Það er nánast sama hvaða atvinnuauglýsingu maður les, allsstaðar er tekið fram að umsækjendur þurfi að búa yfir góðum hæfileikum til samstarfs, gott ef ekki framúrskarandi. Þessi áhersla á samstarfsfærni minnir á það þegar stofnaður var skóli vestur í Kaliforníu fyrir nokkrum árum, skóli sem átti að vera fyrirmyndarskóli fyrir fyrirmyndarnemendur. Frá upphafi var ákveðið að leggja skyldi megin áherslu á samstarf í náminu. Ákvörðunin var byggð á þeirri staðföstu trú að getan til að eiga gott samstarf við fólk af ólíkum uppruna og með mismunandi viðhorf væri sá hæfileiki sem heimurinn hefði mesta þörf fyrir. Í Pestalozzi -menntaáætlun Evrópuráðsins er samstarf nemenda einnig í brennidepli, ekki síst í þeim hluta sem hefur það að markmiði að skólar í Evrópu verði án ofbeldis. Samstarfsfærni er með öðrum orðum talin afar eftirsóknarverður hæfileiki.
Flestir virðast sammála um að það nægi engan veginn að búa til reglur og segja nemendum að þeir eigi að vera góðir í samskiptum, sýna tillitssemi og vinsemd. Það sé nauðsynlegt að þjálfa þá í samskiptum, ekki í sérstökum kennslustundum heldur í öllum kennslustundum, öllu skólastarfinu. Enda þótt ég þykist vita að í flestum skólum sé mikið um samstarfsverkefni má alltaf gera betur.
Samstarfsverkefni krefjast góðs undirbúnings af hálfu kennara, skýrra markmiða, afmarkaðs tíma og dreifingar á ábyrgð þátttakendanna. Það er einnig mikilvægt að verkefnin séu merkingarbær í hugum nemenda. Oftar en ekki er það ferli verkefnisins sem skiptir meira máli en afraksturinn því í vinnuferlinu felst dýrmætur lærdómur og reynsla. Þar er m.a. unnið með gildi eins og jafnrétti, ábyrgð, virðingu og samkennd. Tímaramminn skiptir líka miklu máli, hver hluti verkefnisins hefur afmarkaðan tími svo ekki skapist tækifæri til að láta sér leiðast.
Á síðustu árum hef ég séð nokkur ótrúlega flott samstarfsverkefni sem stuðla að aukinni samstarfsfærni nemenda auk þess að efla annað nám. Meðal þeirra er verkefni þar sem fjögurra manna hópar unnu að gerð þykjustu sjónvarpsauglýsingar þar sem átti að auglýsa kex. Auglýsingin sjálf mátti aðeins taka tvær mínútur. Ef ég man rétt fengu hóparnir 30 mínútur til að semja auglýsinguna, skrifa textann, finna til leikmuni og æfa. Annað verkefni fólst í því að hópar áttu að finna á netinu rök með hvalveiðum og annar hópur fann rök á móti hvalveiðum og skráði. Loks var hópunum stillt upp líkt og gert er í sjónvarpi og hvor hópur um sig rökstuddi mál sitt. Myndasaga sem sýndi einelti og lausn málsins er enn eitt verkefni sem ég hef séð nemendur vinna og kynna. Það má líka nefna hópa nemenda sem sömdu orðadæmi byggð á óþekktri stærð. Hóparnir skiptust svo á dæmum, reiknuðu dæmin sem næsti hópur hafði samið og kynnti niðurstöður sínar og að lokum nefni ég verkefni þar sem nemendur settu upp dæmi úr margföldunartöflunni með teikningum án tölustafa og orða sem hóparnir útskýrðu svo fyrir bekkjarfélögum sínum.
Í öllum þessum verkefnum reyndi mikið á samræðu. Nemendurnir vissu til hvers var ætlast af þeim og um ábyrgð hvers og eins. Í hverjum hópi var tímavörður, einn átti að sjá til þess
að allir fengju að tjá sig og að á þá yrði hlustað, þriðji stjórnaði kynningunni og sjá fjórði bar ábyrgð á skráningunni.
Það má fara ýmsar leiðir til að deila hlutverkunum t.d. getur kennarinn gert það sjálfur eða látið nemendur draga. Á Pestalozzi námskeiðum sem ég hef sótt eru oft hafðir fjórir tússpennar í mismunandi litum á borðum hópanna, hver og einn velur sér penna áður en stjórnandinn tilkynnir hvaða hlutverk hver litur hefur.
Það er hægt að fara ýmsar leiðir þegar skipt er í hópa. Það má t.d. getuskipta eða getublanda með skipulögðum hætti. Einnig má nota ýmsa leiki við að búa til hópa. Það má t.d. láta nemendur draga miða með starfsheitum, en fjórir nemendur draga sama starfsheitið. Nemendurnir eiga svo að leika starfsheitið. Hópurinn verður til þegar fjórir nemendur í sömu starfsstétt hafa náð saman. Þetta má líka gera með því að nemendur draga miða með heitum dýra sem þeir leika. Enn ein leið er að klippa myndir í hæfilega marga búta, hver nemandi dregur einn bút og þeir sem geta púslað bútunum saman í mynd verða hópur. Þetta þarf að gerast algerlega hljóðlaust en nemendur ganga um stofuna og leita að félögum sínum.
Engin stofnun hefur jafn mikil tækifæri til að efla samstarfsærni barna eins og skólinn, nýtum okkur það.
NKC