Eitt helsta hlutverk grunnskólans er að búa nemendur undir líf í framtíðarsamfélagi. Þegar nemendur ljúka námi eiga þeir að hafa tileinkað sér margvíslega hæfni, sem skilgreind er í aðalnámskrá grunnskóla, og talin er mikilvæg til að lifa og starfa í því samfélagi sem bíður þeirra. Þar hafa lestur, stærðfræði og aðrar bóklegar greinar jafnan vegið þyngra en aðrar.
Það er óumdeilt að læsi og skilningur í stærðfræði er mikilvægur til að geta lifað sjálfstæðu lífi en hugsanlega hefur það einnig áhrif að auðvelt að mæla árangur nemendanna í þessum greinum og gæði skóla og skólakerfa eru auk þess borin saman eftir árangri nemenda í þeim sbr. samræmd próf, ýmsar skimanir og Pisa. Væntanlega eru þó flestir sammála um að góðar einkunnir í bóklegum greinum eru einar og sér alls engin trygging fyrir lífsgæðum einstaklinga né fyrir farsælu samfélagi. Fleira þarf að koma til. Hér vil ég sérstaklega nefna hæfni einstaklinganna til að lifa í samfélagi við aðra, eða félagfærni. Að einstaklingurinn hafi heilbrigða sjálfsmynd, þekki rétt sinn, hafi gagnrýna hugsun, búi yfir sjálfsstjórn og taki ábyrgð á umhverfi sínu.
Áherslan á gæði skólabrags tengist hugmyndum um félagsfærni en National School Climate Center segir skólabrag vísa til einskonar mynsturs sem einkenni reynslu nemenda, foreldra og starfsfólks í skólanum og endurspegla viðmið, markmið og gildi í samskiptum, námi, kennsluháttum og stjórnun skólans. Þannig má segja að skólabragur standi fyrir skráðar og óskráðar reglur skólans. Allmikil áhersla er í skólabrag í gildandi aðalnámskrá grunnskóla samanborið við fyrri námsskrár. Enda er skólafólk farið að gefa áhrifum skólabrags aukinn gaum og rannsóknir sýna bein tengsl á milli góðs skólabrags og námsárangurs, áhuga nemenda á námi og félagsfærni. Komið hefur í ljós að umtalsverður munur er á námsárangri nemenda eftir því hvort skólabragur telst vera góður eða slæmur, fyrrnefndu skólunum í vil (Kramer II, Hodges og Watson, 2013). Þegar Svíar unnu að því, fyrir fáeinum árum síðan, að greina áhrif forvarna á tíðni eineltis í skólum komust þeir að því að sterkasta forvörnin felst í góðum skólabrag (Skolverket, rapport 353). Það er því til mikils að vinna.
Hvorki félagsfærni né góður skólabragur verða til að sjálfu sér né lærist það í bókum eða af blöðum. Heldur þurfa nemendur umfram allt að hafa góðar fyrirmyndir og starfa í umhverfi sem gefur þeim tækifæri til að þroska sjálfa sig sem einstaklinga og sem félagsverur, ekki einn tíma á viku, heldur í öllu starfi skólans. Kennsluhættir sem stuðla að heilbrigðu sjálfstrausti, ábyrgð, virðingu, samræðu, gagnrýnni hugsun, jafnrétti, frumkvæði, sköpun og samkennd eru meðal þess sem einkennir góðan skólabrag (Skolverket, rapport 353).
Mig grunar að ein helsta hindrun þess að félagsfærni og skólabragur fái jafn mikið vægi og bóklegar greinar sé að það getur verið flókið að meta árangur nemenda, og það er jafnan minni alvara í námi sem ekki er metið til árangurs. Ef fundin yrði leið til að mæla félagsfærni og ef gæði skóla yrðu borin saman á grundvelli skólabrags tel ég víst að áherslan á þessa þætti ykist til muna. Það myndi ekki aðeins búa nemendur betur undir líf í framtíðarsamfélagi heldur stuðlaði það jafnframt að betra framtíðarsamfélagi.
NKC