Skapandi greinar eru framtíðin

skapandifiskurÞað er allt annað en skemmtilegt að verða reglulega vitni að neikvæðri umræðu um grunnskólann. Fullyrðingar eins og þær að grunnskólinn á Íslandi  sé allt of dýr og skili of litlum árangri eru óþolandi fyrir kennara sem árum saman hafa sinnt starfi sínu af alúð og metnaði. Mér segir svo hugur um að umræðan um skólann hafi hrokkið í sama hjólfar og umræðan um nemendur, athyglin beinist í of ríkum mæli að veikleikunum meðan styrkleikarnir gleymast.  Þetta sannfærðist ég enn frekar um þegar ég horfði nýlega á  þátt í sjónvarpinu sem gerður var í tilefni afmælishátíðar FTT .

Eftir þáttinn sat ég uppi með spurninguna;  getur verið að grunnskólinn á Íslandi sé kominn skrefinu lengra en þær þjóðir sem mælast hæst í alþjóðlegum samanburði og að kannanirnar sem við nýtum nái ekki að mæla mestu styrkleika skólans okkar? Ég veit að þetta getur virkað hrokafullt  eða jafnvel eins og réttlæting en ef litið er til þess sam fram kemur í þættinum þá tel ég spurninguna eiga fullan rétt á sér.

Þar segir dr. Ágúst Einarsson að við séum að upplifa nýja atvinnuháttabyltingu, sambærilegri þeirri sem var á 18. öld en hana mátti rekja til þess að menn náðu tökum á gufuaflinu,  en á næstu árum þar á eftir varð  gjörbreyting á samfélögum. Nákvæmlega það sama er að gerast núna, segir Ágúst, ekki síst fyrir tilstilli tölvunnar og vísindanna.  Hann fullyrðir að atvinnugreinar framtíðarinnar séu á sviði skapandi greina og að þar eigum við meiri möguleika en flestar aðrar þjóðir þar sem menningarrætur okkar séu mjög djúpar og mikil og almenn menningarneysla. Við hlustum mikið á tónlist, lesum fleiri bækur en flestar aðrar þjóðir og sækjum í ríkum mæli leikhús, kvikmyndahús, söfn og sýningar. Í sama þætti upplýsir Katrín Jakobsdóttir að þjóðartekjur okkar vegna skapandi greina séu þegar orðnar mun hærri en fólk geri sér almennt ljóst en árið 2009 var velta þeirra álíka mikil og í áliðnaðinum.

Flestir geta líklega orðið sammála um að einn mesti styrkleiki íslenska grunnskólans sé einmitt nám og kennsla í skapandi greinum. Öfugt við það sem gengur og gerist njóta íslenskir grunnskólanemendur t.d. handleiðslu sérmenntaðra list-og verkgreinakennara auk þess sem margir almennir kennarar leggja ríka áherslu á skapandi starf. Það er sjaldgæft að sjá í útlöndum jafn vel búið að list-og verkgreinakennslu eins og hér á landi. Þetta eru vissulega hlutfallslega dýrar námsgreinar, nemendahóparnir eru jafnan minni en ella og efni og tæki kosta sitt. En með tilliti til þess sem að ofan greinir þá má ætla að með áherslu á skapandi greinar séum við einmitt að stuðla að eða a.m.k. að styðja við þróun atvinnuháttabyltingar þar sem atvinnugreinar framtíðarinnar byggja á skapandi greinum.

Við fyllumst öll stolti yfir því unga og efnilega fólki sem þessi árin haslar sér völl í skapandi greinum úti í hinum stóra heimi hvort sem það er í tónlist, kvikmyndum, bókmenntum, tölvuleikjum, myndlist eða leiklist. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta fólk eigi frama sinn grunnskólanum að þakka, vissulega hefur allt umhverfið þ.á.m. annað nám og foreldrar mikil áhrif, en starfið í grunnskólanum hefur sannarlega verið í takt við tíðarandann og þannig stutt við sköpunina, kannski ómeðvitað.

Fólki hættir til að vera afar íhaldssamt þegar gæði skóla eru metin, ég hef orðið þess vör að jafnvel frjálslyndustu listamenn telja stundum að það sé börnum þeirra fyrir bestu að njóta hefðbundinnar kennslu eins og hún var fyrir áratugum síðan.  Eftir að hafa hlustað á viðtalið við dr. Ágúst Einarsson hallast ég að því að grunnskólinn okkar sé miklu betri en oft er haldið fram, það eru fremur viðmiðin sem þarf að endurskoða.

Við virðumst eiga ótrúleg sóknarfæri í nýrri atvinnuvegabyltingu, okkar bíður hinsvegar mikilvæg áskorun hvað varðar raungreinarnar sem eru einnig mikilvægur þáttur nýrra atvinnuvega.  Það verður spennandi að sjá hvernig okkur tekst að takast á við hana.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s