Skemmtileg Menntakvika á degi kennara

Leikskólakennarar álíta sig koma eins fram við drengi og stúlkur en gera það ekki. Kennarar, foreldrar og nemendur eru sammála um að námsstuðningur foreldra hafi umtalsverð áhrif á námsárangur nemenda. Meiri ánægja er með skóla sem leggja áherslu á sjálfræði nemenda. Væri e.t.v. réttara að ræða um samstarf skóla og mæðra en samstarf skóla og foreldra? Hvort ná börn með sérþarfir betri árangri í almennum grunnskólum, í sérdeildum eða í sérskólum?  Þetta eru aðeins fáein atriði af þeim fjölmörgu sem tekin voru til umfjöllunar í stútfullri Menntakviku í gær 5. október.

Ég var svo heppin að komast frá daglegum störfum mínum til að sækja rúmlega þrjár málstofur á Menntakviku. Það kom mér ánægjulega á óvart að fyrsta málstofan var full út úr dyrum og hélst þannig allan daginn. Þetta voru málstofur um jafnrétti og kyngervi, málefni sem hefur ekki alltaf fengið mikla athygli. Í þessum efnum virðist mér sem eðlishyggjan (strákar eru strákar og stelpur eru stelpur) sé enn mjög ráðandi í hugum almennings enda þótt fræðaheimurinn sé almennt þeirrar skoðunar að frekar ætti að leggja áherslu á einstaklingsmun en kynjamun. Sem dæmi get ég nefnt að það hafði samband við mig blaðamaður til að spyrjast fyrir um skóla sem leggja sérstaka áherslu á kennslu sem sniðin er að þörfum drengja, en hann missti fljótlega áhugann þegar ég sagði honum að það lægi fyrir að í góðum skóla væri komið til móts við þarfir og áhuga allra barna, hvort sem það væru drengir eða stúlkur. En þetta var smá útúrdúr.

Erindin í málstofunni báru þann skemmtilega og lýsandi titil „Að læra til telpu og drengs“. Rousseau taldi á sínum tíma nauðsynlegt að drengir og stúlkur fengju ólíka menntun og uppeldi enda biðu þeirra mismunandi viðfangsefni í lífinu.  Í dag álíta flestir þessar hugmyndir vera úreltar og að fullt jafnrétti eigi að vera milli kynjanna. Það eru auðvitað til ákveðnar undantekningar í þessu og enn er til fólk sem heldur því fram að konur eigi ekki erindi út á vinnumarkaðinn þegar þær hefðu fyrirvinnu. Í málstofunni kom aftur á móti fram að leikskólakennarar, sem þátt tóku í doktorsrannsókn Þórdísar Þórðardóttur, álíta sig koma eins fram við drengi og stúlkur en þegar betur er að gáð sýna þeir áhugamálum drengja meiri áhuga en áhugamálum stúlkna og eru líklega ekki komnir eins langt frá 300 ára gömlum hugmyndum Rousseau og ætla mætti. Ég er sannfærð um að umræddir leikskólakennarar eru ekkert frábrugðnir því sem gengur og gerist um fólk almennt.

Málstofan um rannsóknir á þróun skólastarfs var einkar áhugaverð og kveikti ekki síður spurningar en að svara þeim. Eitt af því sem vakti athygli er að foreldrar telja áhuga kennara vega þyngra en kennsluaðferðir þeirra þegar litið er til námsárangurs nemenda. Gott og vel, við getum öll verið sammála um að það sé mikilvægt að sérfræðingar hafi áhuga á starfinu sínu en ef þú værir að fara í flugvél hvort vilt þú að vegi þyngra áhugi flugmannsins eða færni til að fljúga vélinni? Hvað með tannlækninn sem börnin þín fara til hvort finnst þér skipta meira máli áhugi hans eða færni í tannlækningum?  Reyndar álíta kennararnir sjálfir (starfsmenn skólans) einnig að áhugi þeirra skipti miklu máli varðandi námsárangur, en þyngra vegur þó stuðningur foreldranna við nám barna sinna að þeirra mati. Sjálfum sérfræðingunum finnst með öðrum orðum að þeirra eigin sérfræðiþekking skipti ekki höfuðmáli, sá þáttur kemur í fjórða sæti ef ég man rétt. Það verður bara að geta sér til um hvers vegna fagmennska kennara virðist vera svona lítils virði miðað við þær væntingar sem við höfum almennt til sérfræðinga og hvaða áhrif það hefur á sjálfsmynd stéttar. Því verður hver að svara fyrir sig.

Í sömu málstofu kom fram að bæði nemendur og foreldrar eru mun ánægðari með skóla þar sem áhersla er lögð á sjálfræði nemenda.  Þeir skólar sem mælast með mikið sjálfræði nemenda geta því orðið öðrum skólum dýrmæt fyrirmynd.

Í síðustu málstofunni sem ég fór í var hið brennheita efni skóli án aðgreiningar til umfjöllunar. Bara hugtakið sjálft hefur mismunandi merkingu í hugum fólks en í málstofunni var það skilgreint þannig að skóli án aðgreiningar væri skóli þar sem mannréttindi og félagslegt réttlæti eru í fyrirrúmi og tryggt að allir njóti gæðanáms. Þá hlýtur maður að spyrja hver geti verið andsnúinn skóla án aðgreiningar?

Þarna kom fram að hafin er rannsókn til að skoða og bæta námsumhverfi nemenda með fatlanir/sérþarfir í námi. Hér er m.a. átt við nemendur sem eru með íslensku sem annað mál líkt og aðra nemendur með sérþarfir. Hvar ná þessir nemendur bestum árangri er það í sérdeildum, sérskólum eða í almennum bekkjum? Þetta er spurning sem lögu er tímabært að fá svarað.

Í sömu málstofu var einnig fjallað um stuðning mæðra við nám barna sinna, einkum þeirra sem eru með sérþarfir. Í sama erindi kom fram að rannsóknir sýna fram á töluverða tregðu skóla til raunverulegs samstarfs við foreldra.

Undir lok Menntakvikunnar náði ég að vera viðstödd undirritun viljayfirlýsingar á opnun miðlægrar vefsíðu Menntamiðju http://menntamidja.is/ sem er afar spennandi vettvangur fyrir kennara að kynna sér.

Þetta var með öðrum orðum mjög gefandi ráðstefna og ég þakka kærlega fyrir mig.

 

NKC

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s