Illa launuð hugsjónastétt kvenna

Um daginn hitti ég á förnum vegi gamla skólasystur úr Kennaraskólanum. Það eru orðnir áratugir frá því við hittumst síðast og því  um margt að ræða. Eitt af því sem bar á góma var að  öfugt við mig gerði hún kennsluna ekki að ævistarfi. Hún var reyndar við kennslu í fáein ár og fannst það mjög skemmtilegt, en hún ákvað samt að vera ekki kennari. Æ, sagði hún, mig langaði bara ekki til að tilheyra illa launaðri hugsjónastétt kvenna.

Það er ekki eins og þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég heyri efasemdir um virðingu kennarastéttarinnar. En alltaf skal það valda mér jafn miklu hugarangri. Ekki síst vegna þess að ein mikilvægasta forsendan fyrir velgengni barna í skólanum er sú að foreldrar þeirra og samfélagið í heild sinni beri virðingu fyrir því starfi sem þar fer fram.

Fyrir nokkrum árum heyrði ég fullorðna kennslukonu ræða um virðingarleysið fyrir kennarastarfinu um leið og hún rifjaði upp fyrri tíð. Þá, sagði hún, voru kennarar menn með mönnum sem allir báru virðingu fyrir enda höfðu þeir sömu laun og alþingismenn. Eru þá há laun nauðsynleg forsenda virðingar?   Sennilega munu fáir mótmæla því að miðað við menntun og ábyrgð kennara eru  laun þeirra allt of lág. En er víst að virðingin myndi sjálfkrafa aukast þó launin yrðu hækkuð? Og hvað þarf þá að hækka þau um mörg prósent?  Erum við að tala um 8,5 %  eða kannski 25%?

Hvað þá með hugsjónina sem fyrrum skólasystir mín benti á, er það hugsjónin sem veldur því hvernig komið er fyrir virðingu kennara? Er það virðingu stétta almennt til trafala að brenna af ástríðu fyrir starfi sínu og telja árangurinn ekki síður skipta máli en launin? Á það t.d. við um skáld, fræðimenn, rithöfunda og listmálara?

Er það þá kynferði kennara sem skýrir skort á virðingu stéttarinnar?  Það hafa margir haldið því fram að þegar konum fjölgi  í tilteknum stéttum dragi úr launum þeirra og virðingu. Fyrrum skólasystir mín gerðist flugfreyja, eftir að hún sneri baki við kennarastarfinu,  þar naut hún hærri launa og meiri virðingar. Þegar ég ferðast með flugvélum er kvenfólk yfirleitt í meirihluta þeirra sem þjóna mér og öðrum farþegum, svo hvernig gengur þessi kenning upp?

Auðveldlega má nefna fleiri atriði sem hugsanlega skýringu á ófullnægjandi virðingu kennara, s.s. vinnutíma þeirra og þá staðreynd að uppeldisstörf hafa öldum saman verið ólaunuð kvennastörf, en ég læt þetta gott heita. Líklega er skýringin ekki einföld heldur margbrotin og flókin.

Kanadamenn gerðu sér ljóst, þegar þeir voru að endurskipuleggja skólakerfið sitt, að virðing fyrir kennarastarfinu og árangur nemenda haldast í hendur. Eins og kunnugt er þá eru kanadískir skólar nú meðal þeirra bestu í heiminum. Kennarastarfið nýtur mikillar virðingar og kennarar eru vel launaðir, miðað við opinbera starfsmenn. Í heimsókn okkar vinnufélaganna til Ontario í fyrra var okkur sagt að þar fengju aðeins þeir færustu störf við kennslu. Eingöngu þeir sem koma úr efsta þriðjungi útskrifaðra háskólanema fá inngöngu í kennaranám sem er á meistarastigi. Eftir að námi lýkur er algengt að kennarar fari á milli skóla sem forfallakennarar í þrjú ár áður en þeir fá fastar stöður. Rík áhersla er lögð á símenntun sem kennararnir greiða sjálfir fyrir.  Fagfélag kennara setur staðla fyrir stéttina og metur gæði starfandi kennara en matið er gert opinbert. Hér má lesa meira um það

Hvort sem við lítum til Kanada eða annað er afar brýnt að við gerum okkur ljóst hversu dýrmætir góðir kennarar eru. Það verður að skapa sterka og jákvæða ímynd um kennarastéttina og tryggja að allir nemendur hafi bestu kennara sem völ er á.

Hér má lesa meira um það

NKC

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s