Börn sem búa við ofbeldi og óreglu á heimilum sínum

Þetta  myndband, sem birtist á pressan.is, vakti mig til umhugsunar um þá staðreynd að börnin sem þarna sjást og önnur sem eru í svipuðum aðstæðum eru nemendur í skólum. Sama á við um börn sem búa við ofbeldi á heimilum sínum annað hvort sjálf eða aðrir í fjölskyldunni.  Eins og að líkum lætur eru þessi börn ekki alltaf vel fyrirkölluð, kannski eru þau döpur og áhugalaus eða geðstirð og trufla starfið í skólanum. Börn segja sjaldnast frá erfiðum heimilistaðsæðum, þau reyna frekar að leyna erfiðleikum sínum og fjölskyldunnar, einmitt þess vegna er svo mikilvægt að kennarar tileinki sé næmni og umhyggju með öllum nemendum sínum.

Ég minnist þess að hafa lesið frásagnir af breskum ungmennum sem höfðu alist upp við afar slæmar aðstæður en náðu engu að síður góðum árangri í námi og spjöruðu sig betur í lífinu en nokkur hafði þorað að vona. Sum þessara ungmenna þökkuðu góðum kennurum fyrir að hafa breytt lífi sínu og tóku fram að þessir kennarar hefðu haft trú á þeim og komið þeim á rétt spor.

Fyrir mörgum árum síðan, þegar ég vann hjá Samtökum um kvennaathvarf, leitaði þangað ung kona sem ég kannaðist við frá því hún var nemandi í skóla þar sem ég hafði áður starfað.  Á þeim árum hafði hún orð á sér fyrir að vera afar erfitt barn m.a. gekk illa að fá hana til að sinna náminu. Þegar við hittumst þarna aftur rúmum áratug síðar sagði hún mér sögu sína sem var vægast sagt dapurleg. Sem barn hafði hún búið við mjög grófa kynferðislega misnotkun tveggja karlmanna sem voru henni nátengdir. Hún var aðeins 10 – 12 ára gömul þegar misnotkunin hófst. Hún reyndi að segja frá þessu heima hjá sér en var ekki trúað,  hún átti enga undankomuleið og þurfti að láta viðbjóðslegt ofbeldi yfir sig ganga. Á sama tíma var stöðugt fundið að hegðun hennar í skólanum en heima hlustaði hún á foreldra sína tala með aðdáun um a.m.k. annan ofbeldismanninn. Upplýsingar um skelfilega reynslu hennar bárust aldrei til skólans og þar mætti hún því miður litlum skilningi. Ef okkur kennarana hefði grunað hvað um var að vera hefðum við að sjálfsögðu brugðist allt öðruvísi við. Við hefðum sýnt henni miklu meiri skilning og umhyggju auk þess að vísa máli hennar til barnaverndar, en það gerðist ekki.  Ég get ekki lýst þeirri sektarkennd sem ég upplifði við að hlusta á frásögn þessarar ungu konu sem var enn að vinna úr sárri reynslu sinni.

Þau börn sem búa við ofbeldi og óreglu foreldra sinna bera það sjaldnast utan á sér, þau bregðast við mótlæti og sorg með mismunandi hætti, sum verða innilokuð og dul, önnur kjaftfor og erfið, sum einnbeitingarlaus og ör og enn önnur reyna að standa sig vel og gera öllum til hæfis. Þess vegna er svo mikilvægt að kennarar sýni öllum nemendum sínum umhyggju og stuðning og ávinni sér traust þeirra svo nemendurnir geti leitað til þeirra með áhyggjur sínar og vandamál.

Því miður eru ekki öll börn svo heppin að búa alltaf við góðar heimilisaðstæður. Enda þótt skólinn geti aldrei komið í stað góðra foreldra getur hann verið sá griðastaður sem þessi börn þurfa svo mikið á að halda. Þar skipta góðir kennarar öllu máli.

NKC

One response to “Börn sem búa við ofbeldi og óreglu á heimilum sínum

  1. Sæl Nanna,
    Takk fyrir áhugaverðan pistill og hjartanlega til hamingju, Edda og Nanna, með KRÍTINA sem lofar svo góðu. Ég fór á ráðstefnu um klám 16.okt. sl. sem snertir þetta efni. Mig langar að vekja athygli á erindunum sem voru flutt þar. Upptökur frá ráðstefnunni eru nú aðgengilegar á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Þau eru meira og minna skólatengd en flestir fyrirlesarar, ef ekki allir, vísuðu m.a til umhugsunar um sín eigin börn og efnið á erindi við okkur öll, að mínu viti, þvi að tengsl á milli ofbeldis gegn börnum og klámvæðingarinnar verða vart véfengd. Sjá slóðina; http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28279
    með bestu kveðju
    Guðrún Kristinsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s