Nýjustu rannsóknir í sálfræði (Laurie Helgoe, 2010) sýna að mismunandi persónuleikum hentar ólíkt námsumhverfi. Munurinn á þessum hópum er lífeðlisfræðilegur, og mikilvægt er að tekið sé tillit til hans frá frumbernsku. Nemendum með úthverfan (extrovert) persónuleika hentar vel að læra í kennslustofu með öðrum nemendum. Hinum sem eru innhverf (introvert) hentar aftur betur að læra í ró og næði. Fyrir þau börn sem eru svo heppin að hafa slíkar aðstæður í heimahúsum er heimanámið besti kosturinn. Stálpuð börn geta vel haft lykil og séð sjálf um heimanám sitt, a.m.k. meirihlutann af því, áður en foreldrar koma heim, ef þau kunna að vinna á eigin spýtur.
Ég tilheyri síðari hópnum (introvert) og mér hefði aldrei gengið jafn vel í skóla ef ég hefði ekki fengið tækifæri til þess að læra í næði. Að vísu var svokallað barnaskólastig mjög létt fyrir vel læsa krakka. En í framhaldsskóla var það alger forsenda fyrir því að geta lært e-ð af viti að hafa næði til þess heima, og þá kom sér afar vel að vera búin að læra öguð vinnubrögð. Þá var heldur engin mamma lengur heima á daginn, og fannst mér afar jákvæð reynsla að bera sjálf ábyrgð á náminu, alein og ótrufluð, enda gekk það mjög vel.
Það hentaði mér ágætlega að barnaskólanámið væri svona létt, þá hafði ég nógan tíma fyrir annað lesefni sem gerði meiri kröfur og ég lærði meira af. Það eina sem gaf mér e-ð að kljást við í barnaskóla var reikningurinn, þar kom hjálp mömmu sér vissulega vel, enda var hún betri í því fagi en kennarinn. Er það kannski álitið neikvætt að foreldrar hjálpi börnum vegna þess að sumir hafa meiri þekkingu en aðrir, og slíkt geti stuðlað að því að sum börn skari framúr?
Eitt árið var bekkurinn búinn með kennslubókina í landafræði löngu fyrir próf. Kennarinn sótti þá um að við fengjum að taka fyrir bókina sem var ætluð næsta bekk fyrir ofan. En við fengum neitun, við urðum að fylgja námsskránni. Í stað þess lét kennarinn okkur læra meira um þau lönd sem búið var að fara í. Þessi stefna, að reyna að passa að allir læri jafnlítið, enginn bekkur megi fara framúr öðrum, hlýtur að vera eitthvert afbrigði af því sem stundum hefur verið kallað „sósíalismi andskotans“. Enda stuðlaði þetta ekki að neinum jöfnuði, börn á „menningarheimilum“ fengu auðvitað meira lesefni, en hin félagslega verr stöddu urðu að láta sér nægja þetta litla sem skólinn bauð.
Skólinn og foreldrar bera mikla ábyrgð á því að veita börnum verkefni sem þroska greind þeirra, en ekki eitthvað sem er mjög auðvelt fyrir þau.Talað hefur verið um að hefðbundið skólastarf skapi tapara og sigurvegara. En klárir krakkar og foreldrar þeirra vita vel að það er enginn alvöru sigur að fá góðar einkunnir vegna þess hve námsefnið er létt.
Ég veit vel að ekki er hægt að snúa til baka til ástandsins eins og það var fyrir hálfri öld. En hefur enginn áhuga á þeim börnum og unglingum sem ekki geta einbeitt sér í hávaðasamri skólastofu og þurfa að fá næði til að geta lært – og áhyggjur af þeim? Skiptir ekki máli hvort þau geta nýtt hæfileika sína, sem oft eru mjög góðir? Og hvernig skyldi þeim líða í leikskóla þar sem þau fá aldrei að vera út af fyrir sig?
Ingibjörg Ingadóttir, fyrrverandi nemandi
Heimildir
Laurie Helgoe. (2010). PSYCHOLOGY TODAY, Sept./Oct. 2010, bls. 57-61).