Þeir sem vinna með börnum þurfa að geta sett þeim og sjálfum sér meðvituð og markviss mörk í samskiptum Kennarar og annað starfsfólk í skólum getur gert þær kröfur til fullorðinna samstarfsaðila sinna að þeir sýni þeim ávallt virðingu og sanngirni. Börn hafa hins vegar ekki náð fullum þroska og því er ekki hægt að gera sömu kröfur til þeirra og fullorðinna.
Því eru það þeir fullorðnu sem bera höfuðábyrgð á samskiptum í skólum og þeir þurfa að gera allt sem til þarf svo samskipti í skólum séu góð og þeir fullorðnu bera ábyrgð á því að bæta samskipti þegar eitthvað fer miður.
Þeir fullorðnu setja rammana ( stundum í samstarfi við nemendur) og leiðbeina nemendum varðandi umgengni og samskipti. Þó svo nemendur og fullorðnir séu með svipaðar væntingar um hegðun í samskiptum þá eru kröfurnar sem þeir fullorðnu geta gert til nemenda ekki sambærilegar við þær kröfur sem nemendur geta gert til hinna fullorðnu. Hinir fullorðnu eru fyrirmyndir nemenda og þeirra er að leiðbeina þeim um það sem ætlast er til af þeim og einnig kenna þeim það sem til er ætlast. Börn koma misjafnlega uppalin í skólann alveg eins og þau koma misjafnlega í stakk búin að takast á við námið. Þau þurfa því mismikla aðstoð varðandi umgengni og samskipti við aðra. Þær aðferðir sem notaðar eru við að kenna nemendum að fara eftir samskipta- og agareglum þurfa að mínu mati alltaf að vera uppbyggilegar fyrir nemendur. Þess vegna finnst mér áhugaverð hugmynd sem ég heyrði af einu sinni að hafa aðeins eina reglu í skólastofunni, sú regla væri þá nokkurn veginn svona:
Í þessari kennslustofu er allt leyfilegt, svo fremi sem það skaðar ekki aðra.
Með því að hafa aðeins þessa einu reglu í gildi gefast mörg tækifæri til samræðu um það hvort ákveðin hegðun er innan marka og í þeirri samræðu læra nemendur margt hvert um annað og um viðbrögð sem hegðun þeirra vekur með öðrum. Í gegnum þannig samræðu getur þroskast já nemendum tillitssemi og samkennd. Í erli daganna er hins vegar hætt við því að þetta þyki of mikið vesen og mikilvægara talið að vera með afgerandi reglur sem öllum er skylt að fylgja. Í einum skóla í Bandaríkjunum taldi starfsfólk sig loksins vera búið að dekka allt í sínum reglum þegar upp kom að þau þurftu að bæta við reglu númer 346 , sem hljóðaði svona:
Strákar mega ekki lemja stelpur í hausinn með fiski.
Ég hef ekki trú á að við verðum nokkurn tímann búin að dekka allt hvað varðar það að kenna nemendum um samskipti og umgengni við aðra, það er verkefni sem alltaf verður í brennidepli og mikilvægt að vanda til verka.
Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að börn læra ekki síður af því sem þau sjá hina fullorðnu gera en því sem þeim er sagt. Þess vegna skiptir svo miklu máli hvernig komið er fram við þau í hvert sinn sem samskipti eiga sér stað.
Hægt er að taka dæmi af því þegar nemendur ögra hinum fullorðnu, en þá er mikilvægt að hinn fullorðni geti nýtt sér umhugsunartímann sem hann býr yfir, milli áreitis og viðbragða. Þannig verða viðbrögð þess fullorðna yfirveguð og geta nýst nemendum sem lærdómur um rétta hegðun. Þeir fullorðnu þurfa að byggja markvisst upp sínar eigin varnir svo þeir gefi ögrandi nemendum ekki vald yfir tilfinningum sínum. Þeir sem ögra manni vita stundum hvað þeir eru að gera og mikilvægt er að varast að láta draga sig niður á plan þess sem er að reyna að ergja eða ergir mann óvart. Fullorðinn aðili sem missir stjórn á sér og segir ljóta hluti við nemendur er ekki sú fyrirmynd sem nemendur þarfnast. Kennarar og aðrir starfsmenn skóla þurfa því að vera sérlega sterkir á sviði sjálfsstjórnar því ábyrgð þeirra er mikil. Með réttum eða röngum viðbrögðum á ögurstundum geta kennarar haft áhrif til góðs eða ills inn í framtíð nemenda.
EK