Umræðan um nemendur

School-chairsÁhrifin sem ég varð fyrir í  heimsókn minni í skóla nokkurn í Englandi hafa ekki vikið frá mér. Þetta er skóli sem hefur náð hæstri meðaleinkunn nemenda í 5. bekk í samræmdum prófum síðastliðin tvö ár. Þar að auki eru samskipti nemendanna áberandi góð. Það sem lætur mig ekki í friði eru viðhorf starfsfólksins til nemendanna. Starfsfólkið telur sig vera alveg einstaklega heppið að fá að kenna einmitt þessum nemendum og það fer ekki framhjá þeim og foreldrum þeirra. Frá því börnin stíga fyrst inn fyrir þröskuldinn á skólanum eru þau stöðugt minnt á hvað hvert og eitt þeirra sé einstakt og að miklar vonir séu bundnar við þau. Það er einblínt á styrkleika þeirra og byggt á þeim. Þau njóta mikils trausts m.a. varðandi ábyrgð í rekstri skólans og eru aldrei skömmuð heldur er þeim hjálpað til að ígrunda hegðun sína og í framhaldi af því er þeim leiðbeint til betri vegar. Ef námsárangur þeirra er ekki í samræmi við væntingar er ekki við þau að sakast heldur setjast kennararnir niður til að skoða hvar þeim hefur orðið á og hvað þurfi að bæta. Vissulega hljóta kennsluhættirnir að hafa mikil áhrif en ég hef sterklega á tilfinningunni að það séu ekki síst viðhorf kennaranna og væntingar þeirra til nemendanna sem skipta sköpum. Vegna þeirra markast sjálfsmynd nemendanna. Þeir fara að líta á sig sem góða  námsmenn og skólafélaga og mæta þannig væntingum umhverfisins. Við þetta má bæta  að  skólinn er í hverfi þar sem hlutfall íbúa með annað móðurmál en ensku er mjög hátt og atvinnuleysi er ríkjandi.

Eftir þessa heimsókn hef ég verið að velta því fyrir mér hvort við kennarar höfum alltaf verið nægilega meðvitaðir um hvað viðhorf okkar og umræður um nemendur geta ráðið miklu um árangur þeirra og samskipti. Því miður virðist það rótgróið í menningu skólans að horfa jafnvel enn meira á veikleika nemenda en styrkleika. Við þurfum ekki annað en líta til þess hvernig við höfum metið skrifleg verkefni nemenda okkar, við teljum villurnar, er það ekki?  Með innleiðingu leiðbeinandi námsmats hefur þessi áhersla sem betur fer breyst.

Í umræðunni um skólamál hefur það stundum gerst að kennarar telja upp fjölda nemenda sinna sem eru með greiningar eða einhver frávik í námsgetu eða hegðun, fókusinn er þannig á veikleika og hindranir.  Það fer aftur á móti minna fyrir þeim kennurum sem draga fram fjölbreytta kosti nemenda sinna. Ástæðan er örugglega ekki skortur á styrkleikum nemenda heldur frekar sú að við höfum í of ríkum mæli beint athyglinni í ranga átt og horft á það sem er að hjá nemendum. Ég óttast að ef við kennarar erum ekki stöðugt á verði þá geti umræðan festst í neikvæðum farvegi sem getur haft mikil áhrif á viðhorf okkar til nemendanna og loks stuðlað að neikvæðri sjálfsmynd þeirra. Nemendurnir  læra nefnilega ekki síður að lifa upp til neikvæðra væntinga en jákvæðra. Við getum öll séð að sú útkoma yrði engum til góðs, hvorki nemendum né faglegri sjálfsmynd kennarastéttarinnar.

Það vakti sérstaka athygli mína hvað kennararnir í enska skólanum tóku mikla ábyrgð á námsárangri nemenda sinna. Þeir virðast ekki líta á greind eða færni nemenda sem eitthvað óbreytanlegt og höggið í stein heldur eitthvað sem hægt er að auka og bæta. Fagleg ögrun þeirra felst í því  að setja nemendum raunhæf markmið og finna leiðir sem henta hverjum og einum. Nemendur eru ekki látnir gjalda þess þegar þetta mistekst heldur eru það kennararnir sem endurskoða áætlanir sínar.

Við veljum sjálf viðhorf okkar og hvernig við tölum um nemendur. Það þarf hvorki stjórnsýsluákvörðun né  fjármagn til þess, en áhrifin virðast geta orðið ótrúlega mikil. Hver skóli getur sett sér stefnu um að vinna með styrkleika nemenda, ekkert í reglugerðum um skólastarf á Íslandi kemur í veg fyrir það. En í aðalnámskrá grunnskóla bls.  68 segir hinsvegar um skyldur starfsfólks skóla:

„….. Einnig skal lögð áhersla á að styrkja sjálfsmynd nemenda, efla sjálfsvirðingu þeirra og virðingu gagnvart öðrum, eigum annarra og umhverfinu“.

Hver kennari getur upp á sitt einsdæmi einsett sé að vinna með styrkleika nemenda sinna, fyrsta skrefið gæti t.d. verið að setjast niður með nafnalista nemenda og skrifa tvo til þrjá helstu styrkleikana við hvert nafn. Það eitt gæti haft mikil og jákvæð áhrif.

NKC

5 athugasemdir við “Umræðan um nemendur

 1. Frábær áminning. Það er erfitt að komast hjá því að leggja mat á nemendur af því að það er hlutverk skóla (og foreldra) að stuðla að auknum þroska og framförum barnanna en matið þarf ekki að vera miðað við eitthvert norm og frávik frá því; það má beinast að því hvaða hæfileika og sérstöðu við getum fundið hjá nemandanum og hjálpað honum að rækta það. Þannig minnkum við samkeppni en eflum hæfni einstaklinga og samstöðu þeirra á milli.
  Þetta var ég að hugsa meðan ég fylgist með starfi nemenda í fyrsta bekk um daginn. Hversu oft er reynt að leita hæfileika hvers og eins? Hversu oft grípum við til þess í staðinn að flokka nemendur eftir frammistöðu og hvaða áhrif hefur það á hugmyndir okkar um þá sem eru í hverjum hópi (sbr. geislabaugsáhrifin sem virka í báðar áttir)?
  Við ættum að hugleiða hvað af aðgerðum okkar í kennslu eru til hagsbóta fyrir nemandann og hvað er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir kennarann?

 2. Frábær grein. Ég sá I fyrra þátt á BBC um nýjung í skólakerfi þar sem hætt var að gefa einkunnir, þannig að það voru engir hæstir eða lægstir, en það voru gefnar athugasemdir sem krakkarnir þurftu að vinna úr. Allt viðhorfið hvað varðaði samvinnu nemenda breyttist, þau voru miklu viljugri að miðla kunnáttu og aðstoða hvert annað. Þið kannski kannist við þetta. Ég held að sama verði uppá teningnum ef bekkir fá sameiginlega umsögn og ekki síst í sambandi við einelti, ef allir passa uppá sína félaga þá breytast viðhorfin. Ég hef heyrt að Hagaskólinn hafi tekið mjög vel á þeim málum og einelti sé þar í algjöru lágmarki.

 3. Það er akkurat þetta viðhorf sem ég fæ á tilfinninguna að kennarar barnanna minna hafa garnvart þeim í Barnaskóla Hjallastefnunnar. Og ég er mjög svo þakklát fyrir það. Skiptir öllu máli að börnunum líði vel, þau séu metin af verðleikum og allir séu jafnir. Þá blómstra þau, öll á sinn hátt.

 4. Frábær grein Nanna. Hef lengi verið upptekinn af þessu og í raun skil ég ekki af hverju þetta þarf að vera svona. Það hlýtur að vera frumskylda hvers einstaklings sem vinnur með börnum og ungmennum að styðja við væntingar þeirra til náms og virkni, hvetja þau áfram á
  grunni styrkleika og leiðbeina þeim til menntunar og þroska. Hef velt því fyrir mér í tengslum við brotthvarf úr framhaldsnámi, sem eins og
  allir vita byrjar oft í grunnskólanum, hversu erfitt það hlýtur að vera fyrir nemenda að fóta sig í flóknu samkeppnisumhverfi framhaldsskólans ef upphafsstaðan er lítið eða ekkert sjálfstraust varðandi nám og eigni getu. Vinnum með styrkleika hvers nemenda og fyllum þá af sjálfstrausti og trú á eigin getu.

 5. Bakvísun: Vinsælustu póstarnir 2013 | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s