Sjálfsmynd kennarastéttarinnar

sjálfsvirðing myndErfitt er að hugsa sér samfélag þar sem engir kennarar eru til og jafnvel þótt fjarskiptatækninni fari stöðugt fram kemur hún væntanlega aldrei í stað kennara. Margt bendir þó til að  við munum fljótlega standa frammi fyrir alvarlegum kennaraskorti í grunnskólum. Kennarastéttin eldist án þess að nægilega margt ungt fólk komi í stað þeirra sem láta af störfum. En hvað heldur aftur af unga fólkinu? Það fyrsta sem kemur í hugann eru launin sem sannarlega eru allt of lág, en er það fullnægjandi skýring? Ef launin vega þyngst í starfsvali unga fólksins hvaða erindi á það þá í bókmenntafræði, stjórnmálafræði, listnámi og aðrar námsgreinar sem allir vita að veita enga tryggingu fyrir góðum launum hvað þá heldur öruggum störfum?

Um daginn heyrði ég af ungum og hæfileikaríkum manni sem sagðist vel geta hugsað sér að verða kennari, en hann gæti aftur á móti ekki hugsað sér að tilheyra kennarastéttinni. Þetta er sama afstaðan og Andy Hargreaves lýsti í erindi sínu á ráðstefnunni Kennarar framtíðarinnar – fagstétt á krossgötum sem haldin var hér á landi 13. og 14. ágúst, þ.e. of margt ungt og efnilegt fólk hafnar kennaranámi af því það vill ekki samsama sig kennarastéttinni. Ef þetta er raunin hlýtur að vera mikilvægt að leita svara við því hvað sé svo óaðlaðandi við ímynd kennarastéttarinnar að það komi í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun hennar og ógni þar með framtíð samfélagsins.

Væntanlega skiptir virðing samfélagsins hér miklu máli og þá ekki síður sjálfsvirðing kennara, hvernig þeir sjá  og ræða um kennarastarfið. Í grein í veftímaritinu Netlu árið 2002 benti Sigrún Aðalbjarnardóttir á að kennara virðist stundum skorta sjálfsvirðingu. Hún telur ástæðu til að taka slíkt alvarlega þar sem virðing annarra fyrir starfi kennara sé einn grundvallarþáttur farsæls skólastarfs og hún minnir á að sjálfsvirðing spretti af virðingu. Að mati Sigrúnar  eru það ekki eingöngu launa- og starfskjör sem liggja hér að baki, eins og stundum má ætla, heldur hugsanlega einnig efasemdir um gildi starfs þeirra. Kennarar séu ekki eins sannfærðir um mikilvægi þess og aðrar stéttir sem þeir bera sig saman við. Sigrún tengir sjálfsvirðingu kennara m.a. fagmennsku þeirra, þeirri sýn sem þeir hafa á starf sitt, þeim markmiðum sem þeir setja sér, því hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum og því hvernig þeir vinna með nemendum og koma fram við þá. Sjálfsvirðing kennara tengist þeirri virðingu sem þeir bera fyrir starfi sínu, sem birtist í hugsjónum þeirra og þeim metnaði og þeirri alúð sem þeir leggja í starf sitt. Sigrún spyr: Er í raun hægt að aðskilja sjálfsvirðingu kennara í starfi og fagmennsku þeirra?

Ég er ekki viss um að nægilega mikið hafi breyst síðan þessi grein var skrifuð. Auðvitað eru margir kennarar með sterka fagvitund og hafa lengi starfað af mikilli fagmennsku og ég veit að í sumum skólum er lögð sérstök áhersla á að efla fagvitund kennara m.a. með faglegri ígrundun um starfið t.d. um skilgreiningu á gæðum, um röksemdir fyrir val á viðfangsefnum og kennsluaðferðum. Væntanlega skila þessar áherslur sér í aukinni virðingu og trausti til skólans og kennaranna. En margt bendir til að sjálfsvirðing kennarastéttarinnar sé ekki nægilega sterk og það skilar sér út í samfélagið líka til unga fólksins sem er að velja sér starfsframa.

Ég tek því undir orð Sigrúnar Aðalbjarnardóttur þegar hún hvetur til þess að greint verði hvað valdi og fundin verði leið til að efla sjálfsvirðingu stéttarinnar og þar með stuðlað að því að hæfileikaríkt ungt fólk sækist eftir að ganga til liðs við kennarastéttina.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s