Skipulag skóladags nemenda

kritÉg hitti konu í gær sem sagðist hafa heyrt viðtal við konu í útvarpinu sem sagði það mikinn lúxus að hafa flutt út á land, m.a. vegna þess að þar byrjaði skólinn ekki fyrr en klukkan 9:00 á morgnana. Eina vinkonu mína ræddi ég einnig við fyrir stuttu, sem lýsti fyrir mér skólastarfi  í Óðinsvé í Danmörku þar sem skóladagurinn er skipulagður með þarfir nemenda í huga og er bæði sveigjanlegur og brotinn upp á ýmsan hátt.

Í kjölfar þessa fór ég að hugsa um það hvers vegna við skipuleggjum skóladag nemenda eins og við gerum. hvers vegna hefjum við skóladag nemenda í einhverjum tilvikum kl 8:15 eða jafnvel fyrr og  troðum mestu af tómstundastarfi barna á seinnihluta dagsins?

Kæmi ekki til greina að byrja skóladaginn seinna? Þeir nemendur sem nauðsynlega þurfa að mæta snemma vegna atvinnu foreldra gætu  mögulega farið  í frístund  fyrst en mætingaskylda væri ekki fyrr en kl. 9:00 eða seinna. Það hlýtur að vera hægt að hugsa þetta upp á nýtt. Þó skólinn hafi þurft að byrja snemma þegar skólar voru tví- og þrísetnir þá er ekkert í skipulagi þeirra í dag sem kallar á það.  Það hafa aðrir bent á það að myrkrið hjá okkur er svo svart á dimmasta tíma að við ættum ekki að þurfa að rífa okkur upp eldsnemma, einungis til að koma börnunum í skólann. Er  þessi tími ekki að einhverju leyti leifar frá gömlum tíma?

Það að nemendur mæta seinna á morgnana  í kennslustundir  þýðir auðvitað að nemendur eru lengra fram á daginn við nám í skólanum.  Til að koma til móts við það mætti  slíta skóladag nemenda  reglulega í sundur til að reyna að lágmarka það að nemendur verði þreyttir þegar líður á daginn. Útivera, list- og tómstundaiðkun af ýmsu tagi brýtur upp dag nemenda og endurnýjar orku þeirra. Vinnudagur þeirra getur með þessu móti einnig orðið heilsteyptari. Þannig fyrirkomulag sá ég einmitt umfjöllun um frá Ísafirði þar sem verið er að gera tilraun til að setja tómstundastarf nemenda inn á milli í stundatöflu þeirra.  Í þeirri umfjöllun kom fram að kennarar og nemendur voru ánægðir með fyrirkomulagið.

Ég sé annan kost við það að flétta tómstundum og skólastarfi svona saman, hann er sá að ef frístundin og tómstundastarf nemenda er ekki allt í lok skóladags, heldur á undan og inn á milli, opnast glufur fyrir kennara til að sinna undirbúningi kennslu, starfsþróun og faglegu samstarfi við samstarfsfólk sitt um miðjan dag. Sú vinna fer, eins og við skipuleggjum skólana núna, að mestu leyti fram eftir fullan kennsludag hjá kennurum og þeir draga hana jafnvel fram á kvöld og til helganna. Nýtt fyrirkomulag kæmi kannski ekki alveg í veg fyrir það, alla vega ekki á mestu álagstímum í kennslu en   gæti aukið líkur á því að kennarar geti sinnt starfi sínu oftar á dagvinnutíma.

Með þessu fyrirkomulagi væri líka hægt að hugsa sér að samstarf skóla, frístundar, íþróttafélaga, tónlistaskóla og fleiri aðila sem sinna tómstundaiðkun barna og unglinga væri markvissara og skóladagur barna heildstæður og honum lokið að loknum vinnudegi foreldra.

Ég tel að  ef skipulag skólastarfs væri fyrst og fremst hugsað með hag nemenda fyrir brjósti en ekki undir áhrifum af gömlum vinnuvenjum, hefðum og siðum þá værum við löngu búin að breyta skipulaginu í þessa  veru, alla vega þar sem frístundaheimili taka við nemendum í lok skóladags.  Hvað haldið þið að komið í veg fyrir að það sé gert?

EK

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s