Sameiginleg sýn varðandi agamál

rettuphend2Að fenginni reynslu tel ég ljóst að mikilvægast af öllu varðandi agamál sé að sýna nemendum virðingu og  koma þannig fram við þá að ekki skapist aðstæður togstreitu og valdabaráttu milli kennara og nemenda. Háð og lítillækkun nemenda eru ekki boðleg agastjórnunartæki að mínu mati.

Þó agamálin í hverjum bekk standi og falli með þeim kennara sem kennir honum hverju sinni er mikilvægt að allir starfsmenn skóla standi saman og skynji ábyrgð sína sem hluti af heild þegar kemur að því að byggja upp þann skólabrag sem vilji er til að ríki í hverjum skóla.

Ég hef líkt því, að halda uppi aga, við það að halda eggi í lófa sér. Lófinn er sá rammi sem börnunum er settur, eggið er barnið sem við eigum að passa að brotni ekki og fingurnir eru fullorðna fólkið sem myndar þær stoðir sem styðja barnið við að halda sér innan rammans. Ef stoðirnar eru of linar rúllar eggið niður á gólf og brotnar, ef þær hins vegar kreppast of fast utan um eggið brotnar það líka og ef ramminn er of þröngur fær barnið ekki svigrúm til að blómstra.

Að mínu mati  er mjög mikilvægt að rugla ekki saman  samábyrgð og kröfum um samræmingu. Ég tel  mikilvægt að kennarar sameinist um sýn sem þeir fylgja í agamálum en samræmd viðbrögð séu ekki nauðsynleg. Krafan um samræmingu viðbragða er oft hávær, en hana er alls ekki auðvelt að uppfylla. Það eru ýmist rök sem mæla  gegn samræmdum viðbrögðum, t.d. þau að kennarar eru mannlegir og hafa ólíkan bakgrunn, viðmið og þolmörk og  þeir muni af þeim ástæðum aldrei geta allir komið fram á sama hátt þegar vissar aðstæður skapast í stofunni eða sett nemendum sömu mörk ( Bluestein, J.,1998). Það sem einum finnst að eigi alls ekki að vera leyfilegt finnst öðrum ekkert tiltökumál. Hvorugur er betri eða verri fyrir vikið, viðhorfin mótast af bakgrunni, reynslu, menntun og öðru því sem mótar einstaklinga.

Krafan um samræmd viðbrögð leiðir oft til flokkadrátta  og klíkumyndana meðal starfsfólks sem hneykslast á hinum sem annað hvort eru ómögulegir vegna þess að þeir fylgja ekki reglunum eða ómögulegir af því þeir eru svo smámunasamir, allt eftir því hvaða hópi starfsfólk telur sig tilheyra.

Þetta skapar lélegan móral og  krafan um samræmingu getur jafnvel frekar ýtt undir það að kennarar varpi frá sér ábyrgð á umgengni nemenda sinna og kenni  foreldrum,stjórnendum skólans eða þeim kennurum  sem þeir telja að ekki  fylgi samræmdu reglunum eftir um ef illa gengur.

Öllum þeim tíma sem varið er í að hneykslast á þeim sem fara ekki eftir samræmdu reglunum, hvort sem það eru hinir kennararnir, foreldrar eða stjórnendur væri betur varið til uppbyggilegrar umræðu svo sem vangaveltna um lausnir þegar upp koma vandamál í bekk, eða kennarar segi hverjir öðrum frá  hvernig þeir leysa úr vandamálum eða ráðleggi hverjir öðrum um það hvort tiltekin hugmynd eða aðferð samræmist þeirri hugmyndafræði sem ríkir í skólanum.

Samábyrgðin er nauðsynleg því ef allir starfsmenn sýna ekki ábyrgð, er hætt við að slakni á viðmiðunum, stoðirnar veikjast svo það myndast glufur og  nemendur sleppa út fyrir rammann og komast upp með óásættanlega hluti.

Enginn kennari er eyland, heldur hluti af samfélagi innan skólans sem utan en samt hafa persónulegi gildi hvers kennara áhrif á hvernig honum hentar að halda uppi aga hjá sínum nemendum. Fagleg starfskenning hvers kennara ætti að vera það leiðarljós sem hann fylgir í agamálum að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni og hæfni hans til samstarfs og geta til að sýna sveigjanleika eru mikilvægir þættir  í því að geta tekið þátt í að skapa sameiginlega sýn um samskipti við nemendur með samstarfsfólki sínu.

Heimild

Bluestein, J. (1998). 21st Century Discipline: Teaching Students Responsibility and Self Management. Torrance: Fearon.

EK

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s