Árangur 3 -Samkeppni um árangur

tape-measureEdda Kjartansdóttir og Ketill B. Magnússon hafa bæði fjallað um árangur í skólastarfi hér í Krítinni. Edda minnti m.a. á að árangur í námi er afstæður og ekki alltaf einfalt að meta hann. Ketill benti á þörf foreldra fyrir traustar upplýsingar um árangur  barna sinna og að foreldrar vilji oft vita hvernig skóli barna þeirra stendur í samanburði við aðra skóla. Ég bæti nú nokkrum orðum í belginn.

Það má halda því fram að árangur í skólastarfi sé hápólitískt efni eða snýst ekki skólapólitík að miklu leyti um viðhorf okkar til hlutverks skólans og um áhersluna á árangur?

Á nýlegum fundi Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs, þar sem umfjöllunarefnið var íslenskt skólakerfi í alþjóðlegum samanburði, var áhersla á samanburð milli nemenda, skóla og þjóða tengd hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.  Í stað þess að líta á menntun sem samfélagsleg gæði er í auknum mæli litið á hana sem verðmæti sem einstaklingurinn aflar sér í eigin þágu. Með góðri menntun aukast líkurnar á virðingu, góðri stöðu og hærri tekjum.

Árangur í námi getur verið það sem skilur á milli sigurvegara og tapara. Víða í Asíu er gífurleg áhersla á árangur nemenda, samkeppnin um bestu skólana er hörð og byrjar snemma. Þeir sem lúta í lægra haldi í samkeppninni eru oft dæmdir til ævilangrar fátæktar. Metnaðarfullir foreldrar leggja því allt í sölurnar fyrir börnin sín, þau eru m.a. kostuð í sérstaka síðdegisskóla, eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur, til að tryggja að þau fái hærri einkunnir en keppinautirnir þ.e.a.s. hin börnin.  Staðreyndin er sú að meðal þessara þjóða eru þær sem skora hæst í Pisa könnuninni. Er kostnaðurinn þess virði?

Þeir sem eru andsnúnir árangursmælingum í námi eru það sennilega oft vegna þess að þeir tengja árangur við samkeppni og samanburð sem getur stuðlað að misskiptingu. Einn hópur nemenda er talinn „betri“ en annar.  Árangur í bóklegu námi hefur oft verið talinn mikilvægari en annar árangur, þetta gæti að einhverju leyti stafað af því að það er miklu auðveldara að telja villurnar í stærðfræðiprófi en að meta hæfileika einstaklinga til sköpunar, svo dæmi sé tekið.  Í skólum þar sem mikil áhersla er á að mæla námsárangur má leiða líkum að því að námsgreinar sem auðvelt er að meta árangurinn af fái meira vægi heldur en færni sem er flóknara að meta, þar má nefna félagsfærni eða hæfileikann til að tjá sig.  Samt eru þetta hæfileikar sem flestir eru sammála um að skipti miklu máli. Getur verið að rétta leiðin til að gefa félagsfærni og fleiri greinum sama vægi og t.d. málfræði sé sú að finna einfaldar leiðir til að mæla árangurinn?

Er samkeppni óhjákvæmilegur fylgifiskur árangurs?  Það eru til skólar sem leggja ríka áherslu á að allir nemendur nái sínum besta árangri. Þessum nemendum  er í rauninni fyrst og fremst kennt að keppa við sig sjálfa, markmiðið er að verða betri í dag en í gær, ekki betri en hinir. Þar ríkir sameiginlegur skilningur á því hvert ferðinni er heitið áður en lagt er af stað og hverjum og einum er leiðbeint í átt að markinu. Bestur árangur næst þegar allir ná markmiðum sínum.

Börn koma í skólann til að læra og foreldrar bera megin ábyrgð á námi þeirra, það er því ekkert eðlilegra en að foreldrar vilji vita hver árangur barnsins þeirra er í náminu og hvernig skóli barnsins sinnir hlutverki sínu. Við viljum jú öll það besta fyrir börnin okkar. Stóra spurningin er aftur á móti sú hvaða árangur á að meta og hvers vegna?

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s