Barnasáttmálinn sem leiðarljós í skólum

schoolwork-4-files-1024x681 Í síðustu viku voru liðin 24 ár frá því  að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, eða Barnasáttmálinn eins og hann er oftast nefndur í daglegu tali, var  fullbúinn til undirritunar og fullgildingar. Þann 20. febrúar á þessu ári var hann lögfestur hér á landi.

Ég er ekki viss um að við skólafólk höfum almennt gert okkur fyllilega grein fyrir því hvað þessi sáttmáli getur verið okkur dýrmætt leiðarljós, enda tekur hann á öllu sem varðar velferð barna og er óumdeilanlegur. Það þýðir með öðrum orðum ekkert að setja sig upp á móti því sem þar kemur fram hvort sem við erum foreldrar, kennarar eða nemendur.

Sumstaðar hafa skólar gert Barnasáttmálann að kjarna starfs síns.  Sáttmálinn er eins og æðakerfi skólans, andi hans og inntak flæðir um í allt. Öll hugmyndafræði og allar reglur skólans byggja á lagagreinum sáttmálans. Skipulag kennslunnar tekur mið af honum og kennararnir vísa gjarnan til viðeigandi greina þegar þeir ræða við foreldra og nemendur. Það er jafn sjálfsagt fyrir nemendur að kunna helstu greinar sáttmálans eins og fyrir prest að kunna Faðirvorið.

Þessi samræmdu og óumdeilanlegu gildi um grunnþætti skólastarfsins skapa heildrænt yfirbragð og veita nemendunum, foreldrum og starfsfólki skólans vafalaust aukið öryggi. Í samfélagi sem einkennist af upplausn gamalla gilda og hefða, þar sem hugmyndir okkar um vel uppalið barn eru fjölmargar og stangast jafnvel á og börn fá misvísandi skilaboð frá umhverfinu held ég að það sé einmitt rík þörf fyrir það leiðarljós sem Barnasáttmálinn getur verið okkur. Í honum felast allar þær reglur sem skólinn þarf á að halda.

Í texta sáttmálans eru aðildarríkin ávörpuð en það má að sjálfsögðu líta sér nær og heimfæra textann upp á skólann. Við getum tekið sem dæmi 2. málsgrein 28. greinar þar sem segir:

Aðildarríki skulu gera allt það sem við á til að tryggja að námsaga sé haldið uppi með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og í samræmi við samning þennan.“

Hér má auðveldlega sjá skólann/kennarann sem fulltrúa aðildarríkisins. Það er lagaleg skylda hans að framfylgja þessari grein. Það getur verið áhugavert viðfangsefni fyrir skólasamfélagið að ræða inntak og markmið greinarinnar og skoða hlutverk og ábyrgð hvers og eins, túlka regluna á forsendum skólans og setja hana í viðeigandi orð og búning. Hér þurfa allir að eiga hlutdeild; skólaráðið, starfsmenn, nemendur og foreldrar. Á sama hátt má taka fyrir fjölmargar aðrar greinar sáttmálans m.a. þær sem fjalla um samskipti nemenda, réttinn til að menntast, virðingu fyrir fjölbreytileikanum, tjáningarfrelsi, ábyrgð foreldra, einelti og annað ofbeldi svo eitthvað sé nefnt.

Það hefur ýmislegt verið gert hér á landi til að vekja athygli á Barasáttmálanum síðustu árin og á heimasíðu hans er meðal annars að finna mjög áhugaverðar kennsluhugmyndir sem full ástæða er til að vekja athygli á. Þrátt fyrir þessa góðu vinnu hef ég fundið fyrir ákveðinni tregðu hjá sumum kennurum gagnvart efninu, hana grunar mig að megi að einhverju leyti rekja til myndarinnar sem prýðir veggspjaldið með Barnasáttmálanum sem dreift hefur verið í grunnskóla landsins. Það má sjá hóp barna berjandi trommur og með kröfuspjöld á lofti, það er ekki laust við að maður heyri þau hrópa; „vanhæf ríkisstjórn, vanhæf ríkisstjórn“. Það kæmi því ekki á óvart þó að einhver börn túlki plakatið sem einhverskonar áskorun um mótmæli eða jafnvel uppreisn og þá hlýtur maður að spyrja; gegn hverjum, skólanum kannski?

Auðvitað er þetta alls ekki ætlunin með veggspjaldinu og eins og flestir vita snúast réttindi ekki aðeins um „mín“ réttindi, það er ekki síður mikilvægt að ég læri líka að taka tillit til réttinda hinna. Þannig fylgja réttindunum mínum einnig skyldur. Nemendur í skóla, sem ég þekki til og hefur gert Barnasáttmálann að sínum, eru t.d. fullkomlega meðvitaðir um að þeir hafa rétt til að læra í friði, en þeir vita líka að það sama gildir um alla hina nemendurna. Það er því skylda þeirra að virða þann rétt.

Ég held að mörg og góð tækifæri liggi í vinnu með Barnasáttmálann í skólum og ég sé ekki betur en  andi hans falli einkar vel að áherslum nýrrar aðalnámskrár og að grunnþáttum menntunar, en það er líklega ekki tilviljun.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s