Listin að kenna

kennslaÞað er ekkert vandamál að halda aga ef nemendurnir sjá tilgang með því að haga sér vel. Það sama á við um nám, þegar nemendur sá tilgang með verkefnunum sem þeir fást við þá er miklu líklegra að þeir leggi sig fram. Þegar jafnframt  tekst að vekja forvitni þeirra þá verður námið og kennslan leikur einn. Þetta er meðal þess sem danski fræðimaðurinn Hans Henrik Knoop sérfræðingur í jákvæðri sálfræði sagði í erindi sínu á Öskudagsráðstefnu reykvískra kennara þann 5. mars.

Hans Henrik  talaði líka um hvað það skipti miklu máli að kennslustundin væri ekki algerlega fyrirsjáanleg því fátt væri jafn leiðinlegt og það að vita nákvæmlega hver framvindan verður, hvað verði sagt og hvenær og hvað gert og hvernig.  Þetta eru auðvitað engin kjarnorkuvísindi og líklega fáir kennarar sem mótmæla þessu. Hvaða kennari myndi ekki vilja skapa þannig skólabrag að nemendurnir sæju raunverulegan tilgang í að haga sér vel og gera námið svo tilgangsríkt og forvitnilegt  að það veki áhuga allra nemenda? Og hvaða nemandi vildi ekki vera hjá slíkum kennara?

Í samfélagi eins og okkar þar sem hegðun fólks stjórnast minna af ytri aga en hjá ýmsum öðrum þjóðum þá skiptir færni kennarans líklega enn meira máli,  þar vegur þungt sú list að kunna að skapa rétta andrúmsloftið.

Nýlega fékk ég í hendurnar áhugaverða bók sem heitir Strategies for Closing the Learnig Gap og er eftir Mike Hughes og Andy Vass. Þar er fjallað um ýmsar hagnýtar hugmyndir í þessum anda. Mig langar til að deila nokkrum þeirra með ykkur.

Ég hef komist að þeirri ógnvænlegu niðurstöðu að það er ég sem hef úrslita áhrifin í kennslustundinni.
Það er mín persónulega nálgun sem skapar andrúmsloftið.
Það er dagsform mitt sem setur tóninn.
Sem kennari fer ég með gríðarlegt vald sem getur gert líf barna ömurlegt eða ánægjulegt.
Ég get verið prikið sem lemur eða hljóðfærið sem vekur innblástur.
Ég get niðurlægt, verið fyndinn, sært eða hughreyst
Það er alltaf ábyrgð mín, í öllum aðstæðum, að ákveða hvort það á að gera mikið eða lítið úr vandamálum sem upp koma, og barn byggt upp eða brotið niður. (Ginott. H., 1972)

Og hér koma svo nokkrar ábendingar úr sömu bók:

  • Við höfum enga stjórn á því í hvaða ástandi nemendur eru þegar þeir koma í kennslustund til okkar, en við höfum fulla stjórn á viðbrögðum okkar.
  • Ef það er starf kennara að hjálpa nemendum að læra þá hlýtur hann fyrst að þurfa að tryggja að nemendurnir séu í réttu ástandi til að læra.
  • Sjálfsmynd nemandans og löngun hans til að læra er án efa sá þáttur sem kennarar eiga erfiðast með að hafa áhrif á. Engu að síður er ekkert sem getur haft meiri áhrif á nám nemandans en það að hafa jákvæð áhrif á tilfinningar hans.
  •  Þrír lyklar að árangursríkri kennslu: Ástand. Fólk lærir best þegar það er í réttu líkamlegu og andlegu ástandi.  Mest nám fer fram þegar heilinn fær næringu og nemendur eru afslappaðir, öruggir og áhugasamir. Námstíll. Fólk lærir á mismunandi hátt. Til að ná hámarks framförum verður fólk reglulega að fá tækifæri til að vinna á þann hátt sem hentar því best. Uppbygging. Þroskaðir nemendur, sem eiga auðvelt með nám, taka eðlilega framförum  án þess að vera sérstaklega meðvitaðir um hvernig. Hinum sem eiga erfiðara með nám þarf að hjálpa til að finna sínar aðferðir.

NKC

Heimild:

Hughes, M. og Vass, A. (2013) (frumútgáfa 2001).  Strategies for Closing the Learnig Gap. London: Bloomsbury.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s