Hér er eitt gott heilræði úr bókinni 501 tips for teachers sem er mikilvægt að hafa í huga þegar kennarar eru að reyna að ná athygli hóps sem er að vinna og skvaldur er orðið hávært.
Ekki fara í keppni við nemendur þína í því hver talar hæst. Þú getur ekki unnið þá keppni, þú gætir hins vegar glatað virðingu þinni ef þú hrópaðir í kapp við nemendur.
Það eru til ýmsar betri leiðir til að ná athygli nemenda en að hrópa yfir hópinn. Sumir nota þá aðferð að rétta upp hendi og síðan byrja nemendur að rétta upp hendi hver á eftir öðrum þar til allir hafa tekið eftir því að verið er að biðja um athygli þeirra. Aðrir nota þá aðferð að byrja að telja, einn, tveir, þrír og svo áfram þar til hópurinn þagnar. Svo er hægt að nota þá aðferð að slökkva ljósin í kennslustofunni og einnig að vera með litla spiladós sem gefur frá sér lágvært hljóð sem gefur til kynna að nú eigi að vera þögn.
Svona aðferðir þarf að kynna vel fyrir nemendum og æfa með þeim áður en þær eru notaðar. Mögulegt er að vinna með nemendum hugmyndavinnu og fá fleiri hugmyndir að því hvernig best er að ná athygli hópsins. Ég man eftir því þegar ég var að kenna 1. bekk hvað ég fékk góða athygli ef ég nánast hvíslaði það sem ég var að segja, með rödd sem gaf til kynna að það sem ég hafði fram að færa væri mjög merkilegt og mikilvægt.
Hins vegar átti ég líka í vandræðum með það fyrstu ár mín í kennslu hvað ég átti erfitt með að beita röddinni og gefa í skyn með henni að mér mislíkaði við nemendur. Ég hafði bitið í mig að vilja ekki nota reiðilega rödd og gerði það ekki í mörg fyrstu ár mín í kennslu, án þess að kunna aðrar aðferðir. Mér fór að ganga mun betur þegar ég uppgötvaði mikilvægi raddbeitingar, þá á ég við að röddin er verkfæri, bæði til að setja mörk og halda virðingu sinni með því að beita henni rétt. Það gerir maður án þess að öskra.
EK