Til varnar íhaldssemi í menntamálum

profinnRitstjórar Krítarinnar fengu leyfi Atla Harðarsonar að birta þessa grein:

Þeir sem tjá sig um skólamál virðast margir gera ráð fyrir að tilgangur framhaldsskóla og háskóla sé að þjóna atvinnulífinu. Þessari nýstárlegu menntastefnu fylgja æði oft hugmyndir í þá veru að:

  1. Þeir sem hafa meiri skólagöngu eigi að hafa forgang að störfum og hærri laun.
  2. Menntun sé eftirsóknarverð vegna þess að hún auki tekjur manna eða bæti samkeppnisstöðu þeirra á vinnumarkaði.
  3. Í skólum eigi menn einkum að læra það sem gagnast í vinnu.

Því síðasttalda tengist stundum trú á að hægt sé að læra til flestra eða allra starfa í skóla og heppilegt sé að fyrir sem flest störf séu til námsbrautir sem búa menn undir að vinna þau.

Þessar skoðanir eru vitaskuld ekki algerlega úr lausu lofti gripnar. Það eru sannleikskorn í þeim. Þær eru þó, eins og ýmis annar hálfsannleikur, varhugaverðar ef þær eru teknar of bókstaflega og taldar segja síðasta orðið.

Fjaðrir páfuglsins og hálfsannleikur númer eitt

Lítum fyrst á þá skoðun sem talin er í lið númer eitt. Áhersla á að lengri skólaganga tryggi betri laun og forgang í störf helst í hendur við vaxandi sókn í hærri og hærri prófgráður og stöðugt gengisfall þessara sömu prófgráða. Einu sinni voru kennarar í grunnskólum, sem þá voru kallaðir barnaskólar, með menntun á framhaldsskólastigi. Árið 1971 var nám þeirra fært á háskólastig og farið fram á bachelorsgráðu til að verða kennari. Lög um menntun og ráðningu kennara frá 2008 krefjast þess að kennarar hafi fimm ára háskólanám sem endar með mastersgráðu. Svipaða sögu má segja um margar aðrar stéttir. Það er til dæmis ekkert langt síðan fjölmörg störf sem nú krefjast menntunar í viðskiptafræði á háskólastigi voru unnin af fólki með próf úr Samvinnuskólanum eða Verzlunarskólanum.

Skýringin á þessum kröfum um hærri prófgráður er vafalaust að nokkru leyti að nú er þörf á meiri þekkingu og kunnáttu í sumum starfsgreinum. En mér sýnist næsta ljóst að þetta sé aðeins hluti af skýringunni. Hinn hlutinn held ég sé að skólakerfi sem flokkar menn inn á vinnumarkað eftir lengd náms eggjar þá í kapphlaup þar sem hver og einn reynir að ná hærri gráðu en hinir. En þótt hlaupararnir hafi sig alla við er vafamál að kappið bæti neitt kjör þeirra. Stundum sýnist mér raunar að hærri og hærri gráður, sem menn hafa meira og meira fyrir, séu svolítið eins og stélið á páfuglinum. Karlfuglar af þeirri tegund hafa sem kunnugt er ógnarstórt fjaðraskraut. Það íþyngir þeim á ýmsa vegu. Þeir komast ekkert áfram með þetta hlass hangandi aftan í sér. Allt er þetta vegna þess að einhvern tíma fyrir löngu forritaði náttúruvalið formæður páfuglsins þannig að þær völdu maka eftir því hve fagurlega hann breiddi úr stélinu. Þetta var á vissan hátt viturleg skipan, ella hefði náttúran sjálfsagt útrýmt henni. Karlfugl sem getur breitt úr stélinu og haldið því fallega samhverfu í góða stund er þokkalega sterkbyggður svo kvenfuglarnir tryggðu ungum sínum hrausta feður með þessari einföldu reglu um makaval: Taktu þann með stærsta samhverfa og velútbreidda blævænginn. En það sem er viturlegt fyrir einstakling hér og nú þarf ekki að þjóna langtímahagsmunum tegundarinnar. Ef karlfuglar eignast ekki afkvæmi nema þeir hafi stærra stél en nágrannar þeirra þá fer það bara á einn veg. Stélið verður stærra og stærra og eftir nógu margar kynslóðir er það orðið óbærilegt farg. Gerist ekki eitthvað svipað ef stór hluti vinnumarkaðarins fylgir þeirri reglu að ráða þann umsækjanda um starf sem hefur lengsta skólagöngu? Er þá ekki farin í gang vitleysa sem þýðir að þegar allir sem stefna á starf á einhverju sviði eru komnir með 20 ára skólagöngu sé eina leiðin til að ná forskoti að bæta einu ári við? Svo þegar allir hafa náð 21 ári (frá 6 til 27 ára) þá þurfa þeir sem vilja komast fram fyrir að skóla sig ár í viðbót – og það helst í einhverju sem talið er hagnýtt á þröngu sviði, fremur en því sem eflir almenna vitsmuni og mannkosti.

Ef skoðunin sem nefnd er í fyrsta lið er tekin bókstaflega eru afleiðingarnar óttaleg firra. Þetta þýðir vitaskuld ekki að menn eigi að hætta að mennta sig til starfa. En þetta þýðir að það getur ekki verið skynsamleg almenn regla að lengri skólaganga veiti fólki betri kjör eða forgang á vinnumarkaði, enda segir það sig kannski sjálft að til margra starfa er betra að ráða fólk sem hefur gengið stutt í skóla og staðið sig vel en fólk sem hefur langa skólagöngu með lökum árangri. Lág einkunn eftir langt nám getur vissulega verið vitnisburður um dugnað manns sem lagði í erfiðustu brekkurnar með lítið nesti og klóraði sig áfram alla leið – en oft er hún aðeins staðfesting á leti og metnaðarleysi. Það eitt og sér að einn hafi hærri gráðu heldur en annar tryggir því varla að hann sé betri starfsmaður. Samt er æði margt sem ýtir undir sókn í magn „menntunar“ og raunar má færa rök að því að opinber menntastefna undanfarinna ára hafi lagt ofuráherslu á magn en ekki gæði.

Til marks um þessa áherslu á magn má nefna að ríkið borgar framhaldsskólum og háskólum fyrir fjölda eininga sem nemendur gangast undir próf í. Skólarnir fá sömu upphæð hvort sem nemendurnir fá handleiðslu sem dugar þeim til að skila krefjandi verkum með glans eða rétt ná að hala einingarnar inn með lágmarkseinkunn. Annað sem hnígur í sömu átt er að markmiðin sem stjórnvöld hafa sett framhaldsskólum undanfarin ár hafa snúist mest um að koma í veg fyrir svokallað brottfall eða, með öðrum orðum, um að fá sem flesta til að tolla í skóla þó þeir vilji frekar vera í vinnu. Minna hefur borið á metnaðarfullum markmiðum í þá veru að fleiri nái afbragðsárangri. Nemendur eru líka óbeint hvattir til að hugsa um nám sitt í fjölda eininga. Við bóknámsbrautir flestra framhaldsskóla eru þeir brautskráðir þegar þeim hefur tekist að safna saman tilteknu einingamagni óháð því hvort þeir geta sýnt einhverja hæfni við námslok. Fyrir vikið tína allmargir einingarnar upp í mörgum skólum og taka hvert fag þar sem þeir telja það léttast. Það hefur í raun orðið til „markaður“ með námseiningar þar sem þær „seljast“ því betur því minna sem þarf fyrir þeim að hafa. Iðnbrautum framhaldsskóla lýkur hins vegar með samræmdu lokaprófi sem kallast sveinspróf. Nemendur þeirra vita að það er hæfni sem þeir sanna við námslok sem gildir en ekki safn eininga. Í framhaldsskólum er einingabraskið því minna í iðnnámi en í bóknámi.

Stór hluti af umræðu um menntun og skóla er í anda þessarar hugsunar þar sem áherslan er á magn og söfnun eininga. Einn angi umræðunnar er til dæmis þrálátar aðfinnslur við endurtekningar í skólakerfinu. Til að þykjast mæla magn menntunar þarf að láta sem eitthvað sé numið, búið, klárað þegar einingarnar eru komnar á skrá og því tímasóun að læra það sama aftur. Samt blasir við að metnaðarfullt skólastarf krefst þess að nemendur fari stundum oftar en einu sinni yfir það sama og nái betra valdi á því í hvert sinn. Það sem er óþarft að endurtaka er flest of auðnumið og fljótlært til að nokkur ástæða sé til að kenna það í skólum. Að réttu lagi ætti því að vera meira áhyggjuefni að sumt sé endurtekið sjaldnar en þarf en að eitthvað sé numið betur en nauðsyn ber til. Æfingin skapar meistarann.

Góð íþrótt gulli betri og hálfsannleikur númer tvö

Ég hef nú skýrt í stuttu máli hvernig sú skoðun að þeir sem hafa meiri skólagöngu eða fleiri einingar eigi að hafa forgang að störfum og hærri laun leiðir samfélag í ógöngur. Nú sný ég mér að öðrum lið í upptalningunni, sem er sú hugmynd að menntun sé eftirsóknarverð vegna þess að hún auki tekjur manna eða bæti samkeppnisstöðu þeirra á vinnumarkaði. Ég neita því auðvitað ekki að bætt efnaleg afkoma sé ein af ástæðum þess að menn sækjast eftir menntun. En hún er ekki eina ástæðan heldur ein af mörgum. Hún skýrir ef til vill að miklu leyti sókn manna í sumt nám en varla hvers vegna svo mikill fjöldi stundar nám í tónlistarskólum svo dæmi sé tekið. Aðeins hluti þeirra sem lærir að syngja og spila á hljóðfæri mun hafa tekjur af þeirri iðju. Ætli hinir læri þetta ekki vegna þess að tónlist auðgar lífið ekki síður en peningar.

Í veruleikanum sækist fjöldi fólks eftir alls konar menntun sem hefur ósköp lítið með tekjuöflun að gera. Samt er þrástagast á því að menntun þjóni einkum efnahagslegum markmiðum og þeir sem eru fastir í þessari hugsun halda gjarna að fólk sem klárar ekki framhaldsskólanám hljóti að vilja læra eitthvert starf. Það er endalaust talað um stuttar starfstengdar námsbrautir fyrir þetta fólk. Þessi síbylja hefur hljómað í að minnsta kosti þrjátíu ár og á þeim tíma hefur verið boðið upp á margar slíkar brautir en fáir innritað sig á þær. Þessar margmisheppnuðu tilraunir eru afsprengi hálfsannleika um gildi menntunar og þessum hálfsannleika er haldið fram svo einstrengingslega að úr verður skrumskæling. Ég hef starfað við framhaldsskóla samfleytt frá 1986, bæði sem kennari og sem skólastjórnandi, og mér sýnist reynslan benda til að þorri þeirra sem ekki nær að ljúka þriggja til fjögurra ára framhaldsskólanámi vilji fremur almenna menntun með öðrum áherslum en nú tíðkast á námsbrautum framhaldsskóla, heldur en sérhæfingu eða undirbúning fyrir eitt starf.

Þó þetta sé að sjálfsögðu misjafnt frá manni til manns virðist vilji fólks til að læra yfirleitt drifinn áfram af fleiru en löngun til að búa sig undir starf eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Námsval fólks staðfestir raunar að þetta á við um marga því mikill fjöldi velur námsleiðir sem ekki auka að ráði líkur á góðum launum. Nærtækasta skýringin á þessu er að flestum þyki menntunin sjálf ekki síður eftirsóknarverð en auðurinn sem hún aflar. Fólk er ekki upp til hópa svo heillum horfið að það geri sér ekki ljóst, að minnsta kosti í aðra röndina, að vísindi, fræði, tækni, listir og íþróttir eru það besta sem mennirnir eiga. Menntun gefur fólki hlutdeild í þessum fjársjóðum. Eitt sinn, þegar orðið „íþrótt“ náði yfir mun fleira en það gerir í nútímamáli, voru þau sannindi að manni sé betra að vera vel menntaður en að eiga mikla peninga orðuð í stuttu máli og sagt: Góð íþrótt gulli betri.

Heyskapur, fiskiróðrar og hálfsannleikur númer þrjú

Þá er komið að þriðja atriðinu í upptalningunni sem oft helst í hendur við hin tvö. Þetta þriðja atriði er sú trú að í skólum eigi menn einkum að læra það sem gagnast í vinnu. Víst er gott að menn læri til starfa en áhersla á það eitt horfir fram hjá því að skólaganga býr fólk undir líf sem snýst um fleira en vinnu. Það þarf til dæmis menntun til að rækja borgarlegar skyldur og til að stjórnmál þróist með farsælum hætti. Menntun getur líka nýst fólki til að ala börn sín betur upp. Allt þetta gagnast að sjálfsögðu atvinnulífinu, því flest fyrirtæki njóta góðs af því að landinu sé vel stjórnað og fólk almennt skynsamt og vel að sér. Atvinnulíf framtíðarinnar græðir líka á því að næsta kynslóð vinnandi fólks verði vel upp alin. En þessi gæði falla því síður í skaut ef menntun fer að snúast um það eitt að búa fólk undir störf dagsins í dag.

Ofuráhersla á menntun til vinnu er ekki óheppileg vegna þess eins að hún einblíni á eina hlið mannlífsins sem er efnahagslífið. Hún er líka óheppileg fyrir þessa einu hlið, því oftast er hún í reynd áhersla á þarfir atvinnulífs eins og það er nú fremur en hæfni til að mæta þörfum í framtíð sem við vitum enn ekki hvernig verður.

Atvinnurekendur nítjándu aldar vildu sjálfsagt flestir að piltar lærðu að heyja og róa til fiskjar á opnum bátum og stúlkur kynnu að breyta ull í fat og mjólk í mat. Þetta var vissulega þarft og nauðsynlegt. En atvinnuhættir tuttugustu aldar spruttu ekki af þessari menntun heldur miklu fremur af því bókviti sem sagt var að yrði aldrei í askana látið. Framfarir síðustu aldar voru ekki síst afsprengi frjálsra lista: Vísindalegrar hugsunar, orðfimi, rökvísi, tungumálakunnáttu, skilnings á náttúrunni, kunnáttu í stærðfræði og fleiri greinum. Þörfin fyrir menntun af þessu tagi hefur ekki minnkað. Hún er enn driffjöður framfara, ekki síst í atvinnulífi.

Við þetta er því að bæta að mjög margt sem fólk þarf að kunna í vinnu er miklu betra að læra á vinnustöðum en í skólum. Skólar eru sjaldan heppilegir staðir til að læra verklag sem var ekki til fyrir tíu árum og verður úrelt eftir önnur tíu. Þeir tilheyra ekki heimi hraðans.

Til að átta okkur á hvernig skólar geta best gagnast samfélaginu er ef til vill heppilegt að spyrja fyrst hvað skólar geri vel. Hvað er betra að læra í skóla en annars staðar? Af hverju læra menn til dæmis ekki að sitja reiðhjól og nota þvottavél í skóla en ensku og stærðfræði heima hjá sér? Hér læt ég duga að tæpa á svari sem ég veit þó að þyrfti að skýra í lengra máli. Skólar henta einkum til að nema það sem er seinlegt að læra. Það er engin fljótleg leið til að verða læs á flókin fræði, stærðfræði og tungumál, tileinka sér vísindalega hugsun, hagleik, smekkvísi og djúpan skilning á náttúrunni, samfélaginu og sögunni. Hins vegar er hægt að læra á reiðhjól eða þvottavél á innan við einni viku. Skóli er griðastaður þess seinlega og það er kannski hvergi meiri þörf fyrir slíkan griðastað en einmitt í heimi hraðans sem hefur að miklu leyti lagt nútímann undir sig. Þótt við gleðjumst yfir framförum og nýjungum í hagkerfinu og öllum þeim fagnandi hraða sem þar fyllir stræti og torg, þurfum við næði og skjól fyrir sviptingum tímans til þess að menntast svo að gagni komi í síbreytilegum heimi. Það gildir því kannski fremur í menntamálum en flestu öðru að hætt er rasanda ráði.

Mannkostir og menningararfur

Ég hef nú skýrt hvers vegna sú skrípamynd af menntastefnu sem ég dró upp sem þrenn hálfsannindi er varhugaverð. En hvernig er skynsamleg menntastefna? Hvað á að koma í staðinn fyrir skrípamyndina?

Úr menntahefð Vesturlanda má, held ég, lesa tvenns konar hugmyndir um menntun sem eru að minnsta kosti þess virði að ræða. Önnur gerðin horfir einkum til nemandans og gerir ráð fyrir að menntun sé safn mannkosta sem eflast með lærdómi, tilsögn, rökræðu, þjálfun eða æfingu. Hin leggur áherslu á að miðla menningararfi. Talsmenn fyrrnefnda viðhorfsins telja gjarna mest um vert að nemendur tileinki sér gagnrýna hugsun og fleiri vitsmunalegar dyggðir en talsmenn þess síðara leggja oftast áherslu á þekkingu, skilning eða getu á sviði vísinda, fræða, lista, tækni eða íþrótta. Ég held að í báðum þessum hugmyndum sé sannleikur fólginn. Líklega á menntun í senn að efla mannkosti og miðla menningararfi og ef þetta tekst mun þjóðlífið allt, og efnahagslífið þar á meðal, að öllum líkindum njóta góðs af, bæði í bráð og lengd.

Atli Harðarson

One response to “Til varnar íhaldssemi í menntamálum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s