldrum, sem sýna áhuga á námi almennt og ræða jákvætt um skólann og starf barnanna þar, ná betri námsárangri og líður auk þess betur í skólanum. Í hugum þessara barna er skólinn góður og virðingarverður vinnustaður þar sem er eftirsóknarvert að vera og leggja sig fram í námi og samskiptum.
Þetta gerðu stjórnvöld í Ontario í Kanada sér ljóst þegar þau lögðust í umfangsmiklar breytingar á skólastarfinu fyrir nokkrum árum síðan. Lykiláhersla var á að ávinna kennurum aukna virðingu og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Skólarnir í Ontario eru nú með þeim bestu í heimi eins og m.a. kemur fram í Pisa könnuninni. Kennarar hafa einnig notið breytinganna í betri kjörum. Nánar má lesa um þetta hér. Það fer heldur ekki framhjá þeim sem heimsækja finnska skóla hvað kennarastéttin nýtur mikillar virðingar í samfélaginu. Og árangur finnska skólans í alþjóðlegum samanburði er vel kunnur.
Starf kennara hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum á þessu hausti og því miður ekki alltaf á jákvæðan hátt. Það hefur m.a. verið fullyrt að ofbeldi gegn nemendum sé daglegt brauð í grunnskólum, jafnvel af hálfu kennara. Þetta ofbeldi sé látið óáreitt og ekkert gert til að bregðast við umkvörtunum nemenda og foreldra þeirra. Líklega er þetta einn harðasti dómur yfir skólanum og starfi kennara sem lengi hefur heyrst. Sé eitthvert sannleikskorn í þessu þarf sannarlega að bregðast við af fullri alvöru en ekki á þann hátt sem fjölmiðlar hafa of oft gert því áhrifin af slíkri umfjöllun geta verið varasöm.
Einelti og annað ofbeldi í skólum á vissulega aldrei að líðast, ekkert barn ætti að þurfa að þola slíkt og alltaf á að bregðast við grunsemdum um ofbeldi. Af ýmsum ástæðum geta þessi mál orðið afar flókin og viðkvæm og ekki lagast þau í höndum í dómstóls götunnar. Það orðbragð sem fullorðið fólk leyfir sér í bloggfærslum er á engan hátt til þess fallið að auka trú lesenda á hæfileika mannsins til samskipta. Meðan fullorðið fólk hagar sér svona getum við ekki vænst þess að börn leggi ekki í einelti. Hún rifjast stundum upp sagan um flísina og bjálkann.
Alvarlegast er þó að þessi neikvæða og óábyrga umræða um vinnustað nemenda fer ekki framhjá nemendum sjálfum og auðvitað hún hefur áhrif á þá. Hún getur auðveldlega dregið úr virðingu þeirra og trausti til skólans og kennara þeirra og það kemur fyrst og fremst niður á líðan nemendanna og námsárangri þeirra. Að sjálfsögðu eiga nemendur ekki að treysti skólanum í blindni en eins og fram kom í grein sviðsstjóra skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sem birtist í fjölmiðlum í síðustu viku, hafa kannanir sýnt að það hefur dregið úr einelti í skólum og langflestir foreldrar eru ánægðir með skólann og telja að börnum þeirra líði þar vel. Skólinn er með öðum orðum á réttri leið og því fylgir mikil ábyrgð að reyna að rýra það traust sem er nemendum jafn mikils virði og raunin er.
Skólinn og starf kennara á sannarlega ekki að vera hafið yfir gagnrýni en sú gagnrýni þarf að vera málefnaleg og byggð á þekkingu því það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að standa vörð um vinnustað barnanna.
NKC
Bakvísun: Menntun og uppeldi | Krítin·