Viðmið

Fátt hefur breytt hugmyndum mínum um kennslu jafn mikið og þegar ég kynntist kennsluháttum þar sem viðmið í námi voru höfð að leiðarljósi.  Nemendurnir unnu ekki aðeins að ákveðnum makmiðum heldur vissu þeir líka hvort og hvernær þeir náðu markmiðum sínu og hvað þeir þyrftu að gera til að ná betri árangri. Þannig var nemendunum gert kleift að taka aukna ábyrgð á námi sínu og þeir gerðu það. Það var með öðrum orðum ekki einkamál kennarans hver markmið námsins voru eða hvað væri til marks um að nemendur næðu markmiðum kennslustundarinnar.

Með því að hafa viðmið í náminu fá nemendur einskonar vörður til að feta sig eftir í átt að hinu endanlega markmiði, hvort sem stefnt er að því í viðkomandi kennslustund eða á lengri tíma. Þannig kennslustundir hefjast á því að kennarinn úrskýrir markmið hennar.  Dæmi um slíkt er þegar kennarinn segir; í þessari kennslustund eigið þið að læra um sagnorð, þegar kennslustundinni lýkur eigið þið að geta útskýrt muninn á nafnorði og sagnorði og leikið og skrifað fimm setningar þar sem sagnorð koma fyrir (viðmiðin).

Dæmi eru um að drengir, ekki síður en stúlkur, nái betri árangri í skólum þar sem kennslan byggir á skýrum viðmiðum. Þeir sem vel þekkja til hafa bent mér á að þetta sé einmitt hugmyndin að baki tölvuleikja, spilararnir stefna alltaf að ákveðnum markmiðum, hafa viðmið og fá jafnóðum skýr skilaboð um árangur sinn.  Þetta virðist heilla marga drengi og hvers vegna ætti skólinn ekki að notfæra sér þessa þekkingu?

Nemendur sem hafa viðmið til leiðsagnar, sem eru að sjálfsögðu einstaklingsbundin, þekkja einnig markmið og viðmið námsgreina á önninni/skólaárinu  og þegar þeir eru spurðir hvernig þeim gangi í tilteknum námsgreinum geta þeir svarað því með rökum t.d. mér gengur vel í stærðfræði af því ég hef náð öllum markmiðum mínum þar en í íslensku á ég eftir að vinna betur með orðflokkana til að þekkja muninn á lýsingarorðum og nafnorðum.

Því miður tel ég það vera of algengt að nemendur hafi ekki önnur viðmið en fjölda blaðsíðna og bóka þeir telja að þeim gangi vel ef þeir afkasta miklu en inntak námsins getur verið óljóst. Þegar  nemendur segjast jafnvel ekki vita hvernig þeim gengur í ákveðnum námsgreinum er það vísbending um að þeir hafi lítil tækifæri til að bera ábyrgð á námi sínu og því er veik von um framfarir.

Hugsum okkur kennara sem segir nemendum sínum að fara út að hlaupa í 15 mínútur (veit að það myndi enginn gera það). Það má segja að markmið kennslustundarinnar séu skýr, það á að hlaupa í 15 mínútur en þegar nemendurnir fá engin viðmið hvernig geta þeir þá vitað til hvers er nákvæmlega ætlast eða hvort þeim gengur vel?  Ef kennarinn segir aftur á móti að nemendurnir eigi að hlaupa þrjá hringi umhverfis skólalóðina á innan við 15 mínútum er hann búinn að gefa þeim viðmið. Þeir hafa að skýru marki að stefna og geta sjálfir metið hvernig þeim vegnar. Ef kennarinn hefur nú hugsað sér að gefa nemendum sínum einkunn fyrir hlaupin væri það í hæsta máta ósanngjarnt að hafa ekki áður gefið nemendunum upp þau viðmið sem árangur þeirra verður metinn eftir.

Mikil áhersla er lögð á leiðsagnarmat í nýju aðalnámskránni en það er nátengt viðmiðum. Þegar kennari notar leiðsagnarmat tekur hann mið af þeim viðmiðum sem hann hefur  gefið. Hafi markmið kennslustundarinnar verið að æfa stafrófið og viðmiðin verið þau að skrifa lista með heitum 10 Evrópulanda í starfrófsröð miðast leiðsögnin og endurgjöfin við það. Kennarinn bendir nemanda á ef stafrófsröðin er ekki rétt og rifjar upp starfrófið með honum og hrósar öðrum fyrir að muna að þegar tvö lönd byrja á sama bókstaf þá er það annar bókstafurinn sem ræður hver röðin er og enn öðrum fyrir að vera fljótur að muna strax eftir 5 Evrópulöndum. Hann álasar aftur á móti ekki nemanda fyrir að skrifa ekki nægilega fallega (var ekki viðmið) og hrósar ekki nemanda fyrir að vera duglegur án þess að útskýra hvers vegna þ.e. hvaða viðmiðum hann hefur náð.

Sú áhersla sem er lögð á viðmið í nýrri aðalnámskrá er fagnaðarefni og ég vona að hún verði til þess að nám verði gert áhugaverðara og merkingarbærara í hugum nemendanna en ekki síst til þess að skapa þeim tækifæri til að auknar ábyrgðar á námi sínu.

NKC

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s