Menntun og útskriftarár: MA í bókmenntafræði 1988, uppeldis- og kennslufræði 1985, ótal námskeið og vinnusmiðjur í leiklist, handritaskrifum og leikstjórn.
Skólinn sem ég kenni við: Álfhólsskóla í Kópavogi
Bekkur: Leiklist sem list- og verkgrein í flestum árgöngum skólans.
Síðasta símenntunarnámið sem ég sótti: Vinnusmiðja hjá norskum leikstjóra í að skapa leiksýningu frá grunni með hópi fólks á vegum norrænna leiklistardaga í Reykjavík í ágúst sl.
Hvaða þrjú atriði í kennsluháttum mínum hafa haft mest áhrif á árangur nemenda minna:
Í fyrsta lagi vinn ég með með þrjár meginreglur eða gildi í öllum aldurshópum í kennslu minni. Þær eru jákvæðni, virðing og hlustun.
Með öðrum orðum:
- Við segjum já við öllum hugmyndum en komum líka með okkar hugmyndir, við segjum: ,, Já…. en…“
- Við berum virðingu fyrir sérkennum allra sem við eigum samskipti við og vinnum með í hópnum.
- Við hlustum á allt sem fram fer af athygli, hlustum með öllum skynfærunum og getum þess vegna unnið saman í hóp og á leiksviðinu.
Í öðru lagi vinn ég ekki með handrit heldur legg mesta áherslu á að hópurinn skapi leiklistina innan ákveðins ramma sem ég legg fyrir. Nemendur fá alltaf að velja hvernig og hvaða persónum þeir spreyta sig á. Þeir búa sjálfir til persónur sínar út frá almennri leikaratækni þar sem persónan er sköpuð innan frá. Þannig reynist nemendum auðvelt að setja sig í spor annarra og leika hlutverk sem eru lík eða ólík þeirra eigin reynslu og persónuleika.
Ég reyni að vinna með menningararfinn, svo sem þjóðsögur, Íslandssöguna og Íslendingasögurnar annars vegar og hins vegar með gildi á borð við mannréttindi, sjálfsvirðingu og sjálfstraust og samskipti. Úr þessu verða til mjög fjölbreyttar sýningar og / eða rannsóknir í leiklist og oftast er mikill húmor ríkjandi. Einnig verða til alvöru tilfinningar eins og gleði og sorg. Það er gefið að í flestum hópum vinnum við með tónmenntinni. Mjög oft er unnið með hinum list- og verkgreinunum og stundum íslensku/bekkjarkennurum. Útkoman verður afar ánægjuleg samþætting og hópvinna.
Í þriðja lagi nota ég einfaldar og skýrar agareglur sem byggjast á því að virða vinnufriðinn. Ég nota reglur sem ég lærði í bókinni Töfrar 1, 2, 3. Nemendur eru ánægðir með reglurnar því þær hjálpa þeim að slaka á og bera ábyrgð á sjálfum sér í hópnum.
Hverju er ég stoltust af í starfinu mínu:
Ég er stoltust af því að geta séð grundvallarbreytingar á nemendum eftir að þeir hafa verið í leiklist. Þeir öðlast sjálfstraust, sviðsöryggi og tilfinningu fyrir því hvað þarf til þess að taka til sín athygli og láta rödd sína berast. Í skólanum er stór nýbúadeild, stór sérdeild og einhverfudeild. Næstum allir nemendur þessara deilda verða öruggari og glaðari af því að vera í leiklist.
Hvaða markmið set ég mér í þróun starfs míns:
Ég set mér það markmið að leiklist verði ómissandi námsgrein í öllum árgöngum í öllum skólum og það verði foreldrar og heimilin sem mynda þrýstihóp til þess að svo geti orðið. Það er nefnilega svo augljóst hvað það er jákvætt fyrir nemendur að læra leiklist. Skylt markmið er að allir nemendur öðlist svo mikla hópkennd og ábyrgðartilfinningu að hver sem er geti verið leikstjóri í jafningjahópi og hver sem er geti stokkið inn í hvaða hlutverk sem er þegar á þarf að halda. Ég er þegar komin nokkuð á leið með að ná þessum markmiðum.