Því hefur stundum verið haldið fram að það sé jafn erfitt að breyta skólum eins og að færa kirkjugarð, það komi engin hjálp innan frá. Staðreyndin er sú að hindranir gegn breytingum í skólum eru ekki síður utan skólans m.a. í hópi foreldra. Margir standa vörð um hefðbundnar og lífseigar hugmyndir um skólann og bregðast við með ótta þegar þeir telja þeim ógnað.
Gott dæmi um slíka íhaldssemi verður gjarnan sýnileg þegar sameina á nemendur úr tveimur árgöngum í einn nemendahóp. Sumir foreldrar óttast að slíkt fyrirkomulag muni koma niður á námi barna þeirra. Hefðin segir okkur að áramótin dragi mörkin milli þroska barna, það þykir sjálfsagt og eðlilegt að barn sem fætt er í janúar og annað sem fætt er í nóvember sama ári eigi samleið í bekk/nemendahópi. Þá þykir ellefu mánaða aldursmunur almennt ekki skipta miklu máli. Það á hinsvegar ekki við um tvo nemendur sem fæddir eru í þessum sömu mánuðum, en á sitt hvoru árinu, jafnvel þó það muni innan við tveimur mánuðum á aldri þeirra.
Það rifjast einnig upp að faðir nokkur hafði þungar áhyggjur af því að sonur hans hefði miklu minna heimanám en jafn gömul frænka hans sem var í öðrum skóla. En stefnan í skóla sonarins var að halda heimanámi yngri nemendanna í lágmarki og faðirinn var sannfærður um að það væri sterk vísbending um að skóli sonarins væri verri skóli.
Loks vil ég nefna rök móður sem mótmælti fyrirhuguðum breytingum í skóla barna hennar en þær áttu m.a. að stuðla að auknu framboði á valgreinum. Móðirin fann þessum breytingum allt til foráttu og benti á að hún hefði sjálf stundað grunnskólanám í fámennum sveitarskóla þar sem enginn kostur var á valgreinum, engu að síður hefði hún lokið háskólanámi sem staðfesti í hennar huga að slíkt val væri óþarft og jafnvel skaðlegt.
Íhaldssemi getur vissulega átt fullan rétt á sér, ég játa t.d. fúslega að verða afar íhaldssöm um jólin, en íhaldssemin má ekki stýra starfi skólanna. Eins og segir í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 þá er það eitt mikilvægasta hlutverk skólans að búa nemendur undir líf og starf í þjóðfélagi sem er í sífelldri þróun, auk þess fleygir rannsóknum á skólastarfi fram og þær gefa okkur nýjar vísbendingar til að byggja starfið á. Þetta þýðir að kennarar þurfa stöðugt að vera vakandi fyrir stefnum og straumum til að tryggja nemendum sínum menntun sem nýtist þeim sem best í nútíð og framtíð. Hér held ég að sé brotalöm í skólastarfinu sem verður varla bætt nema með því að gefa kennurum kost á meiri og markvissari símenntun.
Kennarar eru mikilvæg fagstétt sem getur haft veruleg áhrif á líf barna og á, í samstarfi við foreldra, stóran þátt í að móta framtíðarsamfélagið, innleiða gildi, viðhorf, færni og þekkingu. Þetta er ekki lítil ábyrgð. Til að standa undir henni þurfa kennarar m.a. að vera færir um að byggja kennsluaðferðir sínar á fræðilegum rannsóknum, en í grein sem birtist í The Guardian segir að allt of margir kennarar treysti á og styðjist við aðferðir í kennslu án þess að nokkrar rannsóknir liggi þar til grundvallar. Íslenskar rannsóknir benda einnig til að kennsla sé almennt mjög hefðbundin og að námsbækur stýri henni að verulegu leyti (sjá t.d. Hafsteinn Karlsson, 2009 og Kristín Jónsdóttir, 2005).
Mikið hefur verið fjallað um lengingu kennaranáms og ekki vil ég draga úr mikilvægi hennar, en sú menntun dugir alls ekki fyrir lífið. Kennsla er starf sem krefst sífelldrar menntunar. Það þykir sjálfsagt að háskólakennarar fái reglulega tækifæri til endurbæta þekkingu sína, hvers vegna ætti það sama ekki að eiga við um grunnskólakenna? Þeir verða að hafa nægilegt faglegt öryggi til að geta breytt skólanum innan frá og með nægilega sterkum faglegum rökum til að ávinna þeim skilning og traust foreldra. Öfugt við kirkjugarða þá er það mögulegt.
NKC