Ég heyri á kennurum að þeim finnst þeir enn berskjaldaðri í dag en áður í kennslustundum. Mér er sagt að nemendur stundi það að taka kennarana sína upp undir viðkvæmum kringumstæðum, senda upptökurnar svo á samfélagsmiðlana og hlæja að þeim þar.
Þetta sama á við um myndatökur, nemendur sitja um kennara í tímum og taka af þeim myndir sem afhjúpa ófullkomleika þeirra. Opin buxnaklauf, ber magi, flasa á kraga, stór rass eða svitablettur á skyrtu er „fest á filmu“ og myndunum svo dreift um netið vinahópum til skemmtunar.
Þeir kennarar sem ég hef heyrt í segja að það sé eins og nemendur skilji ekki hvað þetta getur verið særandi, það sé eins og eitthvað hafi breyst varðandi það hvað sé prívat og hvað ekki.
Þegar ég var unglingur hlógum við að ákveðnum kennurum og töluðum illa um þá ef þeir voru t.d. með flösu, andfúlir, feitir, reyndu að vera fyndnir eða voru í glansandi buxum. Við leyfðum okkur að vera andstyggileg án þess að hugsa út í það að við værum særandi.
Illkvittni er ekki nýtt fyrirbæri en nú er tæknin nýtt til að finna henni farveg. Munurinn á því sem er að gerast í dag er því fyrst og fremst sá að dreifingin á illkvittninni er meiri og hún er gerð opinber. Þeir kennarar sem verða fyrir barðinu á þessari illkvittni vita því líklega frekar af henni en áður.
„Verður þá ekki að banna símana í kennslustundum?“ spyrja einhverjir, en þá benda kennarar á að þetta sé flóknara en svo. Bæði nota nemendur símana til að taka glósur og svo hafi komið fyrir að ef kennarar gera síma nemenda upptæka í tímum þá hóti foreldrar að kæra þá fyrir eignaupptöku.
Þetta vandamál snýst enda ekki um tæknina heldur snýst það um virðingu, samkennd, tillitsemi og ábyrgð. Nemendur þurfa að læra að kennarar eiga rétt á að vera öruggir í vinnunni. Þó valdahlutföllin séu ekki í jafnvægi þá er alls ekki í lagi að nemendur leyfi sér að brjóta á rétti kennara til einkalífs með þessum hætti. Ekki liði nokkrum starfsmanni vel á vinnustað þar sem viðskiptavinir sætu fyrir starfsfólki og næði því á mynd á viðkvæmum augnablikum og dreifðu um allt. Á því væri tekið á öllum vel reknum vinnustöðum og reynt með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að starfsmenn lentu í því að kúnnarnir eða þeir sem þyrftu á þjónustu að halda í fyrirtækinu, niðurlægðu starfsfólk með þessum hætti.
Það skapast ekki andrúmsloft trausts og lærdómsanda í kennslustofu þar sem nemendur hafa verið að skoða niðurlægjandi myndir af kennaranum. Virðingin þverr og nám fer forgörðum, því er meira í húfi en bara líðan kennaranna.
Foreldrar þurfa að læra að þeir bera ábyrgð á að kenna börnum sínum mannasiði og þeir þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir gera börnum sínum ekki gott með því að neita að horfast í augu við það að þau hagi sér með óásættanlegum hætti.
Kennarar þurfa að geta leitt bæði nemendum og foreldrum fyrir sjónir að hegðun sem þessi er ólíðandi, án þess að eiga á hættu að vera niðurlægðir af foreldrum.
Illkvittni er mannlegur eiginleiki sem við losnum trúlega aldrei við, en við stýrum því mögulega hversu mikið rými hún fær? Eða hvað, er þetta töpuð barátta? Væri ekki sorglegt ef eina ráðið gegn þessari hegðun væri að kennarar þyrftu að brynja sig gegn henni?
EK
Það kemur kjarna málsins kannski ekki við, en af hverju er þessi mynd með greininni?
hún er nú ekki valin af neinni djúphugsaðri meðvitund, var við hendina og því sett inn. Óvarlegt að túlka hana of mikið nema sjálfum sér til skemmtunar.
Greinin er góð og þarft innlegg í umræðu um skólastarf og fleira því tengt. Betra er að hafa öngva mynd en þessa, þar sem hún getur leitt huga lesandans frá kjarna málsins.
já ég er sammála þér, vildi að ég hefði hugsað þetta áður en ég setti myndina inn. Hún er alltof frek og gefur tilefni til ýmissa túlkana.
Bakvísun: Vinsælustu póstarnir 2013 | Krítin·