Gunnar Hersveinn skrifaði þríleik í formi blaðagreina í Morgunblaðið árið 2004 um samábyrgð gagnvart börnum. Hann tók þar margar líkingar úr Hringadróttinssögu Tolkiens: sómi, ormstunga, gollragjöf, auga tíðarandans, Hérað. Ferðalag Hobbitanna að heiman og aftur heim og hlutverk föruneytis hringsins getur verið táknsaga um uppeldi og vildi Gunnar gera henni skil. Hann hefur nú endursamið þríleikinn. Við fengum góðfúslegt leyfi Gunnars til að birta þríleikinn á Krítinni.
Hringadróttinssaga er þrískipt sem hér segir: 1. Föruneyti hringsins (The fellowship of the ring). 2. Tveggja turna tal (The two towers). 3. Hilmir snýr heim (The return of the king).
Í greininni er fjallað um vegferð barnsins á leið til fullorðinsára í tengslum við atburðarás verksins.
Bernskan er ævintýri – og það er ævintýri að ala upp barn. Bernskan er dýrmæt og viðkvæm. Hún þarfnast gætni og virðingar. Tíðarandinn er sýnilegt og ósýnilegt umhverfi barnsins. Í honum myndast margvíslegar hæðir og lægðir: persónur og viðhorf, straumar og stefnur, áskoranir og hættur. Þrautin er að greina tíðarandann, velja og hafna og taka ákvarðanir.
Barnið þarfnast föruneytis, það þarf ráð og leiðbeiningar til að geta metið aðstæður og tekið gifturíkar ákvarðanir.
Fylgdarfólk þess þarf því að taka hlutverk sitt alvarlega svo að barnið týnist ekki eða missi vonina í aðgangshörðum heimi. Voðinn er vís þegar fylgdin sofnar á verðinum. Þá festir tíðarandinn (Sauron)brennandi auga sitt á barnið.
Tíðarandi hverrar kynslóðar er breiðari en breiðasta fljót og dýpri en dýpsti hylur og í honum synda margir fiskar, ætir og óætir. Verkefnið er það sama og í öllum ævintýrum: að læra að greina á milli góðs og ills – og sýna hugrekki og styrk til að velja.
Hugur barnsins er berskjaldaður og inn í hann smjúga jafnt sóma- sem sómalaus viðhorf og tilbrigði við hegðun.Föruneyti þess ber að skera úr um æskileg og óæskileg áhrif, annars sinnir það ekki hlutverki sínu: að vernda og efla. Föruneyti barnsins sem ferðast um tíðarandann þarf að greina slæm áhrif og sigrast á þeim. Hafa metnað fyrir hönd þess, það er forsenda árangurs. Ofvernd orkar þó tvímælis og verður því að byggja upp innri varnir með barninu. Námið felst í því að temja hugann. Kenna barninu að þekkja skemmd epli frá óskemmdum og efla meðþví gagnrýna hugsun.
Sómi varðar veginn
Föruneytið á að hafa metnað til að rækta gildin með barninu, ýmiskonar dyggðir, tilfinningar og viðhorf sem reynast munu happadrjúg. Markmiðið er að barnið öðlist styrk til að ráða yfir skapi sínu og tilfinningum. Hafi vit og þor til að gera greinarmun og taka heillavænlegar ákvarðanir á eigin forsendum. Föruneytið á að gæta þess að barnið fái að vera barn og búa það síðan undir fullorðinsárin. Samábyrgð varpar ljósi á hversu öflugt föruneyti barnsins getur verið. Þar eru ekki aðeins vinir og vandamenn, heldur einnig aðrir samferðamenn og stofnanir.
Stefna sem er hliðholl fjölskyldunni styrkir barnið. Stjórnvöld sem búa fjölskyldunni markvisst betra umhverfi eru í föruneytibarnsins og vinnuveitendur sem gæta þess að vera ekki of frekir á tíma foreldra eru því hliðhollir. Þjóðarvakning í þágu barna felst meðal annars í því að föruneyti barnsins þarf að rifja upp hlutverk sitt og rækja það síðan vel.
Vegferð barna er undir því komin að föruneyti þeirra vaki á verðinum og að Sómi varði veginn. En jafnvel þótt veganesti barnsins sé gott eru hindranir fyrirsjáanlegar og áfram er freistandi að fylgja straumum í tíðarandanum gagnrýnislaust, láta berast með vindum og taka hugsunarlaust upp skoðanir annarra. Barnið gerir tilraunir á unglingsárum til að yfirgefa Héraðið. Öryggið minnkaren það er ævintýri framundan. Sómi fylgir því að heiman en einnig önnur dulin rödd sem hefur aðra sögu að segja.Efi læðist að um að veganestið sé ekki nógu hollt. Aginn að heiman er góður en nú tekur við nýr tími sjálfsagans þar sem unglingurinn mótar sig sjálfur með þýðingarmiklum ákvörðunum. Hann skoðar óljósa sjálfsmynd sína og metur skilaboð jafnt innan sem utan hringsins.
Milli tveggja turna
Suma krákustíga er aðeins hægt að fara einn eða ein. En þegar fjallið er klifið og stígurinn stiginn þá finnur unglingurinn heimanmund í hjartanu og huganum og jafnvel í nestistöskunni. Hann skynjar ósýnilega förunauta sína og hlustar á þá. Hann beitir sig aga til að ganga veginn áfram í stað þess að ráfa um vegleysur. Hann fer einhverja hringi en með einbeittum vilja rofnar hringurinn.
Veganestið er einnig minning um fjölskrúðugt föruneyti, ekki einsleitan hóp. Þar er að finna ólíkar persónur og hæfileika, reynslu úr öllum heimsálfum og -djúpum. Einnig vitneskju sem reynslan kennir: að samstaða hinna ólíku (mann)gerða sé sterkari en hinna líku. Takist þeim sem eru af marglitu bergi brotnir að vinna saman verður erfitt að rjúfa þá vináttu.Ástæðan er að þeir samstilla margbrotna hæfileika sína, reynslu og vitneskju.Verkefnið á unglingsárum er því viðamikið. Það er áskorun um að yfirgefa hreiðrið um stund, taka flugið og glíma við aðstæður. Í þessum ferðum vaknar innri spurning um hlutverk í heiminum. Föruneytið getur ekki sagt unglingnum hvert hlutverkið er, hann verður sjálfur að finna það og taka hlutverkið að sér. Velja, stíga fram og ganga inn í það. Föruneytið þekkir ekki allt hans innra líf. Aðeins unglingurinn sjálfur getur numið innri rödd sína, vegið og metið í aðstæðum. Svarið um hlutverkið finnst aðeins í spennunni milli sjálfsins og heimsins. Svarið liggur á milli þessara tveggja turna. Unglingurinn: hálfur barn og hálfur fullorðinn, þarf tækifæri til að reyna sig milli tveggja skauta, tveggja hliða á hinni mannlegu veru: sjálfsmynd og heimsmynd. Hann þarf ráð og aga og svigrúm til að fara að heiman. Fyrst í stuttar ferðir og svo í langferð. Margt lærist á ferðum utan hringsins. Það sem aðeins var til í sögum eða á myndum opinberast og allt lítur öðruvísi út. Það sem virtist vera skammt undan reynist oft utan seilingar.
Gjafir föruneytisins
Innra með unglingnum búa setningar að heiman, vísdómsorð og ráð hinna eldri. Þennan heimanmund þarf að draga fram, vega og meta á lífsleiðinni. Sumt reynist vel, annað hefur misst gildi sitt. Aðeins með því að prófa og hlusta á eigin rödd tekst að reyna sanngildið. Lífið staðnar ekki og því þarf að endurmeta gildin en skilja þau ekki eftir í vegkantinum. Áður en unglingurinn heldur í eigin ferðir þarf föruneytið að hafa gefið honum gjafir; vesti, gert af dverghögum höndum til að verja þungum höggum. Sverð til að verjast og sækja fram. Ljós til að reka burt eitraðar hugsanir. Brauð sem skemmist ekki. Sóma sem fyllir hannhugrekki, gætni og skilningi á því að enginn geti borið byrðina fyrir hann, hversu þung sem hún reynist. Einhverjir geta þó ef til vill lyft undir með honum um stund eða lánað snæri til að feta sig um klettótt landslagið. Á veginum sækir efinn að ferðalöngum, en hann er gollragjöfin sem allir verða að þiggja. En eftir að hafa efast verða kennileitin skýrari. Efinn kennir unglingnum að gera greinarmun á sviknum vegpóstum og ósviknum. Sjálfsmyndin mótast mjög á unglingsárunum og á veginum að heiman máta unglingar sig við hegðun, áhugamál, hugmyndir, persónur og útlit. Sölumenn kasta netum sínum og sleppa ekki af þeim augunum. Föruneytið má alls ekki sofna á verðinum þegar unglingurinn fer út fyrir garðinn því þá fyrst verður hann fyrir áreitum úr öllum áttum. Gagnrýninhugsun er því meðal þeirra gjafa sem föruneytið veitir. Föruneytið fylgir hinni hálfnuðu mannveru áfram í anda því hún þarf að geta leitað ráða hjá þeim sem þekkir framhaldið.
Samábyrgð hins unga
Eftir að barnið hefur stigið út úr síðasta hring æskunnar snýst sjónarmiðið og leiðin liggur niður fjallið og um dalina.
Á heimleiðinni má jafnvel sjá drauma í hengingarólum, svikin loforð liggja eins og hráviði út um allt og vináttu í gapastokkum. Allt líður undir lok og enginn kemst ósnertur frá þeim ótal þrautum sem þarf að vinna. Þó bjarmar af nýjum degi. Þeir sem snúa aftur heimvita að það var vonin sem skildi á milli feigs og ófeigs. Sá sem heldur í vonina til síðustu stundar og býst til varnar þótt allt virðist undirokað myrkrinu, hann á enn möguleika til að ganga veginn á enda. Vonarberar eru fuglarnir sem syngja í dimmunni fyrir dögun. Fróðara snýr unga fólkið aftur með sóma í hjarta og tekst á við óvænta vegfarendur sem eru á rangri leið. Skæður óvinur (Saruman) gengur hjá en hann virðist ekki lengur hættulegur. Fangarinn er ekki svipur hjá sjón og finnst skorta á þekkingarleysi unga fólksins. Hann er þó ekki dauður úr öllum æðum og stefnir á síðasta vígið: heimalandið. Verst finnst honum þegar ljósinu er beint að honum. Heima í héraði er ekki allt með felldu. Heimalandið er ekki varið með girðingumog á meðan ferðalangurinn fór grunlaus um heiminn og vann ýmsar dáðir læddust þangað sömu öfl og barist var við út í heimi. Ósóminn sem leyndist í skúmaskotinu er kominn á stjá. Sá sem hélt á vit ævintýranna hefur lært hugrekki, hann hefur lært að gera greinarmun á góðu og illu, röngu og réttu í tíðarandanum. Honum hefur tekist að öðlast sjálfsaga og styrk til að taka ákvarðanir. Hann hefur gengið um land skuggans og lýst það upp og býst við að geta snúið værukær heim og sofnað áhyggjulaus. En heima býður héraðshreinsun því ófétið og fangarinn hefur hernumið huga heimalninganna. Næsta verkefni er að skapa nýtt heimaland á grunni þess gamla.
Í héraðinu reynist ískyggilegt áhugaleysi á dýrmætum gildum, það ber á einelti, kynþáttahatri, ofbeldi, öfund og öðrum neikvæðum samskiptum sem þarf af vinna bug á. Samábyrgð hins unga felst í því að vilja standa vörð um þau gildi sem hann lærði; jafngildi allra manna, virðingu fyrir einstaklingum, umhyggju og sáttfýsi. Hann vill þroska með sér umhyggju fyrir öðrum og láta þá finna að þeir tilheyri hver öðrum – og veit að þessu verkefni lýkur aldrei.
Framtíð heimalandsins
Hinn miskunnarlausi birtist hins vegar eins og sá sem ekkert hefur til saka unnið: undrandi harðneitar hann ábyrgð sinni og áhrifum á berskjaldaðan huga unglingsins. Það gagnar samt ekki fyrir föruneyti barnsins að láta hefnd mæta hefnd og efna til átaka þegar önnurráð eru fyrir hendi. Heldur þarf að ræna myrkrið styrkleika sínum og stökkva því á brott með aðferðum sem það beitir ekki sjálft.
Barnið sem snýr heim fullorðið þarf að rjúfa einangrun heimalandsins og gefa því hlutdeild í veröldinni allri. Það vill koma í veg fyrir sofandahátt og afskiptaleysi því einmitt þetta tvennt skapar pláss fyrir ormstunguna. Aðeins á hulinni brynju hollustu, samkenndar og samábyrgðar brotnar hnífsblað hatursins. En aldrei á gagnkvæmu hatri. Farsælt föruneyti gerir gott fólk úr börnum, fólk sem dofnar ekki undir sefjun umhverfisins heldur man hvert erindi þess og jafnvel köllun er. Á fjallstoppnum getur það jafnvel hikað við að sinna erindi sínu og ranglega snúist hugur. Þá getur sá ólíklegasti í föruneytinu átt einhverju mikilvægu hlutverki að gegna. Sá sem safnar aðeins jábræðrum í kringum sig er ekki líklegur til að greina aðstæður nægjanlega vel. Í góðu samfélagi er lögð stund á samræðu ólíkra hópa og djúp virðing er borin fyrir fjölbreytninni. Framtíð heimalandsins veltur ekki á einmenningssamfélagi fyrri kynslóða heldur fjölmenningu komandi kynslóða. Það er verkefnið sem mætir ungu fólki og lykillinn að betri heimkynnum.Auga tíðarandans getur gripið hugann, en til að standast augnaráðið og vinna giftusamlega úr hughrifunum þarfgott veganesti og föruneyti. Hugurinn er mannhelgur og því er leiðin frá eyra að hjarta aðeins mörkuð af innri vilja. Verkefnið er alltaf tvíþætt. Sókn: að eyða ofstæki og ofríki ormstungunnar án þess að beita sömu brögðum því það nærir eldinn. Vörn: að efla gildin sem styðja lífið og byggja innri varnir með börnum framtíðarinnar. Bernskan er undur – og það er ævintýri að ala upp barn.
Gunnar Hersveinn
Höfundur er rithöfundur.
Reblogged this on Bara byrja and commented:
Finnst rétt að halda skrifum Gunnars Hersveins um uppeldi til haga.