Kennurum þykir stundum erfitt að ræða vandamál nemenda við foreldra þeirra. Margt kemur til, kennarar vilja ekki særa foreldrana, þeir óttast viðbrögð þeirra eins og reiði eða afneitun, þeir vilja ekki gera of mikið úr hlutunum og stundum efast þeir jafnvel um eigin dómgreind.
Í bók sinni Vanskellige forældresamtaler gode dialoger fjalla þær Drugli og Onsøien (2010) um viðtöl við foreldra sem kennurum geta þótt erfið. Þær vekja athygli á því að hægt er að orða vandamál á mismunandi vegu og að áhrifin séu ólík. Það er mikill munur á því að segja við foreldara að barnið þeirra trufli svo mikið að það eyðileggi nám allra barnanna í bekknum eða: „Ég hef áhyggjur af því að syni ykkar líði ekki nógu vel í skólanum og þegar hann verður órólegur tekst mér ekki að ná nægilega vel til hans. Ég er að vonast til að okkur takist í sameiningu að átta okkur á því hvað það er sem veldur honum vanlíðan svo við getum hjálpað honum til að líða betur“. Í þessum ólíku framsetningum birtist álit kennarans á því hver á vandamálið. Í fyrra dæminu afsalar hann sér vandanum og gerir nemandann og foreldra hans að eigendum en í síðara tilvikinu, þar sem kennarinn notar Ég – boð, er hann a.m.k. meðeigandi – vandinn er samstarfsverkefni. Það er ekki erfitt að ímynda sér hversu ólík áhrifin af þessum tveimur skilaboðum eru á foreldrana og þann grundvallar mun á trausti og faglegri virðingu sem kennarinn ávinnur sér.
Drugli og Onsøien segja frá því að nokkrir skólar og stofnanir í Danmörku hafi ákveðið að tala aldrei um barn sem erfitt, þess í stað er lögð áhersla á framlag starfsfólksins í samspilinu við barnið. Í viðtölum við foreldra eru notuð Ég-boð. Í því felst að það er hinn fullorðni þ.e. kennarinn sem þarf að breyta viðhorfum sínum til barnsins og jafnfram býður hann foreldrum til samstarfs um greiningu og úrlausnir. Með því að nota Ég-boð kemst maður hjá því að skilgreina barn sem erfitt. Það er líka mun líklegra til árangurs að breyta umhverfi barnsins og þá ekki síst viðhorfunum til þess, en að reyna að þvinga fram breytingar í barninu. Það hvernig maður hugsar um aðra hefur áhrif á framkomu manns gagnvart þeim, það á líka viði um viðhorf okkar til nemenda og foreldra þeirra. Þess vegna er svo mikilvægt að kennarinn þekki hugsanir sínar varðandi einstaka nemendur.
Það er til einföld aðferð sem getur verið hjálpleg, hún felst í því að kennarinn eða kennararnir eru með miða með nöfnum hvers einstaks nemanda í bekknum/hópnum og einnig blað þar sem nöfn þeirra eru listuð upp. Fyrir aftan hvert nafn á listanum er stika með tölunum frá 1 – 10. Kennarinn tekur nú upp einn miða í einu og les nafnið og greinir um leið viðhorf sín gagnvart viðkomandi nemanda. Hér reynir á sjálfsþekkingu og heiðarleika kennarans. Ef viðhorf hans eru mjög jákvæð merkir hann við 10, en ef þau eru mjög neikvæð merkir hann við 1. og svo þar á milli. Ef það eru einhver nöfn sem kennarinn gefur fá stig þarf hann að skoða það sérstaklega og gera áætlun um að vinna með viðhorf sín gagnvart viðkomandi börnum, því væntanlega eru þetta þeir nemendur sem hafa mesta þörf fyrir stuðning.
Það getur fylgt því ákveðinn vandi þegar stefna skóla og stofnana er sú eigna sér vandamálin. Reynslan sýnir að stundum taka samviskusamir kennarar of mikið á sínar herðar og kenna sér um þegar árangurinn skilar sér ekki. Við þessu þarf að bregðast innan hvers skóla með því að deila ábyrgð og með auknum stuðningi við kennara (Drugli og Onsøien, 2010).
NKC
Heimild: Drugli, M.B. og R. Onsøien R, (2010). Vanskellige forældresamtaler – gode dialoger. Undervisning og læring. Fredrikshavn: Dafolo.