Hverju þarf að breyta?

sssÉg kem töluvert  í grunnskóla  á höfuðborgarsvæðinu og nær undatekningarlaust fyllist ég stolti og bjartsýni þegar ég  kem inn í kennslustofur.

Það sem helst ýtir undir þessar tilfinningar mínar er það hversu andrúmsloftið sem ríkir í kennslustofunum er afslappað. Nemendur ganga til sinna verka, spjalla saman, leita sér aðstoðar, sækja sér gögn og vinna í verkefnunum sínum.

Kennararnir ganga  á milli vinnustöðva nemenda spjalla, aðstoða og sinna eftir þörfum. Ég sé  gott samband milli kennara og nemenda og gott samband milli nemenda innbyrðis.  Það ríkir vinnufriður og þeir sem þola illa skvaldur fá heyrnatól til að eiga auðveldara með að einbeita sér. Svipað og maður sér í opnum vinnurýmum á vinnustöðum.

Að sjálfsögðu veit maður af því að námið sækist nemendum misauðveldlega  og að mörg börn eiga í margvíslegum erfiðleikum, en þar sem ég hef komið er lang algengast að andrúmsloftið í kennslustofunum sé til fyrirmyndar og maður finnur að kennarar bera hag nemenda fyrir brjósti.

Það sem ég velti þó stundum fyrir mér er hvort það sem gert er í kennslustofunum mætti ekki vera aðeins öðruvísi, ég er ekki alltaf  sannfærð um að viðfangsefni nemenda séu endilega  sérlega lærdómsrík eða áhugaverð og kennsluháttunum má örugglega breyta.

Að mínu mati, og eftir að hafa hlustað á kynningu frá Námsmatsstofun, þar sem m.a. kom fram  að á Íslandi ríki ekki meira agaleysi í skólum en í öðrum löndum skv. alþjóðlegum könnunum  (landið sem slíkt sker sig ekki úr varðandi agann, því mismunurinn er mestur á milli kennara) er mikilvægt að við leggjum  af tal um agaleysi í íslenskum skólum enda er það bara goðsögn.

Í ofangreindu alþjóðlegu könnunum og einnig íslenskum,( kom fram á kynningarfundi Námsmatsstofnunar í Hannesarholti í október 2014)  kemur fram að hér á landi er bein kennsla algengasta kennsluformið, en talið er vænlegra  til árangurs að nemendur vinni saman að úrlausnarefnum sínum.  Því tel ég að í stað þess að líta á það sem agaleysi að nemendur spjalli um vinnu sína og sæki sér viðeigandi gögn þegar þeim hentar að horfa á  tækifærin í þessu vinnulagi og vinna enn  markvissar að því að  temja nemendum vinnubrögð sem nýtast þeim  við að leysa flókin úrlausnarefni lífsins.

Þjóðir sem ná langt í alþjóðlegum könnunum hafa áttað sig á þessu og skólastarf hjá mörgum þeirra er  byggt upp með það í huga að nemenda fái tækifæri til markvissrar samvinnu þar sem allir hafa hlutverk og bera ábyrgð á ákveðnum verkþáttum .

Hlutverk kennarans er breytt og hann þarf  ekki lengur að ausa úr viskubrunni sínum, nemendur geta sótt  sér þær upplýsingar víða. Mér skildist á kynningunni hjá Námsmatsstofnun að  Finnland skeri sig þó úr hvað þetta varðar, en skv. bókinni Uplifting Leadership, How Organizations, Teams, Communities raise Performance eftir Andy Hargreaves o.fl.  hefur Singapore, sem lengi hefur trónað í efstu sætum í PISA, unnið í þessum anda síðan upp úr 1990 , þegar þau áttuðu sig á því að ekki var nóg að þjóðin væri samsett af hlýðnum þegnum sem einungis gera það sem þeim er sagt. Þau töldu mikilvægt að kenna nemendum að nauðsynlegt sé að taka áhættur, gera mistök og læra af þeim og leita eigin lausna. Í kjölfar þeirrar uppgötvunar sneru Singaporebúar skólakerfi sínu á haus og settu sér einkunnarorðin, „minni kennsla meira nám“. Eyðufyllingaverkefnum og verkefnum með einu réttu svari var úthýst.  Hér á landi eru þannig verkefni enn nokkuð algeng í kennslustofum.

Það að setja sér þessi einkunnarorð er ekki nóg eitt og sér, því í hugmyndinni „minni kennsla“ liggur ekki sú hugsun að kennarar dragi sig í hlé og láti nemendum og námsefni eftir að stýra því sem gert er. Hlutverk kennaranna breyttist og þeir þurftu að skipuleggja verkefni sem ýttu undir það að nám ætti sé stað hjá nemendum.  Námsbækur stýra ekki þannig kennsluháttum heldur þau viðfangsefni sem nemendur glíma við og í gegnum þau læra þeir að beita tungumálinu, nota stærðfræði, að vinna með öðrum, tjá sig og rökræða, miðla vinnu sinni, leita  sér upplýsinga og læra á fjölbreyttan hátt um sín viðfangsefni.  Á þessum nótum þurfa íslenskir skólar að vinna, margir gera það en skv. rannsóknum þó mun færri en það halda. Það virðist ekki vera samræmi milli þess sem skólafólk hér á landi telur sig vera að gera og þess sem blasir svo við í rannsóknum. Hópvinna hér á landi er oft nánst einstaklingsvinna þó nemendur sitji í hópum. Sjaldan virðist vera  beitt markvissu samvinnu námi (cooperative learning). Það er þáttur sem við ættum að hafa meiri áhyggjur af en agaleysinu og vinna markvisst í að bæta. Þannig getum við náð betri árangri í því að  ala upp einstaklinga sem sjá hag í því að vinna með öðrum, leysa vandamál saman, sem geta viðað að sér upplýsingum, unnið úr þeim  og sem læra að það eru oft margar hliðar á málum og engin ein kunnátta er betri en önnur. Allir búa yfir einhverjum hæfileikum þó ólíkir séu. Ég tel að þannig einstaklingar myndu í sameiningu byggja upp gott samfélag þar sem hugað væri að velferð allra.

Með því að einbeita okkur að innihaldi kennslunnar og kennsluaðferðum gætum við jafnvel líka náð lengra í  alþjóðlegum könnunum.

EK

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s