Kennari marsmánaðar er seint á ferðinni
Nafn
Ásdís Hallgrímsdóttir
Menntun
Leikskólakennari, grunnskólakennari, Dipl.Ed í uppeldis- og menntunarfræðum og Dipl. Ed í menntun tvítyngdra barna
Skólinn sem ég kenni við
Bekkur
2. bekkur
Síðasta símenntunarnámið sem ég sótti
Byrjendalæsi
Hvaða þrjú atriði í kennsluháttum mínum hafa haft mest áhrif á árangur nemenda minna
Allir eru öðruvísi, enginn er eins
að reyna að gera okkur þannig
er ekki til neins.
Höf. Erna Sveins.
Þessi orð finnst mér eiga vel við þegar þegar talað er um það skólasamfélag sem við vinnum í í dag. Það samfélag er öðruvísi saman sett en skólasamfélög voru fyrir nokkrum árum. Þessi breyting hefur kallað á breytt vinnulag innan kennslustofunnar. Ég á því láni að fagna að hafa gaman af þessari breytingu og fagna þeirri áskorun sem er fólgin í þessari fjölbreyttu samsetningu nemendahópsins. Þegar ég ætla að nefna eitthvað þrennt sem mér finnst hafa virkað vel við að mæta þessum fjölbreytileika langar mig til að nefna eftirfarandi.
Fyrst vil ég nefna kenningar Debbie Diller sem ég kynntist í Houston fyrir nokkrum árum. Debbie er bæði reyndur kennari og mikill fræðimaður og hún og hennar hugmyndafræði um hagnýt vinnubrögð hafa haft mikil áhrif á mína kennsluhætti. Þetta er hagnýt vinnutilhögun þar sem innlögn er markviss og nemendur æfa síðan það sem þeir hafa lært í litlum blönduðum vinnuhópum. Þessi vinnubrögð falla vel að verkefnum Byrjendalæsis.
Síðan er það PALS en það er lestrarþjálfunaraðferð sem byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna í 35 mínútur í senn, þrisvar sinnum í viku. PALS var þróað í Peabody Collage við Vanderbilt University í Tennessee-fylki í Bandaríkjunum. Nemendur vinna saman í pörum og aðstoða hvern annan eftir alveg ákveðnum reglum og nota stigakerfi sem hvatningu. Þessi lestrarþjálfunaraðferð er algjör snilld sem svínvirkar og hefur rannsóknir á bak við sig sem sýna það. Það gleður gamalt kennarahjarta að sjá allan nemendahópinn niðursokkinn í lestur, endursögn, að draga saman efnisgreinar, gera forspá og leiðrétta hvort annað. Aðferðin er þannig að mögulegt er að þjálfa alla nemendur árgangsins í einu. Þetta er eitt af því sem hefur aukið ánægju mína í kennslu og haft áhrif á árangur nemenda minna.
Fyrir þá nemendur sem þurfa aukastuðning í grunnfærni lesturs þá hef ég notað námsefnið hennar Helgu Sigurjónsdóttur.
Síðast en ekki síst er það að „ stoppa í mínútu“ áður en gengið er til verka. það þarf ekki allt að vera flókið svo það virki. Það að stoppa í mínútu í byrjun hverrar kennslustundar er ótrúlega áhrifaríkt. Nemendur leggja allt frá sér og „stoppa í mínútu“ það er mikil munur á vinnusemi og vinnufrið þegar kennslustund byrjar á því að stoppa hugann. Hugmyndin er fengin frá fyrirlesara sem kom hingað frá USA á öskudagsráðstefnu.
Hverju er ég stoltust af í starfinu mínu
Undanfarin ár hef ég verið þátttakandi í að móta vinnuumhverfi og móta vinnulag sem við teljum að henti vel í skóla fjölbreytileikans. Við höfum lagt áherslu á samábyrgð kennara á öllum árganginum. Kennarar skipta með sér verkum þannig að allir nemendur fái sömu kennslu. þetta minnkar álag og streitu kennara, öryggisnet barnanna verður stærra og allur undirbúningur verður markviss og léttari. Ég er líka mjög ánægð með að hafa fengið að vera þátttakandi í að kynna PALS lestrarþjálfunaraðferðina sérstaklega þar sem ég er oft að fá fréttir af góðum árangri í þeim skólum þar sem PALS er notað.
Hvaða markmið set ég mér í þróun starfs míns
Mitt markmið er að vera vakandi fyrir nýjungum og auka þekkingu mína og færni.
Næsta verkefni er að prufukenna PALS í stærðfræði það er spennandi áskorun sem ég er viss um að verður jafn spennandi og PALS lestrarþjálfunin.
Mjög athyglisvert. Hefði áhuga á að heyra meira um PALS.
Kveðja, Ásta Lárusdóttir