Hvað segir McKinsey um íslenskt skólakerfi?

Mér virðist sem þróun kennarastarfsins hafi of lengi vel verið í höndum annarra fagstétta en kennarastéttarinnar, fyrst voru það prestarnir sem lögðu línuna og síðan sálfræðingar. Sem dæmi má nefna að fyrstu skólastjórar kennaraskólans voru prestar. Þegar ég var við nám í skólanum á 7. áratuginum stýrði Broddi Jóhannesson sálfræðingur skólanum og aðrir sálfræðingar fylgdu í hans spor. Þótt undarlegt megir virðast held ég að Ólafur Proppé hafi verið fyrsti grunnskólakennarinn og menntunarfræðingurinn sem stýrði Kennaraskólanum, sem þá var orðinn Kennaraháskóli. Ég held líka að stór hluti kennara við Menntavísindasvið HÍ sé ekki kennaramenntaður. Ég ætla ekki að dæma um hvort það er kostur eða ekki en ég á erfitt með að sjá fyrir mér að þróun annarra fagstétta væri í jafn ríkum mæli í höndum annarra stétta.

Þetta er ekki síst umhugsunarvert í ljósi þess sem Peter Gerlach sérfræðingur McKinsey og Company sagði í erindi sínu á síðustu Öskudagsráðstefnu skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Eftir að hafa rýnt í niðurstöður McKinsey skýrslunnar How the worlds most improved school systems keep getting  better  og fleiri tölfræðigögn um íslenska skólakerfið upplýsti hann að gögnin bentu til þess að  sóknarfæri íslenska skólakerfisins fælust í eflingu fagmennsku kennara. Það á reyndar við um fleiri skólakerfi.

Eitt af því sem Peter nefndi í þessu sambandi var að þróun kennarastarfsins þyrfti að vera meiri og gegnsærri, kennarar þyrftu að eiga þess kost að vinna sig upp í  ábyrgðarstöður eins og t.d. með því að taka að sér handleiðslu með öðrum kennurum og skipulagningu teymisvinnu. Aukinni ábyrgð þurfa að fylgja hærri laun.

Einnig benti hann á að ekki ætti eingöngu að nota tölfræðilegar upplýsingar t.d. úr samræmdum prófum til að greina stöðu nemenda. Það þurfi ekki síður að nota gögnin til að finna þá kennara sem ná bestum árangri jafnvel ár eftir ár, greina kennsluaðferðir þeirra svo aðrir kennarar geti lært af þeim.  Allir sem til þekkja vita að víða eru að störfum afburða kennarar sem ná einstökum árangri. Í fæstum tilvikum nær færni þeirra og reynsla að dreifast til annarra kennara og þegar þeir svo láta af störfum hverfur þekking þeirra meira og minna með þeim. Líkt og almennt á við á um  fagstéttir þurfa uppgötvanir, reynsla og þekking einstaklinganna að breiðast út til stéttarinnar a.m.k. til vinnufélaga þeirra í stað þess að einangrast og hverfa.

Það ætti einnig að vera umfangsmikill þáttur í starfi skólastjóra, fullyrti Peter,  að fylgjast með kennslustundum og veita kennurum handleiðslu í samræmi við þau þróunarmarkmið sem skólinn vinnur að. Jafningjastuðningur og „lesson studys“ ættu líka að vera sjálfsagður hluti kennarastarfsins.

Peter benti á að kennarar þyrftu að vinna skipulega saman að undirbúningi kennslustunda og þróun fagmennsku kennara ætti að vera samofinn teymisvinnu. Teymin ættu stöðugt að leita svara við þeim spurningum hvaða kennsluaðferðum ætti að beita hverju sinni og hvers vegna.

Á ráðstefnunni sagði Peter frá sænsku þróunarverkefni sem miðar að því að þróa teymisstarf kennara í þeim tilgangi að auka gæði skólakerfisins. Teymin funda vikulega og skipuleggja saman eina kennslustund. Mat á stöðu nemendanna er alltarf grunnurinn að kennsluáætluninni. Allir kennararnir fara með sömu kennsluáætlunina inn í sinn bekk.  Á næsta fundi teymisins deila kennararnir reynslu sinni úr kennslustundinni, greina í sameiningu það sem  gekk vel og hvað hefði mátt betur fara. Á grundvelli sameiginlegrar reynslu sinnar útbýr teymið saman kennsluáætlun fyrir afburða kennslustundi í viðkomandi viðfangsefni. Þegar hin endanlega kennsluáætlun er fullunninn fá aðrir kennarar aðgang að henni.

Í stuttu máli eru það kennararnir sjálfir sem hafa bestar forsendur til að þróa  íslenskt skólakerfi. Til að árangurinn verði sem bestur ættu þeir í auknum mæli að vinna markvisst saman, deila þekkingu sinni og reynslu, læra hver af öðrum og þróa þá kennsluhætti sem skilar bestum árangri fyrir íslenskt skólakerfi.

NKC

One response to “Hvað segir McKinsey um íslenskt skólakerfi?

  1. Bakvísun: Bestu kennararnir fái hæstu launin | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s