Bestu kennararnir fái hæstu launin

f3hf3Tvehq_x7MUQJQwjNkEOei8wZyDi2qp4I-vVMDQNú er rætt um það í fullri alvöru í Bretlandi að bestu kennararnir eigi að fá hærri laun en hinir og sýnist sitt hverjum. Tillaga þessa efnis verður sett fram í haust og nái hún fram að ganga verður launakerfi kennara þar í landi væntanlega tekið til gagngerrar endurskoðunar. Tillagan um árangurstengd laun mun að mati þeirra sem standa að henni gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og meira gefandi.  Þar að auki munu skólar fá meiri sveigjanleika til að bregðast við sérstökum aðstæðum og til að umbuna bestu kennurunum. Nánar má lesa um þetta í  Getting to Grips with Performance Related Pay

Mér er kunnugt um að nokkur umræða hafi einnig verið um það í Svíþjóð að árangurstengja laun kennara en veit ekki hvar hún er stödd þessa dagana eða hvaða hljómgrunn hún hefur fengið.

Við þessa umræðu rifjast upp erindi Peter Gerlach fulltrúa McKinsey, sem hann flutti á Öskudagsráðstefnunni 2012,  en hann benti á mikilvægi þess að kennarar hefðu hvata til að vinna sig upp í starfi.  Framgangur kennara ætti, samkvæmt skýrslu McKinsey, að vera meiri og gegnsærri, kennarar þyrftu að eiga þess kost að vinna sig upp í  ábyrgðarstöður eins og t.d. með því að taka að sér handleiðslu með öðrum kennurum og skipulagningu teymisvinnu. Þessari auknu ábyrgð þyrftu að fylgja hærri laun. Umfjöllun um erindi Gerlach birtist hér í Krítinni 

Góður fiðluleikari er ekki endilega góður básúnuleikari

Hvaða möguleika hafa kennarar á því að vinna sig upp í launum innan íslenska skólans? Jú, það er fátt annað en að fara í framhaldsnám eða verða skólastjórnandi. Eftir fjármálahrunið dró verulega úr framboði á störfum millistjórnenda og margir kennarar kjósa fremur að vera í kennslu en að sinna stjórnun. Enda má spyrja sig að því hvort það fari alltaf saman að vera góður kennari og góður skólastjórnandi. Eða eins og einhver sagði þá er ekki sjálfgefið að góður fiðluleikari  verði  líka góður básúnuleikari.

Svo er það einfaldasta leiðin til hækka laun sín, nefnilega sú að eldast. Margir kennarar starfa áratugum saman við kennslu, stunda reglulega símenntun, fylgjast vel með í umræðum um skólamál, ígrunda starf sitt skipuleg, sýna nemendum sínum takmarkalausa umhyggju, hafa miklar væntingar til þeirra og eru óþreytandi í að finna leiðir sem hæfa ólíkum þörfum þeirra, eru hugmyndaríkir í kennsluháttum, eyða drjúgum tíma í undirbúning og úrvinnslu, skapa góðan bekkjarbrag, eru í góðu og virku samstarfi við foreldra og taka þátt í þróunarstarfi.  Þeir eru með öðrum orðum kennarar af lífi og sál. Svona kennarar eins og við viljum fá fyrir börnin okkar og barnabörn. Þessir kennarar hafa sömu laun og starfsfélagar þeirra og jafnaldrar sem hafa jafnvel takmarkaðan áhuga á starfinu og hafa þess vegna aldrei sýnt sérstakan metnað. Þetta vita allir sem þekkja starf grunnskólans en ég minnist þess ekki að hafa heyrt neina alvöru umræður um að þetta sé óréttlátt og þurfi að endurskoðast.

Eftir því sem þróun mats á gæðum skólastarfs vindur fram aukast líkurnar á því að það verði hægt að greina formlega á milli góðra kennara og hinna.  En er sjálfgefið að við kjósum að umbuna þeim kennurum sérstaklega með hærri launum sem sinna starfi sínu af mikilli alúð og fagmennsku og ná frábærum árangri ár eftir ár?  Svari hver fyrir sig.

Peningar og árangur

Eftir að hafa horft á þetta myndband er ég ekki svo sannfærð um að kennarar verði endilega betri í starfi með því að árangurstengja laun þeirra. Þetta áhugaverða og skemmtilega myndband sýnir nefnilega að þegar ákveðnu lágmarki er náð þá er til mikilvægari umbun en peningar. Þar má nefna tækifæri til að hafa áhrif, að finna að maður nýtur trausts og sjálfstæðis í starfi svo eitthvað sé nefnt. Ef marka má myndbandið þá getur áherslan á árangurstengingu launa einstaklinga hreint og beint virkað öfugt. Eins og kunnugt er hefur þetta fyrirkomulag tíðkast í sumum stéttum en árangurinn svo sannarlega ekki alltaf verið gæfulegur þegar virðist sem persónuleg græðgi verði málefninu yfirsterkari (kennarar munu nú líklega seint hafa möguleika á að falla í þá gryfju). Má ég þá heldur biðja um tillögur McKinsey um framgang í starfi.

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig umræðan um árangurstengingu launa kennara og framgang í starfi þróast á næstunni.

NKC

One response to “Bestu kennararnir fái hæstu launin

  1. Takk fyrir frábæra samantekt Nanna. Athyglisvert að heyra af þessu. Það kemur reyndar ekki á óvart að það séu Bretar og Svíar sem eru að velta þessu fyrir sér, í þessum löndum virðist mér hugmyndir um „accountability“ hafa gengið lengst í Evrópu.
    Hef ekki velt þessu málefni sérstaklega fyrir mér en veit að þetta hefur talsvert verið prófað vestanhafs. Linda Darling-Hammond fjallaði um þetta í erindi sínu í HÍ síðasta vetur og sagði einfaldlega búið að sýna fram á að þetta virkaði ekki! Frábært erindi, man ekki nákvæmlega hvar í erindinu hún minntist á þetta: http://aldarafmaeli.hi.is/myndbond/dr_linda_darling_hammond_lecture

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s