Um daginn hringdi til mín ung móðir sem ég kannast við, sex ára sonur hennar er að byrja í skóla í haust og hún vildi fá álit mitt á tilvonandi kennara hans. Er þetta góður kennari, spurði hún og eitt andartak vafðist mér tunga um tönn. Ekki vegna þess að ég hafi einhverjar efasamdir um þennan kennara, sem ég þekki til, heldur vegna þess að það er ekki alltaf augljóst hvort kennari er góður eða ekki. Stundum hefur einhver dásamað tiltekinn kennara sem mér finnst ekkert sérstaklega góður og því hefur líka verið öfugt varið. Þetta fer líklega eftir ólíkum væntingum okkar og reynslu.
Sem betur fer hef ég fyrst og fremst kynnst góðum kennurum á löngum ferli mínum í grunnskólanum fyrst sem nemandi, svo sem kennari og loks sem verkefnastjóri. Fyrstu kennararnir mínir í Austurbæjarskóla þau Bjarni Bjarnason og Sjöfn Friðriksdóttir eru mér enn minnisstæðir fyrir hvað þeir voru góðir við okkur krakkana, það var fyrst og fremst þeim að þakka hvað það var alltaf gaman í skólanum. Sjálf hef ég kennt við fjóra grunnskóla og enda þótt þeir séu um margt ólíkir eiga þeir það sameiginlegt að í öllum störfuðu kennarar sem ég tel hafa verið góða kennara og sumir voru að mínu mati framúrskarandi fagmenn. Þetta voru kennarar sem sýndu nemendum sínum mikla umhyggju og tókst að vekja áhuga þeirra á námsefninu með fjölbreyttum kennsluháttum sem mættu þörfum allra svo þeir náðu góðum námsárangri. Auk þess stuðluðu þeir meðvitað að heilbrigðu sjálfstrausti nemenda sinna og félagsfærni. Margir vina minna eru kennarar sem hafa brennandi áhuga á starfi sínu og leita stöðugt nýrra leiða til að ná betri árangri. Ég dáist að þessu fólki því starf þeirra er ómetanlegt, þó það sjáist ekki í launaumslaginu.
En það væri meiriháttar afneitun að halda því fram að ég hafi ekki líka kynnst vondum kennurum, bæði af eigin raun og frásögnum annarra. Ég gleymi aldrei einum fyrrverandi kennara mínum fyrir sífellda tilburði hans við að niðurlægja mig frammi fyrir félögum mínum. Það var sama hvað ég reyndi að vanda mig, ég gerði stöðugt einhver mistök sem honum tókst að gera að aðhlátursefni bekkjarins, enda var kennarinn með eindæmum fyndinn. Það var síður en svo að ég væri eina bitbein fyndna kennarans, hann var naskur á að finna veikleika nemenda sinna og margir sátu undir því að vera uppnefndir og hæddir á meðan hinir hlógu. Foreldrum mínum var vel kunnugt um þetta ástand og höfðu áhyggjur af því en á þeim tíma voru ekki margir foreldrar sem voguðu sér að leggja fram kvörtun í skólanum. Sú aðferð kennara að nota vald sitt til að niðurlægja nemendur og gera lítið út þeim hefur því miður lengi verið þekkt og er m.a. oft lýst í bókmenntum og kvikmyndum, en ég geri mér sannarlega vonir um að hún heyri fortíðinni til.
Eins og áður hefur komið fram hér í Krítinni eru sumar þjóðir að fara þá leið að umbuna góðum kennurum sérstaklega með framgangi í starfi og hærri launum. Til þess að meta gæði þeirra hafa verið sett fram viðmið sem kennarar eru metnir eftir. Sem dæmi má nefna að í Kanada sér fagfélag kennara um að meta gæði stéttarfélaga sinna úr frá samræmdum viðmiðum. Í Englandi hefur Ofsted ákveðið viðmið um gæði kennara sem þeir eru reglulega metnir út frá, bæði af fulltrúum stofnunarinnar og einnig eru viðmiðin notuð í jafningjamati starfsfélaga. Í þessum löndum er með öðrum orðum til opinber skilgreining á því hvaða eiginleikum kennari þarf að vera gæddur til að geta talist góður kennari.
NKC