Dagana 30. og 31. ágúst 2013 fór fram námskeið fyrir móðurmálakennara Samtakanna Móðurmáls „Mother Tongues – Ticket to Better Futures“. Kennurum Pólska skólans var einnig boðið að taka þátt í námskeiðinu. „Farmiði til betri framtíðar“ eins og heiti námskeiðisins útleggst á íslensku, fór fram í Hlíðaskóla þar sem meira en 50 starfandi móðurmálakennarar frá 14 tungumálahópum tóku þátt.
Mikilvægt er að hafa í huga að hér er ekki að ræða um „móðurmálskennslu“, eða íslenskukennslu íslenskra nemenda, heldur um kennslu móðurmála / erfðarmála (e. heritage languages) tví- / fjöltyngdra barna.
Samtökin Móðurmál sem starfað hafa í hartnær 20 ár hafa ávallt haft mikilvægi móðurmála að leiðarljósi og buðu nú í fyrsta sinn öllum kennurum sínum á námskeið af þessu tagi. Meðal fyrirlesara voru Hulda Karen Daníelsdóttir námsráðgjafi og verkefnastjóri, Mica Allan kennari og þjálfari og Brynja Halldórsdóttir lektor við HÍn en þemu námskeiðisins snérust um kennsluaðferðir móðurmálakennslu í fjölbreyttum fjölmenningarlegum hópum. Þátttakendur fengu tækifæri til að kynnast hagnýtum aðferðum eða verkfærum til að nýta í vinnu með með tví- / fjöltyngdum börnum um leið og innsýn þeirra í í menningarlegt eðli tungumála dýpkaði og gefin voru gild rök fyrir móðurmálakennslu. Síðast en ekki síst þjappaði námskeiðið kennarahópnum saman og byggði upp stolt kennaranna sem eiga uppruna sinn að rekja til fjórtán ólíkra þjóðlanda.
Þessi hópur móðurmálakennara á margt sameiginlegt með kennurum í íslenskum skólum. Öll kennum við börnum móðurmál þeirra, beitum ýmsum einstaklingsmiðuðum aðferðum í margbreytilegum hópum, eflum sjálfsmynd barnanna, kveikjum áhuga á viðfangsefninu og hvetjum börnin til frekari náms.
Það er þó ákveðinn grundvallarmunur á því umhverfi sem móðurmálskennarar í samtökunum Móðurmál búa við og kennurum sem kenna í íslenskum skólum skv. íslenskum aðalnámskrám. Sá munur kristallast í því að þrátt fyrir að í íslenskum lögum, Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og aðalnámskrá, komi fram að börn eigi rétt á að eiga, tala og læra móðurmál sitt þá vantar formlega viðurkenningu á því námi sem fram fer hjá samtökunum Móðurmál. Um leið vantar viðurkenningu á starfi kennara samtakanna, þeir geta hvergi sótt sér ráðgjöf, endurmenntun né faglegan stuðning, aðstaða til kennslu hefur verið tímabundin frá ári til árs, ekki er um að ræða samráð við aðra kennara barnanna sem sækja móðurmálsnámið og svo mætti lengi telja. Síðast en ekki síst mætti nefna mikilvægi þess að menntamálayfirvöld á Íslandi hefðu frumkvæði að því að gefin yrði út samræmd námskrá eða námsvísir um kennslu fjölbreyttra móðurmála í íslensku skólakerfi þannig að um yrði að ræða verkefni sem allir kennarar barnanna okkar bæru sameiginlega ábyrgð á. Eftirspurn eftir móðurmálakennslu hefur aukist mikið undanfarin ár en í vetur eru um 250 margir nemendur í móðurmálskennslu á laugardögum á aldrinum eins árs til átján ára. . Samkvæmt skýrslu Fjölmenningarseturs eru nemendur með erlent móðurmál eða tvítyngd börn rúmlega 2.000 í leikskólum landsins en tæplega 3.000 í grunnskólum . Stærstur hluti nemenda er í leikskólum og grunnskólum á höfðuborgarsvæðinu þar sem kennsla samtakanna Móðurmál fer fram. Eitt helsta markmið samtakanna er að efla virkt tvítyngi barnanna og forðast afleiðingar neikvæðs tvítyngis.
Þrátt fyrir jákvæða þróun á sviði fjölmenningar er móðurmálakennsla á Íslandi langt frá því að vera sjálfsagður hluti af námi barna. Hægt er að segja að móðurmálskennslan sé ekki lengur á vögguskeiðinu heldur hafi tekið sín fyrstu skref út í lífið þrátt fyrir að þurfa áfram mikla handleiðslu.
Í ljósi ákvæða um móðurmálskennslu í nýrri Aðalnámskrá grunnskóla 2011 og í Barnasáttmála (2013), með tilliti til tölfræðinnar, menntunnarfræða og annara vísinda – förum við þess á leit við skólasamfélagið að hafa fjölmenningu í huga í kennslustofum landsins. Við óskum þess að kennarar víðsvegar á landinu bæti móðurmálskennslunni á langa verkefnalista sína og tryggi að öll tví- og fjöltyngd börn á Íslandi fái tækifæri til þess að efla móðurmál sitt og viðhalda því samhliða námi í íslensku sem öðru máli. Við kennarar hjá samtökunum Móðurmál erum ávallt tilbúin til samstarfs og vonum að með aukinni samræðu og samvinnu við íslenskt skólasamfélag fái börnin öll farmiða til betri framtíðar. Það er ávinningur þeirra og samfélagsins.
Hægt er að setja sig í samband við Samtökin Móðurmál með tölvupósti á modurmal@hotmail.com eða með því að skoða heimasíðu samtakanna:
Þá hefur verið gerður bæklingur fyrir kennara þar sem fjallað er um fjölbreyttar leiðir til að vinna með og viðhalda móðurmáli nemenda í íslenskum skólum.
Samtökin Móðurmál
Kriselle S. Cagatin, Renata Emilsson Peskova