Kennari maímánaðar 2013

eydisEydís Hörn Hermannsdóttir

Menntun

Stúdent frá Nørre Gymnasium í Kaupmannahöfn. Tveir vetur í MHÍ (annar sem skiptinemi í Barcelona) og Kennarapróf frá KHÍ.

Skólinn sem ég kenni við

Sæmundarskóli í Reykjavík.

Bekkur

Umsjónarkennari í 7. bekk ásamt Álfheiði Ingólfsdóttur. Í Sæmundarskóla er kennt í tveggja og þriggja kennara teymi og mikið samstarf á milli árganga.

Síðasta símenntunarnámið sem ég sótti

PALS lestrarnámskeið

Hvaða þrjú atriði í kennsluháttum mínum hafa haft mest áhrif á árangur nemenda minna

  • Að hafa auga með líðan

Mér finnst skipta öllu máli að nemendum líði vel í skólanum. Það fer lítið nám fram þegar nemandinn er í flækju tilfinningalega eða nýtur sín ekki. Nemandi er skyldaður til þess að mæta til starfa dag hvern og vinna eftir fyrirfram ákveðinni dagskrá burtséð frá líðan. Þess vegna er mikilvægt að hver og einn sjái árangur af starfi sínu og fái aðstoð til þess að leysa úr vandamálum þegar þau koma upp.

  • Að vinna eftir styrkleikum og áhuga

Nemendur hjá okkur vinna oft í hópum eða pörum og hefur það reynst vel. Við reynum að kenna þeim að nýta styrkleika sína í hópnum og sjá að það sé hægt að fara ólíkar leiðir að sama marki. Við höfum markvisst greint í sundur þætti innan íslensku, ensku og stærðfræði til þess að sýna nemendum að t.d. slakur lestur geri þá ekki minni íslenskumenn eða að sá sem á erfitt með reikningsaðgerðir geti verið jafnmikill stærðfræðingur. Kennarar eru auðvitað missterkir í fögum og við skiptum með okkur verkefnum eftir styrkleika og áhuga vegna þess að áhugalaus kennari nær ekki góðum árangri.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir eru grunnurinn að þessu.

Það á ekki að vera feimnismál að sumir nemendur noti eyrun á meðan aðrir noti augun til þess að kynna sér efni og eins að einhverjir fái að tjá sig munnlega frekar en að skrifa langan texta. Auðvitað gerum við kröfur um framför í lestri og ritun en greinum kunnáttu í þeim fögum frá kunnáttu í landafræði, sögugerð eða ensku o.s.frv. Það gerum við með því að sýna þeim ólíkar leiðir til þess að læra eða koma kunnáttunni til skila.

  • Að gera kröfur

Ég finn að kröfur kennarans og skólans skipta miklu máli fyrir það hvernig nemandi skilar verkefni. Kennarar eru missterkir í fögum og hafa ólík áhugasvið. Mér er minnisstætt þegar ég kenndi í þriggja kennara teymi en hver okkar var þó með sinn bekk. Það reyndist ótrúlegur munur á hæfileikum barna í hverjum bekk, einn þeirra skilaði af sér ótrúlega vönduðum myndverkum á meðan annar var augljóslega best skrifandi. Þarna voru það kröfur kennarans sem réðu nema raðast hafi svona skemmtilega í bekki.

Hverju er ég stoltust af í starfinu mínu

Ég er stolt af því að nemendur mínir eru stöðugt að verða útsjónarsamari og öruggari við að fara nýjar leiðir.  Ég er stolt af því að fá nýjar hugmyndir en ekki síður að samstarfsmenn nenni að hlusta á þær og laga þær til þar sem úthald og forsjálni er ekki ein af mínum sterku hliðum. Þar kem ég aftur að því fyrrnefnda um ólíka hæfileika. Ég er líka svo heppin að vinna með skólastjórnendum sem fagna hugmyndum og nýjungum og hvetja starfsmenn til þess að gera þær að veruleika. Á þennan hátt erum við til dæmis að móta valsmiðjur á miðstigi sem hafa aukið ánægju nemenda til muna og fengið þá til að blómstra á mörgum sviðum.

Hvaða markmið set ég mér í þróun starfs míns

  • Að bæta kunnáttu mína í tæknimálum.
  • Að fækka ómarkvissum kennslustundum.
  • Að geta gert sama hlutinn tvisvar (góðu hlutina).
  • Að halda áfram að hafa gaman að starfinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s