Í tilefni páska langar mig að deila með ykkur sögu úr skólastofunni sem gerðist fyrir nokkuð mörgum árum. Ég man ekki hvort þetta gerðist hjá nemenda sem var í mínum umsjónarbekk eða einhverjum öðrum sem var með mér á svæði eins og við kölluðum það. En skipulagið var þannig að við unnum saman með nemendur í tveimur árgöngum, skipulögðum vinnu þeirra saman og nemendur dreifðust á nokkrar stofur í tímum eftir því hvaða viðfangsefni þeir völdu sér að vinna að. Við kennararnir sinntum því mun fleiri nemendum en bara þeim sem voru í okkar umsjónarbekk. Þetta var gott fyrirkomulag og dreifði ábyrgð og vinnuálagi á kennara og jók sjálfstæði nemenda og þeir fengu tækifæri til að vinna með og kynnast fleirum en einni lokaðri einingu sem bekkir geta stundum verið. Samvinna kennaranna ýtti líka undir fjölbreytni verkefna og faglega umræðu um þau og skólastarfið yfirleitt.
Þegar sagan gerist voru nemendur í fyrsta og öðrum bekk að búa til páskabækur. Þetta voru svokallaðar harmonikkubækur með fjórum myndum, einni fyrir pálmasunnudag, einni fyrir skírdag, einni fyrir fösudaginn langa og sú fjórða átti að vera lýsandi fyrir páskadag. Við kennararnir sögðum nemendum helstu staðreyndir sem sagt er frá í nýja testamentinu að hafi gerst þessa daga og nemendur áttu síðan að teikna og lita og klippa út og líma inn í bókina sína það sem þeim fannst merkilegast á hverjum degi fyrir sig. Við skiptum vinnunni á fjóra tíma svo nemendur fengu góðan tíma til að melta sögurnar og vinna hverja mynd .
Þegar kom að því að nemendur voru að vinna fjórðu myndina, frá páskadegi, gekk kennarinn á milli borða hjá nemendum til að skoða verk þeirra og spjalla um þau eins og er algengur háttur kennara. Á einu borði fannst kennaranum sem einn nemandinn tæki vinnuna ekki alvarlega því hann var búinn að teikna, klippa og líma, stóra, vel teiknaða, gula gröfu inn í bókina sína. Í stað þess að skamma nemandann ákvað kennarinn að spyrja hann að því hvers vegna hann hefði teiknað gröfuna. Nemandinn svaraði alveg einlægur „ af því þú sagðir að konurnar hefðu farið að gá að jesú í gröfunni“.
Lærdómurinn af þessari sögu getur t.d. verið sá að þó við útskýrum hluti vel að okkar mati þá eru alltaf einhverjir nemendur sem misskilja það sem sagt er og það þurfa kennarar alltaf að hafa í huga áður en þeir draga ályktanir um að nemendur séu að ögra þeim og reyna að vera dónalegir.
Gleðilega páska
EK