Á skólinn að annast uppeldi barna eða á hann fyrst og fremst að vera menntastofnun? Þetta er spurning sem reglulega skýtur upp kollinum og hangir þá gjarnan saman við spurninguna um ábyrgð foreldra.
Kennari sem ég ræddi við um daginn sagðist vera ósáttur við það hversu miklar kröfur væru gerðar til kennara um uppeldi barna, að hans mati er þetta röng þróun og óraunhæf. Það væri meira en nóg starf að veita fleiri en tuttugu ólíkum nemendum nám við hæfi þó uppeldi þeirra bættist ekki við. Foreldrar ættu sjálfir að ala börnin sín upp svo kennararnir gætu séð um lögbundna menntun þeirra. Kennarinn studdi mál sitt með vísan í aðalnámskrá grunnskóla (2011), þar sem segir að foreldrar beri ábyrgð á uppeldi barna sinna og að þeir eigi að sjá til þess að þau fylgi skólareglum.
Síðar þennan sama dag heyrði ég í vinkonu minni sem var að koma af fundi með kennara sonar síns og henni var mikið niðri fyrir. Að mati vinkonu minnar varpaði kennarinn allri ábyrgð á stærðfræðinámi sonarins yfir á hana. Kennarinn skýrði lágar einkunnir drengsins í stærðfræði með því að hann sinnti heimanáminu ekki nægilega vel og alvarlegur í bragði minnti kennarinn vinkonu mína á að hann væri áður búinn að benda henni á að strákurinn þyrfti að taka sig á í stærðfræðinni, en það hefði greinilega ekki borið tilætlaðan árangur. Vinkona mín, sem leggur sig fram um uppeldi sonarins, spurði mig hvort það væri hún eða kennarinn sem bæri ábyrgð á námi drengsins. Og þar sem hún hefði sjálf ekki þekkingu á námsefninu hvort hún þyrfti þá að kaupa einakennslu fyrir hann.
Eins og sjá má af þessum tveimur litlu dæmum eru skilin milli ábyrgðar á uppeldi og námi barna ekki eins skörp og stundum mætti ætla. Kennarinn virðist gera ráð fyrir að foreldrarnir taki þátt í námi barna sinna og beri jafnvel mikla ábyrgð á því. Foreldrar, sem sannarlega bera ábyrgð á uppeldi barna sinna, hafa sjaldnast tækifæri til að vera með þeim í skólanum. Ábyrgð þeirra á hegðun barnanna þar felst því fyrst og fremst í þeim væntingum sem þeir gera til barna sinna um árangur, samskipti og hegðun. Þær væntingar geta verið jafn mismunandi og foreldrarnir eru margir og sumir vita jafnvel ekki hvers skólinn væntir af þeim. Skoðanir kennara í þessum efnum eru heldur ekki einsleitar. Hér liggur einmitt stór hluti vandans. Sá vandi verður varla leystur nema með samræðu.
Þegar öllu er á botninn hvolft verður uppeldi og nám ekki skilið að í nútíma samfélagi. Áhrif foreldra á námsárangur barna eru óumdeild, eins og fram kom hér í Krítinni þá þar er það fyrst og fremst áhugi foreldra á námi barnanna og umræðan um skólastarf og menntun sem hefur áhrif. Líklega munu fáir neita því að áhrif kennara á líðan nemenda, sjálfsmynd og félagsfærni getur verið umtalsverð, enda segir í aðalnámskrá grunnskóla, 2011, í kaflanum um ábyrgð og skyldur starfsfólks skóla:
Starfsfólk skóla skal leggja áherslu á námsaga og sjálfsaga nemenda, góða umgengni, jákvæð samskipti, sáttfýsi, umburðarlyndi og kurteisi. Einnig skal lögð áhersla á að styrkja sjálfsmynd nemenda, efla sjálfsvirðingu þeirra og virðingu gagnvart öðrum, eigum annarra og umhverfinu.
Líklega þurfa kennarinn og vinkona mín bæði að horfast í augu við það að í nútíma samfélagi verður velferð barna varla nægilega vel tryggð nema með samvinnu foreldar þeirra og skólans. Í þeirri samvinnu þurfa báðir aðilar að vanda sig.
NKC