Pygmalion áhrifin

pygFlestir kennarar kannast sjálfsagt við rannsókn Rosenthal og Jacobson(1968) um áhrif væntinga kennara á námsárangur nemenda, en hún rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlýddi nýverið á Jóhann Inga Gunnarsson sálfræðing flytja erindi um sjálfstraust og Pygmalion áhrifin.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða langvarandi Pygmalion áhrif í kennslustofunni. Til upplýsinga þá má geta þess að Pygmalion þessi var grískur guð sem varð ástfanginn af styttu sem hann bjó til og öðlaðist líf. Sagan hefur síðar orðið mörgum listamönnum að yrkisefni og er m.a. undirtónn söngleiksins My Fair Lady.

En aftur að rannsókninni, tilgangur þeirra Rosenthal og Jacobson var að styðja þá tilgátu að hægt væri að hafa áhrif á aðstæður með væntingum. Þarna getur bæði verið um jákvæð og neikvæð áhrif að ræða allt eftir því hvaða merkimiða við setjum á viðfangsefnið.  Þannig hafa fordómar tilhneigingu til að ganga eftir. Ef kennari hefur t.d. þau viðhorf að ljóshærðir nemendur hafi minni námsgetu en aðrir er líklegra að ljóshærðu nemendurnir hans fái lægri einkunnir en hinir. Þetta nefnist á ensku self-fulfilling prophecies eða sjálfsuppfyllandi spádómur.

„Þegar við höfum ákveðnar vætingar um hegðun annarra höfum við tilhneigingu til að hegða okkur þannig að væntingar okkar verði líklegri til að verða að verleika“ (Rosenthal and Babad, 1985).

Rannsóknin hófst með því að allir nemendur í tilteknum grunnskóla í Californiu voru látnir taka greindarpróf. Niðurstöðum var haldið leyndum en kennurunum aftur á móti sagt að  tiltekinn hópur nemenda hefði komið það vel út úr prófinu að búast mætti við hærri einkunum hjá þeim en öðrum í lok ársins.  Kennararnir fengu að vita nöfn þessara nemenda. Hér var í rauninni um að ræða u.þ.b.20% nemenda skólans sem valdir voru af handahófi. Við lok rannsóknarinnar var sama  prófið endurtekið. Niðurstöður þess sýndu að „gáfuðu nemendurnir“  voru orðin marktækt hærri en hinir einkum var munurinn mikill í yngstu bekkjunum.  Af þessu var dregin sú ályktun að væntingar kennara, sér í lagi til yngstu nemendanna,  hafi áhrif á námsárangur nemenda.  Þetta var talið skýrast af því að kennarar hefðu jákvæðari viðhorf til „gáfuðu nemendanna“ og að þeir veittu þeim meiri athygli og stuðning þegar á þurfti að halda.

Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar í sama tilgangi og sýna í megin dráttum að þegar kennarar hafa miklar væntingar til nemenda sinna þá standa þeir undir þeim væntingum. Þegar kennarar hafa ekki slíkar væntingar fá nemendurnir ekki eins mikla hvatningu og reyndar getur hvatningin að ýmsu leyti orðið neikvæð.

Hér eru nokkur hagnýt ráð fyrir kennara:

  • Gerðu aldrei ráð fyrir slökum árangri hjá nemendum þínum. Ef þú veist að próf er tiltölulega erfitt segðu þá nemendum þínum að prófið  sé erfitt en að þú sért viss um að með góðum undirbúningi muni þeir ná góðum árangri.
  • Taktu aldrei þátt í neikvæðum umræðum um nemendur. Starfsfólk sem talar illa um nemendur stuðlar að neikvæðum skólabrag og kennsluháttum þar sem nemendur verða taparar.
  • Byggðu upp miklar væntingar. Nemendur ná betri árangri þegar starfsfólk hefur miklar væntingar til þeirra. Þegar nemendur takast á við krefjandi verkefni segðu þá „ ég veit að þið getið þetta“. Ef þú treystir nemendum þínum ekki til að ráða við verkefnið frestaðu því þá og undirbúðu nemendur betur.

Heimildir

Rosenthal, R., and E. Y. Babad. 1985. Pygmalion in the gymnasium. Educational Leadership 43 (1): 36–39.

NKC

One response to “Pygmalion áhrifin

  1. Svona til að setja þennan ágæta pistil í annað samhengi en það sálfræðilega má segja að það sé grundvallaratriði í umgengni við nemendur, og raunar alla sem við hittum, að koma því til skila að maður búist við að sá hinn sami sé góður, duglegur og hæfileikaríkur, eða a.m.k. að hann geti orðið það með því að leggja eitthvað á sig. Þannig hjálpum við til að halda í vonina um betri tíð, en án þeirrar vonar er engin tilgangur í námi. Og þetta er ekki bara rétt vegna þess að það hafi góð áhrif á viðkomandi heldur líka vegna þess að sem viðmælandi (spegill?) annarra manna ber maður (kennarinn) ábyrgð. Ábyrgð á því að veita öðrum siðferðilegt taumhald og umhyggju en án hvorutveggja eru þeir alfarið upp á sjálfa sig komnir; það er ekki gott til lengdar fyrir nokkurn mann, allra síst börn og ungmenni, né fyrir nokkurt samfélag, Þetta er siðaboðskapurinn sem tilraun Rosenthals og Jacobsen byggir á. Tilraunin hefur raunar verið gagnrýnd vegna þess að ekki hefur tekists að endurtaka hana með sömu niðurstöðu og þeir fengu en engu að síður eru flestir á því að niðurstaðan sé rétt! Þannig má nota vísindin til að koma góðum siðaboðskap til skila.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s